Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Side 37

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Side 37
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 4. tbl. 88. árg. 2012 33 hættu að langvarandi streita leiði af sér heilbrigðisvanda ef ekki er brugðist við. Niðurstöðurnar komu mér skemmtilega á óvart, þar sem ekki var fyrirséð að fjórar heimavitjanir hjúkrunarfræðings með ákveðinn fókus drægi marktækt úr vanlíðan og styrkti sjálfsmynd þátttakenda. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að ljósmæður sem vísuðu konum í geðteymið voru næmar fyrir því þegar kona lýsir vanlíðan sinni. Ekki er mælt með skimun í meðgönguvernd svo ljósmæður þurfa að notast við næmni sína og færni til að heyra það sem sagt er. Það er því verkefni fyrir forvarnarstéttir, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, að skoða áfram hvað það er í þjónustunni sem skilar árangri. Breytt áhersla í ungbarnavernd Á sama tíma og niðurstöðurnar lágu fyrir var Landlæknisembættið að endurskoða leiðbeiningar fyrir ung­og smábarnavernd en í nýrri útgáfu var aukin áhersla lögð á að efla tengslamyndun. Ég var fengin til að gera vinnuleiðbeiningar fyrir hjúkrunarfræðinga til að fylgja breytingunum eftir. Ég lagði áherslu á uppbyggingu samtalsins sem á sér stað milli hjúkrunarfræðings og fjölskyldu í heimavitjunum eftir fæðingu barns. Samtalið miðar að því að sinna þörfum hverrar fjölskyldu fyrir heilbrigðisþjónustu á þessum tíma. Flestir foreldrar fá fræðslu og stuðning varðandi ungbarn sitt. Breyttar áherslur felast í því að lýsa því fyrir foreldrum að ungbarnið fæðist bæði með hæfileika til að tengjast og verja sig fyrir áreiti. Í samtalinu fá foreldrar þekkingu á sínu barni og upplýsingar um það hvernig barnið þeirra tjáir sig með augljósum eða stundum óljósum hætti. Með samtalinu getur hjúkrunarfræðingurinn bent foreldrum á hvernig hægt er að lesa í atferli barnsins. Því betur sem foreldrar skilja hvernig barnið þeirra bregst við áreiti, og hvort það þurfi mikinn eða lítinn stuðning til að ná jafnvægi og ró á ný, því auðveldara eiga þeir með að koma til móts við þarfir þess. Það veitir barninu öryggi og eykur líkur á öruggri tengslamyndun milli foreldra og barns. Á þessum tímapunkti hafa sumir foreldrar ekki síður þörf fyrir að segja frá upplifun sinni á meðgöngunni, hvernig fæðingin gekk eða hvernig það var að koma heim með nýjan fjölskyldumeðlim og að aðlagast nýrri fjölskyldugerð. Í þeim tilfellum er mikilvægara að hlusta en að fræða. Með nýju vinnuleiðbeiningunum tel ég að hjúkrunarfræðingar hafi fengið öflugt verkfæri í hendur til að sinna forvarnarstarfi í heilsugæslu. Ekki er síður mikilvægt að nota vinnuleiðbeiningarnar til að bera kennsl á þær fjölskyldur sem þurfa á sértækari þjónustu að halda á þessum tímamótum. Lokaorð Ég sé ekki eftir því að hafa lagt upp í þessa námsferð. Ég fékk frábæra leiðsögn og stuðning í náminu en Marga Thome leiðbeinandi minn hefur hvatt mig áfram í öllu ferlinu. Ég fékk tækifæri til að vinna klíníska rannsókn innan heilsugæslunnar og gátum við Marga sýnt fram á gagnsemi nýrrar hjúkrunarþjónustu. Ferðalagið hefur þroskað mig í starfi og hjálpað mér að einbeita mér að því frumkvöðlaverkefni sem ég vinn að. Marga hefur lagt áherslu á að þekking sé ekki manns einkaeign heldur beri manni að koma henni áfram og hvetur það mig til að gefast ekki upp. Ég hef áhuga á að efla geðheilsuvernd á meðgöngu og eftir fæðingu í grunnþjónustu og mun halda áfram að finna því verkefni farveg. Það er mikilvægt að byrja heilsueflingu á meðgöngu ef forðast á að veikindi eða lífshættir, sem auka líkur á heilsufarsvanda, flytjist milli kynslóða. Það sem mér hefur fundist erfiðast er að kerfi breytast hægar en einstaklingar. Ég vil að unnið verði að því að finna leiðir til að koma auga á þann hóp sem þarf sértækari þjónustu í barneignaferlinu. Það þýðir að ekki þarf síður að leggja áherslu á annarrar gráðu forvörn sem er gert með mati á áhrifaþáttum fyrir geðheilsuvanda á barneignatíma. Sú áhersla er í samræmi við vilja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar­ innar sem hvetur til þess að leitað sé leiða til að finna hópinn sem er í áhættu fyrir heilsufarsvanda og nýta vel tíð samskipti við heilbrigðisstarfsfólk á meðgöngu og eftir fæðingu. Hver mínúta er mikilvæg og skiptir því máli hvernig þær eru nýttar. Nú í september skipulagði ég námsdag fyrir ljósmæður um hvernig efla megi tengslamyndun milli foreldra og barns í meðgönguvernd. Til þess þarf þekkingu og ný verkfæri og voru kynntar leiðbeiningar til að nota í samtali við verðandi foreldra. Í samtalinu er meðal annars rætt um þroskaferli barns í móðurkviði til að gera foreldra meðvitaða um vaxandi skynjun þess eftir því sem líður á meðgönguna, samhliða þroska skynfæranna. Með þeirri umræðu er leitast við að auka næmni foreldranna fyrir getu barnsins til að eiga samskipti við umhverfi sitt. Með auknum skilningi á barninu eiga foreldrar auðveldara með að sinna þörfum þess og þar með er lagður grunnur að öruggri tengslamyndun sem er nú talin vera mikilvægur þáttur í að efla þroska og heilbrigði. Ég vil gera orð stjórnanda sem hafði farið í meistarnám að mínum lokaorðum en samkvæmt henni jafnar maður sig ekki á því að fara í framhaldsnám. Með því átti hún við að þó að maður ætli bara að læra smávegis nýtt og fara svo aftur í gamla starfið opnast nýir möguleikar sem leiða mann á nýjar slóðir. Það var einmitt það sem gerðist í mínu tilfelli. Svefn­ og vökustig ungbarna er eitt af því sem heilsugæsluhjúkrunarfræðingar veita fræðslu um.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.