Morgunblaðið - 16.02.2018, Síða 31

Morgunblaðið - 16.02.2018, Síða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. FEBRÚAR 2018 hún orðaði það eina kvöldstund þrátt fyrir aðvörunarorð for- eldranna um að frumburðurinn væri óvenju raddsterkur. Þetta var sennilega eina kvöldið sem þær vinkonur fóru að sofa á sama tíma og við foreldrarnir og slepptu koníakinu, sem sennilega hefði þó ekki verið nein vanþörf á eftir pössunina. Hulda var í raun ómetanleg og hluti af fjölskyldunni í svo mörgu að það er erfitt að að velja einstök tilvik. Hún lét ekki sitt eftir liggja í stóru sem smáu. Síðustu árin byrjuðu jólin á því að fjölskyldan hittist hjá Huldu kl. 12 á aðfangadag, þar sem beið þessi þægilega og notalega stemming sem Hulda átti auðvelt með að búa til og var einmitt sérlega kærkomin á þessum tíma rétt í aðdraganda jólanna. Hún tók þátt í útilegum fjölskyldunnar og hlustaði ekk- ert á „tengdasynina“ sem voru óvanir slíku og þótti ástandið vera komið í vosbúðarmörk þeg- ar hitastigið var orðið svipað og í ísskápnum. Svaraði á sinn kaldhæðna hátt að nútíma svefnpokar þyldu 30 stiga frost og hún reiknaði alls ekki með svo miklu frosti um nóttina. Hulda sýndi mikinn styrk í veikindum sínum og tók þeim af miklu æðruleysi. Hún lagði áherslu á að kveðja Þórunni dóttur okkar áður en hún fór aftur til náms eftir áramótin. Hulda vildi eiga þá kveðjustund á heimili okkar, þangað sem hún hafði svo oft komið sem góður gestur og einstakur fjölskyldu- vinur. Hulda naut góðs af dætr- um sínum sem gerðu henni kleift að vera heima þegar veik- indi voru farin að há henni veru- lega. Við hittum hana ásamt yngsta syni okkar einungis fáum dögum áður en hún lést og þó að augljóst væri hvert stefndi kom hún því vel til skila hversu vænt henni þætti að sjá okkur og þá sérstaklega Finn, sem væri sætastur allra. Huldu fylgja góðar minning- ar. Við sendum Eddu, Sif og fjölskyldum þeirra samúðar- kveðjur. Helgi Sigurðsson. Við Hulda hittumst fyrst í janúar 1957 er við hófum nám við Hjúkrunarkvennaskóla Ís- lands ásamt góðum hópi holl- systra. Við vorum tuttugu ungar stúlkur víðs vegar af landinu sem hittumst þar fyrst og hóf- um þar nám. Þar bjuggum við á heimavist næstu þrjú árin við nám og störf. Því gafst nægur tími og tækifæri til að efla vin- skapinn á meðal okkar skóla- systranna. Á síðasta ári námsins kynntumst við Hulda verðandi eiginmönnum okkar sem voru æskuvinir og báðir að ljúka fyrrihluta námi í verkfræði frá Háskóla Íslands. Hulda giftist Þór Benedikts- syni í janúar 1961 og flutti fljót- lega til Kaupmannahafnar, enda stefndi Þór á að klára seinni hluta námsins við DTH í Kaup- mannahöfn. Þar stofnuðu þau heimili og Hulda hóf störf sem hjúkrunarfræðingur á Militær Hospitalet og vann þar um tíma. Haustið 1961 flutti ég svo til Kaupmannahafnar með mánað- argamlan frumburðinn Sigurð. Í ágúst ári seinna, eignuðust þau Þór og Hulda sitt fyrsta barn Eddu og í nóvember fæddist Ólöf dóttir okkar Finns. Það var mikill og góður samgangur milli heimilanna enda börnin á mjög líkum aldri. Árið 1965 fluttu Hulda og fjölskyldan aftur til Íslands og við svo ári seinna. Þá um haust- ið fæddust okkur báðum dætur, við eignuðumst Guðrúnu í ágúst og í september viku seinna fæddist Sif. Hulda hóf þá störf utan heimils að nýju sem rönt- genhjúkrunarfræðingur og vann sem slík mestan hluta starfsævi sinnar. Þegar báðar fjölskyld- urnar voru fluttar til landsins hófst tími mikilla ferðalaga um landið. Þá var einatt tjaldað og skipti veður ekki svo miklu máli enda náinn vinskapur milli