Skírnir - 01.09.1991, Page 183
SKÍRNIR ER SKÁLDSKAPURINN LEIÐ TIL HJÁLPRÆÐIS ?
445
þeirra að neðan sem stefndu að því að verða ný yfirstétt. í sam-
einingu áttu þeir eftir að kyrkja hugsjónirnar sem þeir þóttust
berjast fyrir í nafni heildar sem var aðeins fámenn klíka.
Niðurlæging mennta og lista hefur sjaldan orðið meiri.
Við þessu hefur tekið á síðasta áratug önnur manngerð en ekki
óskyld, hópsálin sem starfar fyrir markaðinn, án grímu með
menntað eða fagurfræðilegt yfirbragð. Hún er heiðarleg að því
leyti að hún hefur engan tilgang eða aðra hugsjón en þá sem fyllir
út í hvers kyns „dagskrá" og tengist sölu eða miðlun.
Tvöfeldni eða rugluð sýn og viðhorf „lista- og menntamanna"
samtímans lýsir sér meðal annars í því, að þeir eru stöðugt að
hamra á meðalmennsku samtímans en vísa þess á milli til liðins
tíma mannanna miklu. Um fordæmingu á meðalmennsku er það að
segja, að tæplega er hægt að hugsa sér meiri lágkúru en þá, að
„snillingur" skuli eyða vitsmunum sínum í fordæmingu á henni, í
stað þess að nota vitið, sem væntanlega er mikið, til að vinna að
þeim óunnu stórvirkjum sem mannkynið þarf á að halda og bíður
eftir, svo það komist úr kreppuástandi í lóðrétta stöðu.
2
Það er eins með lesandann, rithöfundinn og þá veru sem fæðist
með viti: ekkert af þeim getur verið endalaust undir verndarvæng
eða fylgt leiðsögn foreldra sinna þótt góðir séu og afkvæmið vilji
sanna að það hafi orðið sterkt af fylgispekt við lífsreglur þeirra.
Lömbin geta lifað eftir lögmáli eðlishvata rollanna, börn eftir
reglum foreldra sinna, en ég held að hjálp guðs nægði ekki til bjarg-
ar lesanda ef hann ætlar að lifa daglegu lífi eftir leiðsögn lista eða
skáldsögunnar, því fagurfræði þeirra og siðferðið í innihaldi ritaðs
texta eru svikul í hversdagslífinu og engin leið að leggja að jöfnu
daglega hegðun manns sem myndar þjóðfélag og siðferði persónu
innan fagurfræði orða, setningarskipunar eða byggingar í skáldsögu.
Það er hvorki hægt að færa daglegt líf inn í skáldskap né skáld-
verk inn í lífið. Andi listaverks og andi mannlegs lífs eru ólíkir
andar en skyldir að því leyti sem enginn hefur getað skilgreint
þannig að trúverðugt yrði um langan aldur. Sannleikurinn í þessum