Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Page 45

Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Page 45
45 markvisst að því að byggja hvert annað upp og hrósa fyrir það sem vel er gert. En ég hef líka séð völdin tekin af fólki, hlutina gerða fyrir það að óþörfu og orð lögð í þess munn. Við þær aðstæður dregur manneskjan sig til baka, verður óvirk og starfsmaðurinn verður sá sem er með stjórnina. Ég hef sjálf dottið í gildrur af þessu tagi, á leið minni í gegnum námið. Ég hef spurt starfsmann um óskir skjólstæðings með skjólstæðinginn fyrir framan mig. Ég hef komið með svarið fyrir skjólstæðing í stað þess að bíða eftir að hann svari sjálfur og ég hef gert hluti fyrir skjólstæðinginn sem ég sá eftir á að hann hefði vel getað og örugglega viljað gera sjálfur. Öll gerum við líklega svona mistök og ætlum okkur ekki að gera illt en spurningin er hvort við lærum af mistökunum og reynum að láta þau ekki henda okkur aftur. Ég held líka að við gleymum oft þessu jákvæða bara almennt í samskiptum. Að leggja okkur fram um að segja jákvæða hluti við fólk, brosa til þess og hrósa því fyrir hluti sem það gerir vel. Þegar ég lít til baka yfir námið og bara lífið sjálft þá á ég ekki í erfiðleikum með að kalla fram myndir af fólki sem hefur vakið hjá mér þessa styrkjandi og eflandi tilfinningu. Það hefur aukið lífsgæðin með því að hvetja mig áfram, benda á nýjar leiðir, ný tækifæri og nýjar aðferðir við að takast á við hlutina. Það er kjarninn í iðjuþjálfun og þessa hugsun þurfum við að rækta með okkur sjálfum og miðla til skjólstæðinga, samstarfsfólks og þeirra sem við mætum á förnum vegi. Það er svo auðvelt, algerlega ókeypis og skilar sér margfalt til baka. Skjólstæðingsmiðuð sýn Já hvað er það að vera skjólstæðings- miðaður og hvernig fer maður að því að tileinka sér þá eiginleika? Þetta er líklega það hugtak sem við erum búin að lesa og læra mest um í náminu og erum mjög meðvituð um hversu miklu máli það skiptir að vera „svoleiðis“. Ekki ætla ég mér nú að halda því fram að við verðum nokkurn tíma fullnuma í þessu samt. Aðal ástæðan er kannski sú að manneskjan og þar með allir skjólstæðingar eru svo margbreytilegir. Ekki bara innbyrðis í hverjum hópi, sem við stöndum frammi fyrir, heldur frá einum tíma til annars og frá einum aðstæðum til þeirra næstu. Það þyrfti einfaldlega yfirnáttúrulega krafta og innsæi til að hitta alltaf í mark eða skilja alla skjólstæðinga til fulls. Það er hins vegar ákveðin grundvallarhugsun og viðleitni sem er lykillinn að skjólstæðingsmiðuðu starfi. Að ganga út frá því að hver einstaklingur hafi með sitt eigið líf að gera og að réttur hans til að taka ákvarðanir sé óvéfenglegur. Að skilja að ef skjólstæðingurinn vinnur ekki að því sem hann vill og telur mikilvægt þá getum við gleymt því að raunverulegur árangur náist. Jafnvel þó hægt sé að mæla einhvern árangur í grömmum, sentímetrum, orðum eða athöfnum og setja upp í töflur þá er árangurinn merk- ingarlaus ef skjól stæð- ingurinn sér hann ekki sem sinn eigin árangur, árangur sem hann vildi sjálfur ná. Mér er þó ljóst að það er auðveldara um að tala en í að komast þegar skjólstæðingsmiðuð sýn er annars vegar og þó að hægt sé að þylja upp alla kaflana í kennslubókunum þá er ekki þar með sagt að það sé alltaf auðvelt að vinna á þennan hátt. Það hef ég sjálf reynt í vettvangsnáminu bæði núna og í þeim fyrri. Ég hef gert íhlutunaráætlun fyrir einstakling án