fjöl- skyldnanna. Sömuleiðis eyddum við flestum jólum, áramótum og öðrum tyllidögum saman. Árið 1974 fæddist yngsta barn okkar Finns, Hulda Björk, og hlaut hún nafn Huldu og annarrar kærrar vinkonu, Bjarkar. Þegar fjölskyldurnar byggðu sér framtíðarheimili varð Garðabærinn fyrir valinu. Ekki var langt á milli heimila okkar og því oft farið á milli húsa. Hulda var mikil garð- yrkjukona og var oft skipst á plöntum og góð ráð fengin. Börnin okkar voru afskaplega samrýnd og hefur sá vinskapur haldist fram á þennan dag. Þeg- ar barnabörnin okkar komu til sögunnar fjölgaði tækifærum að nýju til að koma saman. Núorð- ið telja þau sig almennt tilheyra sömu fjölskyldunni. Þess vegna má með sanni segja að barna- börn mín hafi átt aðra afskap- lega góða ömmu þar sem Hulda var. Nú hefur Hulda kvatt eftir stutt en erfið veikindi en eftir stendur rúmlega sex áratuga vinskapur og ótal góðar minn- ingar. Ég sendi mínar innileg- ustu samúðarkveðjur til dætr- anna, tengdasonanna og barnabarnanna í þeirri fullvissu um að minning um góða móður og ömmu muni lifa. Þórunn. Allt frá barnæsku hefur Hulda og fjölskylda hennar ver- ið hluti af okkar lífi og minning- arnar frá samverustundum okk- ar óteljandi. Hugurinn reikar til baka til þess þegar alltaf var gott veður og fjölskyldur okkar í útilegu með Huldu, Þór, Eddu og Sif, nánast hverja helgi. Þannig er það að minnsta kosti í minningunni. Síðar tókum við upp þráðinn með mökum okkar og börnum við misgóðar undir- tektir fylgifiskanna sem ekki voru eins spenntir fyrir fjölskylduútilegu hefðinni. Hulda gaf að sjálfsögðu ekkert eftir og mætti í þær allar. Þegar makarnir voru tregir í taumi og kvörtuðu undan slæmum aðbún- aði í tjaldútilegunum stríddi hún þeim með sínum skemmtilega húmor með kaldhæðnum und- irtóni. Síðan dekraði hún auðvit- að við þá og reiddi fram veit- ingar sem ekki höfðu sést í útilegum fyrri ára. Áður en Hulda eignaðist sín eigin barna- börn, þau Elís Þór og Þórhildi Önnu, var hún sem önnur amma barna okkar systkinanna. Hún fylgdist ávallt með þeim í leik og í starfi og sýndi þeim enda- lausa athygli og áhuga. Hún heimsótti Sigga með mömmu og pabba til Seattle og tengdist þar með börnum hans sömuleiðis. Ekki má gleyma samverustund- um á afmælum, aðventu við undirbúning jólanna hvort held- ur sem var við laufabrauðsskurð eða jólagrautinn á aðfangadag og loks var hin ómissandi fjöl- skylduveisla um áramót þar sem Hulda var á heimavelli í eftirréttargerðinni. Þar fengu allir eitthvað við sitt hæfi enda Hulda afbragðs kokkur, hand- lagin og smekkleg svo eftir var tekið. Allar handprjónuðu peys- ur barna okkar bera þess aug- ljóst vitni. Hún lét sig ekki muna um að sauma skírnarkjól á fyrsta barnabarnið og bar það síðan undir okkur af sinni al- kunnu hógværð hvort við gæt- um hugsað okkur að notast við hann. Auðvitað hefur skírnar- kjóllinn gengið á milli barnanna í fjölskyldunni, enda einstaklega fallegur og vandaður eins og Huldu var von og vísa. Þá voru ófá símtölin þegar hringt var í Huldu og leitað ráða varðandi eldamennsku, handavinnu eða nánast hvað sem var, alltaf var Hulda jafn úrræðagóð. Við eig- um einnig góðar minningar frá ferðalögum erlendis nú síðast þegar stórfjölskyldan dvaldi saman í Suður-Frakklandi þar sem við áttum yndislega daga. Elís Þór og Þórhildur Anna voru sólargeislarnir hennar og samband þeirra mjög náið þar sem eiginleikar Huldu komu svo vel í ljós. Hún gaf sig alla að þeim á sinn yfirvegaða og ró- lega máta, veitti þeim óskipta athygli og elsku. Nú geta þau, á þessum erfiðu tímum, yljað sér