Skírnir - 01.09.1991, Page 189
SKÍRNIR
VATN í POKA
451
kristnum skilningi. Ég kallaði einkum heilagan Tómas frá Akvínó
til vitnis um þetta, en hefði eins getað kallað til heilagan Ágústínus
kirkjuföður. Svo að hér tekur séra Gunnar upp eina megin-
kenningu mína, og telur sér trú um að hann sé að leiðrétta mig
með henni.
Þetta er slæmt. Hitt er þó hálfu verra að séra Gunnar gáir ekki
heldur að því að ég sýni fram á það í smáatriðum, og með
ítarlegum tilvitnunum í þokkabót, að Sigurbjörn Einarsson,
Vilhjálmur Árnason og Rudolf Bultmann gera allir - stundum
öldungis berum orðum - þann greinarmun á tvenns konar
sannindum sem ég kalla tvöfeldni. Hann virðist ekki hafa lesið
þessa kafla í ritgerð minni. Hafi hann gert það virðist hann treysta
því að lesendur hans hafi látið það ógert, og fullyrðir án þess að
reyna að styðja það rökum: „Þegar Þorsteinn talar um tvöfeldni í
meðferð sannleikshugtaksins veður hann reyk.“ Svona er að setja
vatn í poka.
III
Eitt af því sem séra Gunnar kippir sér upp við eru fáein orð um
ritskýringu guðfræðinga sem ég lét falla í ritgerðinni „Hvað er
réttlæti?" Hún birtist í Skírni 1984. Þar vitnaði ég til þeirrar
kenningar hans að guðspjöllin séu sambærilegri við leikrit eftir
Shakespeare um Hinrik Vta en sagnfræðilegar ritgerðir um sama
kóng. Þessa kenningu hafði ég til marks um trúleysi: „presturinn
trúir ekki ritningunum fremur en ég,“ sagði ég. Og þessi ummæli
skilur hver maður sem mæltur er á íslenzku. En séra Gunnar skilur
þau ekki. Hann spyr:
Hvar segir að undirritaður trúi ekki ritningunum? Er trúleysi fólgið í því
að reyna að skilja ritaðan texta, er trúleysi sjálfkrafa fólgið í sérhverri
viðleitni til að útskýra dæmisögur, frásagnir, ræður, í því að leggja út af lífi,
dauða og upprisu Jesú? Er trúleysi fólgið í því að reyna að benda á
bókmenntaform, sem nemendur í forspjallsvísindum þekkja, til þess að
útskýra hvers konar bókmenntaform guðspjöllin eru? (188)
Hvað er hægt að segja við mann sem svona spyr?