Morgunblaðið - 16.02.2018, Qupperneq 23
23
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. FEBRÚAR 2018
Ef við ættum að tak-
ast á við það verkefni í
dag að ákveða hvernig
fyrirkomulag vinnu
eigi að vera eftir hálfa
öld, árið 2067, er aug-
ljóst að hvað sem við
ákveðum mun ekki
standast tímans tönn.
Það er engin leið að
sjá fyrir þá þróun sem
verður á vinnumarkaði
á næstu 50 árum. Það
besta sem við gætum gert væri að
miða út frá stöðunni í dag og aðlaga
okkur að breytingum.
Í því ljósi getum við horft á nærri
hálfrar aldar fyrirkomulag 40
stunda vinnuviku. Alveg eins og við
í dag eigum engan möguleika á að
sjá fyrir stöðuna 2067 gátu þing-
menn og aðrir sem rökræddu kosti
þess að stytta vinnuvikuna árið 1971
ekki gert sér í hugarlund þær öru
tæknibreytingar sem áttu eftir að
verða og áhrif þeirra á vinnuum-
hverfið. Hins vegar á umræðan á
þeim tíma og í dag að hluta til það
sammerkt að sumir sjá henni allt til
foráttu. Þá voru til dæmis ýmsir
þeirrar skoðunar að enginn ávinn-
ingur væri af því að hætta að vinna
á laugardögum. Þær skoðanir hafa
ekki elst vel.
Breytingarnar á síðustu fimm
áratugum hafa verið gríðarmiklar
og engin ástæða til að ætla að þær
verði minni á næstu fimmtíu árum.
Auknar tækniframfarir kunna til að
mynda að leiða til verulegrar aukn-
ingar á framleiðni sem gæti haft
umtalsverð áhrif á bæði fjölda og
gæði starfa. Því er mikilvægt að við
sem samfélag hefjum undirbúning
fyrir þessar breytingar
til að tryggja að launa-
fólk njóti góðs af þess-
um breytingum, eink-
um og sér í lagi í
gegnum jafnari dreif-
ingu vinnutíma starfs-
fólks.
Styttri vinnuvika
borgar sig
Eitt af því sem við
verðum að taka á dag-
skrá er stytting vinnu-
vikunnar. Á tímum þar
sem streita og álag eru
alvarleg vandamál væri fásinna að
hafna alfarið umræðu um þetta mik-
ilvæga hagsmunamál launafólks.
Erlendar rannsóknir sýna fram á
kosti þess að stytta vinnuvikuna án
launaskerðingar. Með því að stytta
vinnuvikuna má þannig stuðla að
auknu öryggi og betri heilsu launa-
fólks, fjölskylduvænna samfélagi og
auknu jafnrétti.
Þegar dregur úr álagi eykst
starfsánægja, það dregur úr veik-
indum og launafólk hefur meiri tíma
til að sinna fjölskyldu og áhuga-
málum. Á sama tíma sýna rann-
sóknir að afköstin dragast ekki
saman þótt vinnutíminn styttist og í
sumum tilfellum aukast þau.
Við viljum eflaust flest gera sam-
félagið fjölskylduvænna. Með styttri
vinnuviku geta foreldrar stytt þann
tíma sem börn eyða á leikskólum og
frístundaheimilum. Við getum feng-
ið meiri tíma til að hvílast, hitta vini
og ættingja, hreyfa okkur og sinna
áhugamálum.
Stytting vinnuvikunnar er einnig
mikilvægt jafnréttismál. Konur
vinna almennt minna en karlar og
eru líklegri til að velja hlutastörf.
Meginástæðan er vegna fjölskyldu-
ábyrgðar en þessi áhrif ólaunuðu
starfanna hafa veruleg áhrif á
tekjumöguleika kvenna yfir starfs-
ævina og ellilífeyrisgreiðslur. Stytt-
ing vinnuvikunnar getur stuðlað að
breytingum á þessu mynstri þar
sem konur leita þá síður í hlutastörf
og karlar fá aukna möguleika til að
samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf
og þannig stuðla að jafnari ábyrgð á
ólaunuðu störfunum.
