Skírnir - 01.09.1991, Page 187
SKÍRNIR ER SKÁLDSKAPURINN LEIÐ TIL HJÁLPRÆÐIS?
449
skyldutilfinning? Samt er dæmið ekki fullkomið, því mörgum
foreldrum finnst vera skylda að horfa blíðlega á börnin sín, þótt
enginn haldi það út lengi, en líta aftur á móti undan ef einhver
gengur örna sinna á almannafæri. Væri hægt að segja það sama um
rithöfund sem telur sig vera „foreldri" að ósk Páls Skúlasonar;
horfir hann blíðlega til lesenda sinna eins lengi og þolgæði
augnaráðs hans leyfir, en lítur hann undan þegar bókmennta-
fræðingur skítur á sig í skoðunum sínum á snilld „föðurins" t.d. „á
almannafæri“ Félags áhugamanna um bókmenntir?
Rithöfundur sem er undir sínu oki hugsar hvorki um þarfir né
skyldur, hann berst áfram eins og rafstraumur við núning, leiddur
af siðferðisvandamáli orðanna, eftir að skáldskapurinn er horfinn af
stigi hins hreina niðs og kominn á svið bókstafa og orða. Hann er
svo óháður að sökum þess rafmagns sem fæst við núning fegurðar-
skyns hans við samfélagið eða annað getur hann látið ljót orð vera í
skáldskap sínum innan um hina mestu fegurð. Enda er það
siðferðislega rétt, listrænt séð að hans mati, þótt siðleysi væri talið
eða smekkleysa að nota slík orð við svipaðar aðstæður í daglegu lífi.
Raunar er þetta flóknara en hér er upp sett, en í þessu fer höf-
undi eins og unga listamanninum í skáldsögunni, hann vildi heldur
láta drepa sig en segja að Byron væri lélegt skáld. Þannig kemur
fyrri tegundin af rithöfundi alls ekki til móts við „lesendur" sína.
Hann reynir ekki einu sinni að verða sér úti um lesendur. Hann
lifir einn í rafknúinni harmsögu orðanna, ef svo mætti segja, og
það hvarflar ekki að honum hvort framtíðin kunni að meta eða
„skilja“ hann. Samt er svo kynlegt að þegar til lengdar lætur læra
lesendur og rithöfundar og jafnvel þjóðir oft meira af þannig höf-
undum en hinum sem voru umvafðir halelúja síns tíma. Eins læra
börn oft fleira af öðrum foreldrum en sínum eigin, og börn læra
heilmikið af öðrum börnum og líka „ósjálfrátt“ af sjálfum sér.
Einnig er það til í listum og í lífinu: að hægt sé að læra af því sem
maðurinn lærði ekki, og líka hitt, að læra að forðast lærdóm hinna
„lærðu“. Það er algengt í leitinni að róttækni andans.
Guðbergur Bergsson