við allar góðu minningarnar um einstaka ömmu sem alltaf var til staðar fyrir þau. Veikindum sín- um tók Hulda af miklu æðru- leysi og sýndi mikinn styrk allt þar til yfir lauk. Við minnumst elsku Huldu okkar með hlýhug og einlægu þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur, börnum okkar og fjölskyldunni allri. Elsku Edda og Stefán, Sif og Trausti, Elís Þór og Þórhildur Anna, missir ykkar er mikill. Skarð Huldu verður ekki fyllt en minning um einstaka konu lifir. Sigurður, Ólöf, Guðrún og Hulda Björk. Okkur langar að minnast hollsystur okkar og vinkonu, Huldu Jónasdóttur. Árið 1957 hittist hress hópur ungra stúlkna. Markmiðið var að læra hjúkrun. Ein þeirra var Hulda, glaðleg og brosmild. Við bjuggum í heimavist, nálægðin var mikil og tengslin sterk. Nemendur voru sendir í starfs- nám á hin ýmsu sjúkrahús landsbyggðarinnar. Hulda valdi Akureyri, enda heimabær henn- ar. Mitt val var líka Akureyri. Við bjuggum þar í nemabústað og áttum þar gott og skemmti- legt félagslíf með fleiri nemend- um. Ég held að við höfum allar verið þakklátar fyrir starfsval okkar, enda hjúkrun gott og gefandi starf. Okkur þykir vænt hver um aðra og áttum gott og ánægjulegt félagslíf í skólanum. Draumur flestra var að kynn- ast starfsemi sjúkrahúsa ann- arra landa. Hulda valdi Dan- mörku og fleiri fóru þangað líka. Fjölbreytt starfstækifæri urðu til þess að hópurinn tvístraðist um tíma, en náði saman aftur eftir útrásarþorstann. Við höf- um hist reglubundið í mörg ár, síðast hjá Huldu. Þá áttum við ekki von á að sá illvígi sjúkdóm- ur sem felldi hana væri svo skammt undan. Hulda æðraðist ekki. Stuttu fyrir andlátið hitti ég hana, spurði um líðan og hvort hún væri sátt. Svarið var: „Jájá, það er ekkert annað í boði. Sakna bara barnabarnanna.“ Við söknum þín. Vottum dætrum þínum og öðrum að- standendum dýpstu samúð. Að lokum viljum við kveðja þig með orðum Vald. Briem. Far þú í friði. Hin langa þraut er liðin, nú loksins hlauztu friðinn, og allt er orðið rótt, nú sæll er sigur unninn og sólin björt upp runnin á bak við dimma dauðans nótt. Fyrir hönd hollsystra, Hanna Kolbrún Jónsdóttir. Lúðvík Þórarinsson, bakara- meistari í Ólafsvík, andaðist sl. mánudag, 5. febrúar. Lokið er farsælum lífsferli þessa glað- lynda félagsmálamanns, sem kom ungur með sinni glæsilegu konu til Ólafsvíkur í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar og tók strax til óspilltra málanna við rekstur brauðgerðar þar vestra, fyrst í samvinnu við Kf. Dags- brún en síðar sem eigið fyrir- tæki. Ungu hjónin settust fljótlega að í næsta nágrenni við foreldra þess sem þetta ritar og er ekki að orðlengja að þau Lúðvík og Sig- ríður heitin áunnu sér fljótlega sérstaklega gott orð meðal allra sinna nágranna fyrir glaðlegt viðmót og vingjarnlega fram- komu. Breyttist það ekki þótt þau flyttu í önnur hverfi. Ekki skemmdi heldur fyrir að brauðgerð hafði ekki verið starf- rækt í Ólafsvík um langt skeið og aflaði framleiðsla Lúðvíks hon- um strax vinsælda þótt ekkert annað hefði komið til. Fljótlega fóru þau hjón að láta til sín taka í almennu félagslífi staðarins og má nefna að Lúðvík, sem hafði lengi verið virkur í skátastarfi, byggði á skömmum tíma upp virkt skátafélag í Ólafsvík, sem flestu ungu fólki þótti akkur í að fá að taka þátt í. Einnig er skylt að geta þess að þau hjón gengu fljótlega til liðs við Leikfélag Ólafsvíkur, sem starfað hefur þar frá síðasta fjórðungi 19. aldar, oft með mikl- um blóma. Hér verður látið stað- ar numið við upptalningu á fé- lagsmálaþátttöku Lúðvíks og þeirra