Tvö tilraunaverkefni í gangi
BSRB hefur lengi beitt sér fyrir
styttingu vinnuvikunnar. Stefna
bandalagsins er að vinnuvikan verði
36 stundir en ekki 40 eins og hún er
nú. Ákvörðun um styttingu vinnu-
tíma verður þó ekki tekin nema að
vandlega athuguðu máli. Þess vegna
hefur BSRB tekið þátt í tveimur til-
raunaverkefnum á undanförnum ár-
um.
Tilraunaverkefni BSRB og
Reykjavíkurborgar fór af stað árið
2015 en markmiðið með tilrauninni
hefur frá upphafi verið að kanna
áhrifin á heilsu, vellíðan, starfsanda
og þjónustuna, bæði með tilliti til
gæða og hagkvæmni. Fjölbreyttar
mælingar eru framkvæmdar út frá
annars vegar hagsmunum vinnu-
staðanna og hins vegar starfs-
manna. Í ljós hefur komið að hags-
munir vinnustaðanna og
starfsmannanna fara afar vel saman
þegar kemur að styttingu vinnuvik-
unnar. Niðurstöðurnar eru svo já-
kvæðar að nýlega var ákveðið að
framlengja tilraunaverkefnið og út-
víkka þannig að það nær nú til um
2.200 starfamanna, um fjórðungs
allra sem starfa hjá borginni.
Reynsla borgarinnar af styttingu
vinnuvikunnar rímar vel við alþjóð-
legar rannsóknir. Starfsánægja hef-
ur aukist, það hefur dregið úr and-
legum og líkamlegum einkennum
álags, veikindi hafa dregist saman
en vinnuframlag haldist óbreytt
þrátt fyrir styttri vinnutíma. Þá hef-
ur samvinna starfsmanna aukist
sem stuðlar að góðri vinnustaða-
menningu.
Rétt er að taka fram að enginn
kostnaður verður af þessari stytt-
ingu, enda afkasta starfsmenn því
sama á styttri vinnutíma. Ef eitt-
hvað er ætti að fylgja fordæmi Svía
og skoða hversu mikið vinnustað-
irnir spara vegna minni skamm-
tímaveikinda og minni starfs-
mannaveltu.
Tilraunaverkefni BSRB og rík-
isins er styttra á veg komið en það
verður afar áhugavert að sjá niður-
stöður úr því verkefni þegar það er
komið lengra.
Framsýnir stjórnendur
stytta vinnuvikuna
Við horfum einnig til góðs árang-
urs einkaaðila af því að stytta
vinnutíma sinna starfsmanna. For-
svarsmenn Hugsmiðjunnar ákváðu
að ganga mun lengra en BSRB
leggur til og styttu vinnutíma
starfsmanna úr 40 stundum í 30.
Eftir tvö ár eru bæði eigendur og
starfsmenn í skýjunum með styttri
vinnutíma.
Þrátt fyrir svartsýnisspár afkast-
ar starfsfólkið ekki einungis jafn
miklu á sex stunda vinnudegi og það
gerði áður á átta stundum heldur
hefur framleiðni einnig aukist tals-
vert og tekjur fyrirtækisins þar
með. Þá hefur starfsánægja aukist
og veikindi minnkað verulega. Önn-
ur fyrirtæki, stofnanir og sveitar-
félög eru ýmist búin að ákveða að
feta þessa slóð eða eru í starthol-
unum.
Það vekur athygli að samtök at-
vinnurekenda skuli ekki sjá þau
tækifæri sem felast í þessari sam-
félagsbreytingu. Nærri hálfrar ald-
ar gamalt skipulag vinnutíma á ekki
að vera eitthvert náttúrulögmál sem
ekki má breyta. Ef hægt er að
halda óbreyttum afköstum en fá
ánægðara starfsfólk sem er sjaldnar
veikt, segir það sig ekki sjálft að
það er jákvætt fyrir atvinnurek-
endur?