þess að hafa mikla hugmynd um hvað hann vildi í raun, vegna þess að hann tjáði sig ekki. Ég hef gert áætlun sem ég vissi að hafði litla þýðingu fyrir einstaklinginn í hinu stóra samhengi vegna þess að aðal vandinn var af allt öðrum toga og svo hef ég gert áætlun þar sem einstaklingurinn var búinn að segja mér að hann hefði enga iðjuvanda en „ég vissi“ að þeir voru til staðar. Auðvitað er þetta líka sífellt þjálfunaratriði og ég er ekki að segja að þessar áætlanir hafi valdið skaða eða verið algjörlega til einskis. Þessi dæmi eru heldur kannski ekki aðalatriðið heldur lærdómurinn sem þau skiluðu mér. Þau sýna að það er svo mikilvægt að reyna að skilja hvað það er sem hefur áhrif á skjólstæðinginn og hans raunveruleika. Allt frá lífsneista hans sjálfs yfir í flókinn heim stjórnsýslunnar, frá vilja, vana og framkvæmdafærni yfir í upplifun af sjálfum sér sem iðjuveru. Listin er að ná þessum skilningi og til þess þarf bæði þekkingu, innsæi og þolinmæði. Það þarf að gefa sér tíma til að hlusta og horfa, spyrja spurninga, spyrja nánar... og hlusta betur. Þannig kynnumst við manneskjunni, vonum hennar og væntingum. Það getur tekið langan tíma og matið getur tekið stöðugum breytingum. Skjólstæðingurinn gefur kannski misvísandi upplýsingar, hann getur átt við geðræna erfiðleika að stríða sem valda því að hann sér raunveruleikann ekki í „réttu“ ljósi. Hann getur átt við þroskahömlun að stríða sem gerir það að verkum að hann skilur kannski ekki það sem verið er að spyrja um, eða hann getur hreinlega ekki tjáð sig. Í vettvangsnáminu þessi fjögur ár hafa vaknað margar siðferðilegar spurningar og fleiri eiga eftir að vakna þegar út í starfið er komið. „Hvar eru t.d. mörkin á milli þess að vernda fólk, tryggja öryggi og leiðbeina því og þess að taka af því ráðin og stjórna lífinu, sem lifað er? Hversu mikið sjálfstraust hafa þeir sem glíma við iðjuvanda og hve mikla þekkingu hafa þeir á réttindum sínum? Hversu sterkt er stuðningsnet þeirra og getur of sterkt net kannski ýtt undir að skjólstæðingurinn er ekki spurður sjálfur? Þetta eru mjög flóknar spurningar og mér dettur ekki í hug að halda að ég kunni að svara þeim. Vettvangsnámið hefur kennt mér hvað það er flókið og vandasamt að veita skjólstæðingsmiðaða þjónustu og hvað það krefst mikillar þekkingar og þjálfunar. Ég hef líka séð hvað iðjuþjálfar eru sterkir í þessari hugsun og því mikilvægt að fá fleiri iðjuþjálfa til starfa. Ég held líka að það þurfi að gera átak í að fræða ófaglært starfsfólk um skjólsstæðingsmiðaða þjónustu, valdeflingu og réttindi fatlaðra. Einnig að bráðnauðsynlegt sé að styrkja réttindagæslu og að réttindagæslumenn komi meira til einstaklinga án þess að sérstaklega sé sóst eftir því eða erindi berist formlega. Fagmennska Ég hef verið að reyna að átta mig á hvað raunverulega felst í þessu hugtaki sem við notum gjarnan til að lýsa góðu starfi. Jú, það felur í sér að vinna út frá þeirri sérþekkingu sem fæst með námi í faginu og byggt er á rannsóknum og gagnreyndu starfi. Í faglegu starfi stefnum við alltaf að ákveðnu marki, við notum formlegar aðferðir til að meta hvernig til tekst og loks gerum við umbætur til að ná fram enn betri árangri. Mér finnst líka felast í hugtakinu að fagleg manneskja deili samkennd, stuðningi, hvatningu og fróðleik til þeirra sem hún vinnur með. Til þess að geta verið faglegur og viðhaft fagleg

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.