hjóna, en þar mætti þó lengi bæta við. Mest og best minnist maður Lúðvíks fyrir hans góða viðmót og glöðu lund, sem sjaldan brást, sem og jákvæðni og stuðning við allt og alla sem minna máttu sín. Slíkt verður seint fullþakkað með orðum. Ég sem þetta rita vil ekki síst þakka honum og Sigríði heitinni, konu hans, fyrir vináttu og tryggð sem hann og þau bæði sýndu foreldrum mínum, ekki síst eftir að þau voru orðin öldr- uð og lasburða. Við bræður báð- ir teljum okkur standa í mikilli þakkarskuld vegna þessa, og þykist ég einnig mega mæla þar fyrir hönd systur okkar, þótt hún sé nú ekki lengur á dögum. Hvíli Lúðvík Þórarinsson í friði og hafi hann heila þökk fyr- ir allt og allt. Guðbrandur Þ. Guðbrandsson. Sannur heiðursmaður. Það voru orðin sem komu upp í huga mér þegar ég frétti af fráfalli Lúðvíks Þórarinssonar. Í lok desember 1988 lagði ég leið mína vestur til Ólafsvíkur þar sem ég hafði haft spurnir af að þar væri bakari sem mögu- lega hefði tök á því að taka inn bakaralærling. Hitti ég þar þau heiðurshjónin Lúlla og Sissu og var það mér mikið gæfuspor. Okkur samdist þannig að ég myndi hefja nám mitt við Brauðgerð Ólafsvíkur eftir ára- mótin og því flutti ég til Ólafs- víkur þar sem ég átti eftir vinna og læra bakarafagið með Lúlla, Sissu, Jóni Þór og Hildi ásamt fleiri starfsmönnum sem unnu þar. Ekki þótti þeim Lúlla og Sissu annað koma til greina en að ungur og óreyndur piltur fengi a.m.k. eina heita máltíð á dag og því var farið í hverju há- degi heim í mat til Sissu. Og ekki kunni ungi pilturinn á þvottavél þannig að Sissa sá um að þvo fötin af mér um nokkurra ára skeið. Í bakaríinu taldi Lúlli það best að Jón Þór yrði meist- arinn minn og gekk það eftir þó svo að í huga mínum væri það samvinna þeirra feðga sem skil- aði mér sem útskrifuðum bak- arasvein. Hjá Lúlla og Jóni Þór starfaði ég á mestu mótunarárunum og sú reynsla og þekking sem ég aflaði mér á þeim árum varð mér dýrmæt. Lúlla var kapps- mál að kenna mér réttu undir- stöðuatriðin þannig að ég öðlað- ist sjálfstæði til að geta leyst þau verkefni sem þurfti að sinna. Lúlli hafði rekið sitt bakarí með myndarskap til tuga ára og smám saman færðist reksturinn yfir til Jóns Þórs og fjölskyldu sem hafa haldið nafni Brauð- gerðarinnar á lofti æ síðan. Hjá mér kom smá rótleysi á tímabili og hvarf ég því til ann- arra starfa en þegar mest á reyndi var mér tekið opnum örmum hjá þeim feðgum og þannig tók við annað tímabil þar sem ég starfaði hjá þeim feðgum um fjögurra ára skeið til ársins 2001 þegar við fjölskylda mín ákváðum að flytja frá Ólafsvík. Ég hélt ágætis sambandi við þá feðga um nokkurra ára skeið en eins og með margt þá dvína tengslin og maður hefur fylgst með úr fjarlægð. Mér er þó minnisstætt að þegar ég þurfti á ráðgjöf að halda varðandi fagið var það auðsótt mál hjá Lúlla, hann kom með lausnina á vanda- málinu sem hafði plagað mig. Við leiðarlok vil ég þakka þér góða vináttu og ekki síst uppeld- ið sem ég og foreldrar mínir er- um ævinlega þakklát fyrir. Elsku Hrefna, Inga Birna, Guðlaug, Hildur, Jón Þór og fjölskyldur, ég og fjölskylda mín sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Páll Matthíasson og fjölskylda. Lúðvík réðst til starfa sem bakarameistari hjá Kaupfélag- inu Dagsbrún í Ólafsvík árið 1951. Fljótlega stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni fyrirtæki þeirra, Brauðgerð Ólafsvíkur sem starfar enn. Í Sjómannadagsblaði Snæ- fellsbæjar árið 1999 gefur að líta skemmtilega grein þar sem Lúðvík segir sögu sína hér í Ólafsvík í máli og myndum. Þá hafði