Ánægt starfsfólk lykillinn
Hjá Reykjavíkurborg voru ýmsar
efasemdaraddir í garð tilrauna-
verkefnisins innan vinnustaða áður
en það hófst. Þær raddir þögnuðu
um leið og tilraunin hófst enda
reynslan góð. Þrátt fyrir augljósa
kosti virðist vera einhver tregða hjá
samtökum atvinnurekenda gagn-
vart því að skoða þessa leið. Sem
betur fer bíða framsýnir stjórn-
endur í öflugum fyrirtækjum, stofn-
unum og sveitarfélögum ekki eftir
því. Þeir vita sem er að ánægt
starfsfólk er lykillinn að árangri.
Titillinn á samantekt Hugsmiðj-
unnar á því hvaða áhrif það hefur
haft að stytta vinnuvikuna í 30
stundir síðustu tvö ár segir allt sem
segja þarf: „Minni vinna og allir
vinna.“
Eftir Sonju Ýri
Þorbergsdóttur »Með því að stytta
vinnuvikuna má
þannig stuðla að auknu
öryggi og betri heilsu
launafólks, fjölskyldu-
vænna samfélagi og
auknu jafnrétti.
Sonja Ýr
Þorbergsdóttir
Höfundur er lögfræðingur BSRB.
Minni vinna og allir vinna
Í eðlilegri hagfræði
er talað um atvinnu-
stefnu hverrar þjóðar á
þann veg að um sé að
ræða stefnumótun um
að vinna að þróun
þeirra atvinnugreina,
sem hafa mesta sam-
keppnishæfni til að
skapa lífskjör fyrir þá
þjóð sem í landinu býr.
Með þetta í huga er
verðugt að skoða hag-
fræði Nóbelsskáldsins. Hann var
bóndasonur og hefur eflaust hugsað,
„að ég skyldi nú þurfa að vera
bóndasonur, fæddur til þessa lúa-
lega lífsstarfs og eiga mér aldrei
uppreistar von fyrir bragðið“.
Það er sjaldnast talað um siðferð-
isþrek einstakra atvinnugreina. Um
landbúnað er talað með svofelldum
hætti: „Á síðari árum má sjá þeim
skoðunum mjög haldið fram í dag-
blöðum sumra stjórnmálaflokka, að
landbúnaðarstörf á Íslandi útheimti
meira siðferðisþrek en önnur störf
manna. Þessar kenningar um
„hetjuskap“, „sjálfsafneiun“ „skap-
festu“og aðrar dyggðir í sambandi
við landbúnað eru ævinlega, eins og
allur hálfyfirskilvitlegur málflutn-
ingur, fram bornar í viðkvæmum,
allt að því grátklökkum tóni.“ Þessi
til vitnun er alls ekki ný af nálinni.
Hún er 76 ára gömul og hana er að
finna í grein eftir rithöfundinn Hall-
dór Kiljan Laxness.
Það er ekkert eins hættulegt fyrir
bændur og að hlusta á himneskar
raddir landbúnaðarráðherra á
hverjum tíma. Það sem slíkt ráðs-
fólk hefur fram að færa er að „á
dalabóndanum byggist vöxtur og
viðgangur íslensks þjóðernis í fortíð,
nútíð og framtíð“ en hér er vitnað í
Rauðsmýrarmaddömuna, sem er
ekki ómerkari stjórnmálakona en ís-
lenskir landbúnaðarráðherrar.
Hnignandi
siðferðisþrek
Þegar grein skálds-
ins er rituð höfðu svo-
kölluð nýbýlalög verið
16 ár í gildi. Þá var
reiknað með að nýjum
bújörðum myndi fjölga
um tvær í hverri sýslu
næstu 50 árin, þannig
að lögbýli yrðu um
7.500 árið 1975. Svo
virðist sem siðferðis-
þreki hafi sjálfkrafa
hnignað.
