Morgunblaðið - 16.02.2018, Síða 16
16 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. FEBRÚAR 2018
ÚR BÆJARLÍFINU
Skapti Hallgrímsson
skapti@mbl.is
Akureyringar og hugsanlega ein-
hverjir nærsveitamenn upplifðu
ósvikna stemningu í íþróttahöllinni á
þriðjudagskvöldið þegar bæjarliðin
tvö, Akureyri og KA, áttust við í
næstefstu deild karla í handbolta.
Áhorfendur voru sagðir hátt í 1.200
og létu vel í sér heyra þegar Ak-
ureyri vann KA 24:20.
Ár og dagar eru síðan félögin
mættust í Höllinni, en jafnt varð í
fyrri leik vetrarins í KA-heimilinu
þar sem einnig var mikið fjör á
áhorfendapöllunum. KA var síðan
dæmdur 10:0-sigur þar sem Akur-
eyri notaði ólöglegan leikmann.
Þór og KA tefldu fram sameig-
inlegu liði, Akureyri – handbolta-
félagi, frá 2006 þar til í fyrra að KA-
menn ákváðu að leika undir eigin
merki á ný. Þórsarar og forráða-
menn Akureyrar ákváðu hins vegar
að áfram yrði haldið á sömu braut
þótt KA hyrfi frá borði.
Liðin eru nú í tveimur efstu sæt-
unum; Akureyri efst, þremur stigum
á undan KA, þegar fimm umferðir
eru eftir. Efsta lið deildarinnar fer
beint upp í þá efstu en liðið í öðru
sæti leikur í umspili við lið úr efstu
deild um sæti þar næsta vetur.
Eitt best varðveitta leyndarmál
bæjarins, að minnsta kosti á mat-
arsviðinu, er veitingahúsið á Norð-
urslóð neðst við Strandgötu. Þar er
norðurslóðasetur Arngríms Jó-
hannssonar til húsa og hann kom
líka upp litlum veitingastað þar sem
„mömmumatur“ er í boði í hádeginu
alla daga vikunnar.
Nú lætur Arngrímur þann
draum rætast að stíga einu skrefi
lengra; prófa að hafa opið að kvöld-
lagi og bjóða upp á fínni mat. Aug-
lýst hefur verið óvissuferð með hjón-
unum Friðriki V. Karlssyni, Friðriki
fimmta, og Arnrúnu Magnúsdóttur
annað kvöld.
Stefna Akureyrarbæjar og
Íþróttabandalags Akureyrar í
íþróttamálum til ársins 2022 var
samþykkt í bæjarstjórn á dögunum.
Þar má finna ýmislegt fróðlegt, en á
meðal þess sem vekur athygli er eft-
irfarandi: „Á Akureyri verði starf-
rækt færri, stærri og faglegri fjöl-
greinafélög í framtíðinni.“
Vilji bæjaryfirvalda er, skv. þessu
plaggi, að fyrir utan handbolta og
fótbolta, þar sem iðkendur eru lang-
flestir, verði hver íþrótt aðeins æfð í
einu félagi. Sett verða skilyrði fyrir
tímaúthlutunum í íþróttamann-
virkjum bæjarins og styrkveitingum
sem miðast við lágmarksfjölda iðk-
enda og þannig hvatt til eflingar fjöl-
greinafélaga.
Í þessari stefnu í íþróttamálum
segir að aðildarfélögum ÍBA verði
ekki fjölgað á komandi árum og nýj-
um félögum um íþróttastarfsemi
verði beint inn í önnur aðildarfélög
sem deildir. Þannig náist samnýting
stjórnunar og aðstöðu milli deilda og
félaga.
Einnig eru íþróttafélög hvött til
þess að skapa vettvang fyrir iðk-
endur sem ekki hafa hug á að keppa.
Svo góð reynsla er af notkun
metanstrætisvagns, sem Akureyr-
arbær leigði til eins árs í janúar
2017, að ákveðið hefur verið að
kaupa vagninn.
Ekki nóg með það heldur hafa
tveir metanvagnar til viðbótar verið
pantaðir og er reiknað með að annar
verði tekinn í notkun síðar á árinu en
hinn á næsta ári. Vert er að geta
þess að metanið sem notað hefur
verið er framleitt af Norðurorku.
Leikfélag Verkmenntaskólans
frumsýndi um síðustu helgi Ávaxta-
körfuna við góðar undirtektir. Meðal
áhorfenda var forseti Íslands, Guðni
Th. Jóhannesson; forsetinn var veð-
urtepptur í bænum eftir ýmis
skyldustörf að deginum og skellti
sér því í leikhús um kvöldið fyrst
tækifæri gafst til.