Lúðvík starfað sem bak- arameistari og rekið farsælt fyrirtæki samfellt í hálfa öld. Við þau tímamót var sonur hans, Jón Þór, að taka við keflinu úr hendi föður síns við rekstur Brauðgerðar Ólafsvíkur. Greinin er afar skemmtileg og fróðleg í senn enda var Lúðvík einstaklega greinargóður og flutti mál sitt á þann hátt að eftir var tekið. Því kynntumst við alla tíð, fé- lagar hans í Rótarýklúbbi Ólafs- víkur. Jafnan gætti ákveðinnar tilhlökkunar meðal okkar þegar við mættum til funda þar sem Lúðvík flutti okkur einstaklega vel skrifaða pistla, sem ætíð voru fullir fróðleiks um lífið og tilveruna. Eins og gefur að skilja var stofnun og rekstur brauðgerðar, þeirrar fyrstu hér í þorpinu, – mikil þjónustuaukning enda vaxandi útgerð og fiskvinnsla með hraðri íbúafjölgun þorps- ins. En menningar- og félagslíf þorpsins naut einnig komu Lúð- víks en hann hafði fengist við leiklistarstörf og m.a. farið á leikstjórnarnámskeið. Hann tók þátt í mörgum uppfærslum leik- rita og fór með stór hlutverk en leiklistarlíf var jafnan með mikl- um blóma hér í Ólafsvík. Samhliða hröðum vexti at- vinnulífs og stækkandi byggðar- lags tóku nokkrir framtakssam- ir einstaklingar sig til og byggðu veglegt verslunar- og þjónustu- hús við aðalgötu bæjarins, – á Ólafsbraut 19. Framtakið vakti að vonum mikla athygli. Gár- ungar bæjarins fóru að nefna húsbygginguna mafíuna, auðvit- að á vinalegum nótum. Síðar bættust verkalýðsfélag- ið og atvinnurekendur í hópinn og byggðu verbúðir ofan á hæð- ina sem risin var. Var það einnig merkt framtak, að bæta aðstöðu farandverkafólks – og sjómanna sem var stór hópur sem hér vann á vertíðum ár hvert. Lúðvík var einn þessara framtakssömu manna og hóf hann rekstur Brauðgerðar Ólafsvíkur í húsi þessu árið 1975. Lúðvík var einn stofnenda Rótarýklúbbs Ólafsvíkur árið 1968. Áhugi hans og einstakir mannkostir nýttust vel við stofn- un klúbbsins og mótun starfsins alla tíð. Leysti Lúðvík það starf sem önnur í félags- og menningarlífi Ólafsvíkur vel af hendi. Fram- ganga hans bar ætíð vott um ljúf- mennsku og virðingu fyrir við- fangsefnum sínum. Lúðvík var enda sæmdur Paul Harris-orðunni fyrir starf sitt í klúbbnum, einni æðstu viður- kenningu hreyfingarinnar. Við félagar hans í Rótarý- klúbbi Ólafsvíkur minnumst Lúðvíks með þakklæti fyrir góð- an félagsskap og skemmtilegar samverustundir. Við færum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Blessuð veri minning þessa sómamanns og félaga. Fyrir hönd félaga í Rótarý- klúbbi Ólafsvíkur, Sveinn Þór Elinbergsson. Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, GUÐNÝ ARADÓTTIR, Fróðengi 3, 112 Reykjavík, er lést föstudaginn 9. febrúar á Land- spítalanum, verður jarðsungin föstudaginn 23. febrúar klukkan 13 frá Grafarvogskirkju. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim er vildu minnast hennar er bent á líknarsjóði Oddfellowreglunnar. Karl Jónasson Karl M. Karlsson Rósa P. Sigtryggsdóttir Björg Karlsdóttir Örn Guðnason Ari Karlsson Dóra Camilla Kristjánsdóttir Kristjana Jónsdóttir Björn Karlsson Svanhildur Rún Þórarinsdóttir Gísli S. Karlsson Sigurbjörg Karlsdóttir barnabörn og barnabarnabörn Innilegar þakkir fyrir hlýhug og stuðning vegna fráfalls og útfarar okkar ástkæra eiginmanns, föður, tengdaföður, afa og langafa, GEIRS GUÐMUNDSSONAR, Vitastíg 16, Bolungarvík, sem lést mánudaginn 15. janúar. Una Halldóra Halldórsdóttir Sólrún Geirsdóttir Jónas Guðmundsson Helga Theodóra, Halldóra, Þórhildur Bergljót, Einar Geir og Jónatan Leó

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.