Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1997, Blaðsíða 15
láta af hendi það sem eftir var af hjörðinni og gerast rekstrarmaður á
ný. Hann hyggst flytja fjölskylduna í næsta bæ þegar hann snýr aftur,
en á meðan færir bróðir hans, sem á kofa við þjóðveginn, henni vistir
einu sinni í mánuði. Konan heldur enn tvær kýr, einn hest og nokkrar
kindur. Mágur hennar slátrar einni kind annað slagið, fær henni það
sem hún þarf af henni, en heldur hinu upp í aðrar vistir.
Hún er vön að vera ein. Einu sinni var hún ein í átján mánuði. Sem
krakki reisti hún sams konar skýjaborgir og aðrir; en allar hinar
ungæðislegu vonir hennar og væntingar eru fyrir löngu gufaðar upp.
Þá örvun og afþreyingu sem hún þarfnast fær hún úr Kvennablaðinu
og Guð sé henni næstur, hún hefur gaman af tískumyndunum.
Maðurinn hennar er Astrali og það er hún líka. Hann er maður sem
lætur skeika að sköpuðu, en er samt sæmilegasti eiginmaður. Ef hann
hefði ráð á mundi hann fara með hana til borgarinnar og halda henni
þar hús eins og prinsessu. Þau eru vön því að vera hvort í sínu lagi,
hún að minnsta kosti. „Þýðir ekkert að kvarta," segir hún. Hann kann
að gleyma því stöku sinnum að hann er kvæntur; en ef hann kemur til
baka með álitlega ávísun er næsta víst að hann fær henni obbann af
fjárhæðinni. Þegar hann átti peninga bauð hann henni nokkrum
sinnum til borgarinnar - leigði svefnklefa í lestinni, og hýsti hana á
bestu hótelunum. Hann keypti líka handa henni hestakerru, en hana
urðu þau að láta af hendi ásamt öðru.
Yngstu börnin tvö fæddust í óbyggðunum - annað meðan eigin-
maður hennar var að reyna að drösla til hennar drukknum lækni.
Hún var ein í það skipti, og afar máttfarin. Hún hafði verið með hita-
vellu. Hún bað Guð að senda sér aðstoð. Guð sendi Svörtu Maríu -
„hvítasta" ginið í landinu. Eða öllu heldur, Guð sendi „Jimmy kóng"
fyrst og síðan Svörtu Maríu. Hann stakk svörtu höfðinu í gættina, sá
strax hvers kyns var, og sagði glaðlega: „Allt í lagi, frú - ég sæki hana
gömlu mína, hún er niðri við lækinn."
Hún var ein þegar eitt barnanna dó. Hún reið nítján mílur eftir
aðstoð, með dána barnið í fanginu.
Klukkan hlýtur að vera langt gengin í tvö. Eldurinn er nánast
kulnaður. Krókódíll liggur með höfuðið fram á loppurnar, og horfir
til veggjar. Hann er ekkert augnayndi, og í Ijósinu blasir við margt
13