Skáldið segir að „Samhliða skrif-
unum um siðferðilegt ágæti land-
búnaðarstarfa birta dagblöðin dap-
urlegar greinar um þá staðreynd, að
vinnuaflið ber sem óðast burt frá
þessari atvinnugrein til annarra at-
vinnugreina. Bændum og búaliði á
Íslandi fækkar með degi hverjum,
skýrslur sýna, að jarðrækt í landinu
dregst saman á síðustu árum og
ræktað land fellur aftur í órækt. Síð-
asti útreikningur dagblaðanna er sá,
að níunda hvern dag leggist eitt
bændabýli í eyði í sveitum landsins.
Á máli þjóðsögunnar mundi svo
heita, að forynja legði hramm sinn
yfir einn bæ á níu nátta fresti og
eyddi honum.“
Og hvað varð um alla þá er brugðu
búi? Skáldið hefur svör: „Hrepp-
stjóri og sveitarhöfðingi gengur frá
búi sínu til að rölta sem stefnuvottur
um göturnar í Reykjavík. Ættfaðir
tekur sig upp af jörð sinni í fjarlægri
sveit með ellefu börn sín og gerist
götusópari í Reykjavík. Óðalsbóndi,
sem telur, að ætt sín hafi setið frægt
höfuðból í ellefu kynslóðir, en slíks
eru fá dæmi á Íslandi, tekur sig upp
frá ættaróðalinu og flytur til
Reykjavíkur til að svíða svið í skúr
inn með sjó. Enn einn sveitarhöfð-
ingi bregður búi til að gerast vín-
tappari í Áfengisverzluninni. Og
þannig má halda áfram að rekja
dæmin hundruðum og þúsundum
saman. Þeir bændur eru varla til á
Íslandi, sem grípa ekki fegnir fyrsta
tækifæri til að hætta búrekstri, ef
þeir þykjast geta séð sér farborð í
kaupstað, jafnvel með lítilmótleg-
ustu störfum.“
Nóbelsskáldið fjallar
um kindakjöt
„Landbúnaður á Íslandi er þannig
stundaður, að það eru áhöld um fyrir
hvors þörfum hann sér miður, fram-
leiðendanna eða markaðarins. Land-
búnaðarafurðir eru hér fátæklegri
en í flestum öðrum löndum, þótt Ís-
land sé að mörgu leyti tilvalið land-
búnaðarland. Kjöt er hér fábreytt-
ara og lítilfjörlegra en annars
staðar, aðallega er á markaðinum
kindakjöt, og fæst þó ekki ferskt
nema stuttan tíma á ári, en er illæt-
ur matur mikinn hluta árs, bragð-
laust eða bragðvont af langri fryst-
ingu, næringarrýrt og
bætiefnasnautt.“ Svo heldur skáldið
áfram og segir:
„Það er ástæða til að fara nokkr-
um orðum til viðbótar um aðalfram-
leiðsluvöru íslenzka landbúnaðarins,
kindakjötið. Kindakjöt er, jafnvel
þótt sleppt sé allskonar óverkun
þess, yfirleitt heldur slæm vara. Til-
tölulega lítill hluti þess er markaðs-
hæft erlendis á venjulegum tímum,
a.m.k. til átu. Orsökin er sú, að ís-
lenzkt fé er yfirleitt ekki alið til
holda, heldur látið horast nokkurn
hluta ársins og safna fitu á öðrum
tímum. Fitulögin, sem af þessu
myndast í kjötinu, telja útlendingar
óþverra.“
Bætir þar ekkert um þó að Ás-
mundur Friðriksson, þingmaður,
fari um Suðurland og segi bændum
að hann ætli að selja kjöt af 2.000
dilkum í mötuneyti IKEA í Garða-
bæ. Eflaust var eitthvað af því til
sölu á sprengidaginn.
