Skírnir - 01.09.1991, Side 226
488
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
það er að vera sannur vinur, en það kemur hinu vísindalega sannleiks-
hugtaki ekki hið minnsta við. Þetta er sannleikur af öðru en ekki æðra tagi.
Eg er mjög íhaldssamur á hið hversdagslega sannleikshugtak og það
kann að vera höfuðástæða þess að ég felli minnstan hug til þeirra greina
Páls er varða svokallaða „náttúrulega guðfræði"; en í þeim segist hann
fjalla um „Guð og boðskap trúarinnar án tillits til þess hvort opinberun
Guðs hafi átt sér stað eða ekki“ (P,21). Þar er ég á sama báti og Páll S.
Árdal,12 nema hvað ástæða mín er ekki sama og hans, að ég sé yfirlýstur
trúleysingi, heldur hin að mér sýnist lykilspurning kristninnar vera sú
hvort það sé satt (í hinni hversdagslegustu og bókstaflegustu merkingu) að
Jesú Kristur hafi tekið á sig syndir okkar með píslardauða sínum og síðan
risið upp úr gröfinni. Sé það ekki satt er kristin trú aðeins della og nánast
ekki umræðuverð, nema þá fyrir sálfræðinga og félagsfræðinga. Það er
með öðrum orðum fyrst og fremst reyndaratriði af vissu tagi hvort
kristnin er einhvers virði; og ég sé ekki á hvern hátt „náttúruleg guðfræði"
getur leitt okkur nær svari við þeirri spurningu.13
Víkjum þá að ástinni. Umfjöllun Páls um hana er stutt en hnitmiðuð og
fjörleg - og að minni hyggju bráðskemmtileg blanda af blindu og skyggni.
„Raunveruleg ást“ er að dómi Páls heildarsamband tveggja aðila sem gefa
sig hvor öðrum; hún er í senn það að elska og vera elskaður: „Að ræða um
ástina sem hugarástand eða afstöðu eins aðila er hrapalleg einsýni" því að
ástin getur ekki lifað af sjálfri sér, orðið „raunveruleg sjálfstæð eining". Sá
sem elskar en er ekki elskaður fer þannig á mis við raunverulega ást; svo
einfalt er það (P,388-390).
Nærtækt væri að finna að því í upphafi að Páll einskorði hugtakið ást
við kynferðislegan samdrátt karls og konu en gleymi öðrum birtingar-
myndum hennar, svo sem almennum náungakærleika, væntumþykju í
garð vina, ást á börnum og foreldrum o.s.frv. En í raun hefur Páll ákveðið
að einskorða umræðu sína við þá mynd ástarinnar sem Grikkir kenndu
við „Eros“; og er það í sjálfu sér engin goðgá. Höfuðkenning hans um
þessa tegund ástar er síðan sú, eins og við blasir af orðum hans, að hún
tákni óhjákvæmilega vensl en ekki eiginleika og það meira að segja sam-
hverf („symmetric") vensl: vensl sem aðilar A og B hljóti að vera í hvor
við annan. Þetta rengi ég hins vegar mjög. Það er að vísu satt að sá sem
elskar en er ekki elskaður fer á mis við þá samhverfu ást sem Páll einblínir
á (slíkt er raunar skilgreiningaratriði, innantóm sannindi) - en hvers vegna
þarf það að vera hið sama og að fara á mis við „raunverulega ást“?
Hugsum okkur mann sem haldinn er ólæknandi sjúkdómi en er jafn-
framt yfir sig ástfanginn af stúlku. Tilfinning hans er svo einlæg og djúp
12 Páll S. Árdal segist í ritdómi sínum, bls. 126, eiga erfitt með að skilja spjall nafna
síns um kristna trú enda sé sú trú annaðhvort „óskiljanleg eða ósiðleg"!
13 Umræðu um svipað efni má finna í ritgerð Þorsteins Gylfasonar, „Ljósið sem
hvarf“, Sktrnir, 164. ár, hausthefti (1990) og svari Gunnars Kristjánssonar, „Af
heimspekinganna vatnsrennum", Skímir, 165. ár, vorhefti (1991).