Skírnir - 01.09.1991, Page 210
472
HALLDÓR GUÐJÓNSSON
SKÍRNIR
með hótunum. Menn óttast hér um einkahagi sína ekki aðeins
vegna óhjákvæmilegs óstöðugleika í aðstæðum, sem fylgir því að
öllu er stjórnað með aðgerðum en ekki með lögum, heldur einnig
vegna þess að einstakir handhafar valds kunni að leggjast á þá.
Þessir umræðuhættir og aðfarir sjást reyndar einnig í þykjustu
þingfundanna þótt hún hverfi á lokuðum fundum þar sem í
fóstbræðralagi og til lausnar pólitískra vandamála eru gerðir einka-
samningar um myndun stjórna, skipun embætta og hver skuli hafa
hvað af eignum allra til ráðstöfunar að vild.
Við þessar aðstæður er það ákvörðunin sem hæst er sett og
einangruð frá skilningi, skynsemi og næmi, þannig að tillit til
aðstæðna, til framtíðar, fortíðar eða fólks getur ekkert verið.
Viðmið eru engin og menn ákveða bara allt og þá óhjákvæmilega
ekki neitt, heldur ber þá með straumnum í algleymisþrá og þörf og
fíkn til athafna, aðgerða og árangurs sem verður aðeins fullnægt í
þeirri sviðsettu þykjustu sem þeir ákváðu einnig og trúa betur en
nokkru öðru. Aðgerðaríkið og hið íslenska afbrigði þess standast
ekki mál neinna þeirra kenninga um stjórnmál sem hugsandi og
velviljaðir menn hafa smíðað á seinustu tveimur árþúsundum enda
er aðgerðaríkið ekki runnið undan rifjum manna sem hugsa heldur
manna sem ákveða og vilja ákveða en ekki hugsa. Það hefur sögu-
lega leitt til hörmunga og eyðileggingar og leiðir væntanlega að
rökum einum til lögregluríkis og ömurlegs og dauflegs ófrelsis,
jafnvel þegar það sneiðir hjá algerri vitfirringu. Menn sem vilja
aðeins ákveða en ekki hugsa enda nánast óhjákvæmilega í því að
ákveða að ekki skuli hugsað, þ.e. í vitfirringu. Þeir verða þá fyrst
sjálfum sér samkvæmir að þeir ákveði þetta og þá fyrst öruggir um
sig er þeir hafa komið þessari ákvörðun sinni í framkvæmd.
En líklega eru ekki ástæður til að hafa mjög miklar áhyggjur af
þessum augljósu einkennum aðgerðaríkisins hér með okkur. Menn
tönnlast gjarnan - einkum þegar sækja þarf rétt eða hagsmuni til
annarra þjóða eða skorast undan liðsinni við aðra - á því að við
séum fáir, fátækir og smáir og búum í hrjóstrugu landi, erfiðu
yfirferðar og langt úr alfaraleið. Þótt menn verði óðar sammála
um þetta þegar peningar okkar eða frændþjóða okkar liggja við er
mér ekki kunnugt að neinn hafi reynt að gera sér skipulega grein
fyrir hverju máli þessar staðreyndir skipta í raun. Það væri vert að