Nóbelsskáldið fjallar
um mjólkurvörur
„Mjólkur þeirrar, sem höfð er á
boðstólum í Reykjavík, er ill-
neytandi fyrir menn, sem gera
nokkrar kröfur til þessarar vöru,
hún er iðulega gamall upphristingur
og fjörefnarýr, þolir ekki daglanga
geymslu nema í aftakakuldum, oft
með allskonar óbragði eftir að hafa
gengið gegn um ónýtar vélar, og því
hefur verið haldið fram
með rökum af heilsufræðingum,
að hún sé beinlínis skaðleg neyzlu-
vara. Smjör það, sem kemur frá
smjörgerðarstöðvunum, er að vísu
góð vara, en það er svo lítið til af því,
að á tímum eins og nú, þegar al-
menningur hefur kaupgetu til að
leggja sér það til munns, hverfur það
af markaðinum vikum og mánuðum
saman. Þegar almenningur stendur
með fé í höndum í fyrsta sinn á æv-
inni, og þykist hafa efni á að kaupa
ófalsað viðbit, þá er það ekki til á
markaðinum! Þannig kemur það í
ljós, að smjör hefur hingað til verið
framleitt aðeins handa efnastétt
þjóðfélagsins.“ Víst er að framleiðsla
á mjólkurafurðum hefur lagast.
Mein landbúnaðar-
og landafræði
„Mein íslenzka sveitabúskaparins
er það, að hann er almennt rekinn á
grundvelli, sem lítið á skylt við land-
búnað og enn minna við iðjurekstur í
nútímaskilningi og getur í rauninni
varla kallazt atvinnuvegur í sannri
merkingu þess orðs.
Ef ætti að flokka hann, heyrir
hann ef til vill helzt undir sport eins
og þolhlaup eða í bezta falli stanga-
veiði.
Landbúnaðarstefna þess stjórn-
málaflokks, sem haft hefur tögl og
hagldir á sveitunum undanfarna ára-
tugi, Framsóknarflokksins, hefur of-
ur einfaldlega verið sú, að gera
sveitabúskap á Íslandi að atvinnu-
vegi fyrir ölmusumenn. Viðleitni
þessa flokks hefur miðað öll í þá átt
að reyna að skapa sér sem mest
kjósendalið í strjálbýlinu á grund-
velli kjördæmaskipunar, sem á sér
hvergi stoð lengur, nema ef vera
skyldi í landafræði.“ Nú hefur kjör-
dæmaskipan verið lagfærð.
Ný nefnd um beingreiðslur
Nú hefur landbúnaðarráðherra
stofnað nýja nefnd um beingreiðslur
til bænda. Slíkar greiðslur hófust
þegar skáldið skrifaði tilvitnaða
grein. Nefndin er svo stór að hún
þarf tvo formenn. Annar formað-
urinn er fyrir bændur en hinn fyrir
neytendur. Ekki er vitað hvort land-
búnaðarframleiðsla er fyrir bændur
eða neytendur.
Eftir stendur það sem skáldið
sagði 1942: „Landbúnaður á Íslandi
þolir ekki fólkshald, segja dagblöðin.
Það útleggst: Þau atvinnufyrirtæki,
sem framleiða matvæli handa lands-
mönnum, eru ekki fær um að launa
vinnukraft sinn. Þetta virðist vera
heldur öfugmælakenndur vísdómur.
Maður skyldi halda, að Íslendingar
þyrftu ekki að borða. Samt sem áður
verður þeirri staðreynd ekki hagg-
að, að sveitabúskapur getur yfirleitt
ekki keppt við annan atvinnurekstur
á vinnumarkaðinum. Hann er at-
vinnugrein, ef atvinnugrein skyldi
kalla, sem ber ekki vinnukraft!“
Draumur
„Í hverjum bæ býr draumur um
eitthvað betra, og menn hafa ímynd-
að sér í þúsund ár að þeir kæmust úr
kreppunni á dularfullan hátt og
eignuðust höfuðból og yrðu stór-
bændur, það er hinn eilífi draumur.
Sumir ætla að hann rætist ekki fyrr
en á himnum.“ Svo mörg voru þau
orð Nóbelsskálds.
Eftir Vilhjálm
Bjarnason » Samt sem áður verð-
ur þeirri staðreynd
ekki haggað, að
sveitabúskapur getur
yfirleitt ekki keppt við
annan atvinnurekstur á
vinnumarkaðinum.
Vilhjálmur
Bjarnason
Höfundur var alþingismaður.
Nóbelsskáld og landbúnaður