Tvær sýningar verða á Ávaxta-
körfunni næsta sunnudag og auka-
sýningu hefur verið bætt við sunnu-
daginn 25. febrúar vegna mikillar
spurnar eftir miðum. Sýnt er í Hofi.
Áætlunarferðum Sæfara frá
Dalvík til Grímseyjar hefur verið
fjölgað úr þremur í fjórar á viku yfir
vetrartímann en þær eru fimm á
viku á sumrin.
Vert er að geta þeirrar óvenju-
legu en ánægjulegu breytingar að
fargjald fyrir fullorðna í Sæfara hef-
ur verið lækkað verulega, úr 4.850
kr. í 3.500 kr. skv. heimasíðu bæj-
arins. „Þessar breytingar verða
sannarlega til að bæta samgöngur
við Grímsey og vonandi leiða þær
einnig til þess að heimsóknum ferða-
fólks til þessa útvarðar Akureyrar-
kaupstaðar í norðri fjölgi. Sveitar-
félögin Akureyri og Grímsey voru
sem kunnugt er sameinuð vorið
2009,“ segir þar. Grímsey er sem
sagt nyrsta hverfi Akureyrarbæjar
eins og margir vita.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Á Akureyri er löng hefð fyrir því að börn fari saman í hópum á öskudaginn, gleðji starfsmenn fyrirtækja með
söng og þiggi góðgæti fyrir. Þá er kötturinn enn sleginn úr tunnunni, t.d. í menningarhúsinu Hofi þar sem Jókerinn
og fleiri voru á ferð á miðvikudaginn. Kötturinn reyndist að vísu sælgæti en allir virtust sáttir við það …
Ósvikin stemning
í íþróttahöllinni
Öskudagur
á Akureyri
Varnarmálaráðherrar aðildarríkja
Atlantshafsbandalagsins ræddu
aukinn varnarviðbúnað og framlög
til varnarmála, eflingu herstjórna
NATO og stuðning við umbætur í
Írak á tveggja daga fundi sem lauk í
Brussel í gær. Þá funduðu ráðherr-
arnir með varnarmálaráðherrum
Finnlands og Svíþjóðar og utanrík-
ismálastjóra ESB um vaxandi sam-
vinnu NATO og ESB.
„Bandalaginu hefur á skömmum
tíma tekist að laga sig að breyttu ör-
yggisumhverfi með auknum varnar-
viðbúnaði. Vægi Norður-Atlants-
hafsins er að aukast sem endur-
speglast í því að meiri áhersla verður
lögð á eftirlit og viðbragð á þessari
lífæð milli Evrópu og Norður-Am-
eríku,“ er haft eftir Guðlaugi Þór
Þórðarsyni utanríkisráðherra í til-
kynningu frá ráðuneytinu, en hann
sat fundinn í Brussel.
Á fundinum var fjallað um fyrir-
hugaðar breytingar á herstjórnar-
kerfi bandalagsins þar sem gert er
ráð fyrir stofnun tveggja nýrra und-
irherstjórna sem munu annars vegar
fást við liðs- og birgðaflutninga og
hinsvegar öryggismál á Atlantshafi.
Bandalagsríkin hafa verið að auka
framlög til varnarmála jafnt og þétt
til að mæta breyttum öryggishorfum
og ræddu ráðherrarnir áætlanir um
aukin framlög, fjárfestingar og virk-
ari þátttöku í störfum bandalagsins.
Stuðningur bandalagsins við Írak
var einnig til umræðu í ljósi þess að
búið er að frelsa stór landsvæði úr
höndum samtakanna sem kenna sig
við íslamskt ríki.
Ísland hefur tekið þátt í þjálfun
íraskra sérfræðinga í sprengjueyð-
ingu og lagt til fjármagn í átakssjóði
sem styðja við slíka þjálfun og er
stefnt að því að halda þeim stuðningi
áfram, segir utanríkisráðuneytið.
Meiri áhersla
á N-Atlantshaf
Ráðherra á NATO-fundi í Brussel
Ljósmynd/NATO
Brussel Guðlaugur Þór ásamt Jens
Stoltenberg, framkv.stj. NATO.
www.securitas.is
BÚÐUÞIG
UNDIR
HEIMAVÖRN
FRAMTÍÐAR
SAMSTARFSAÐILI
E
N
N
E
M
M
/
S
ÍA
/
N
M
8
5
6
8
9