Skírnir - 01.09.1991, Page 234
496
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
þekking á réttu og röngu.22 Svarið er vissulega einfalt og afdráttarlaust en
mig uggir að það sé ekki rétt. Það eru til menn sem „allt er illa gefið það
sem þeim er sjálfrátt“, menn sem skilja hagsmuni annarra og kröfur
siðferðisins fullvel en ákveða að gefa skít í það allt saman. Það eru slíkar
persónur sem hrífast af „svívirðu spillingarinnar“, eins og Dmítrí lýsir, og
sem breyta ekki einu sinni gegn betri vitund af því að þeir hafa enga betri
vitund!
Það er að vísu rétt hjá Páli að oft er „siðferðið spillt einungis af þeim
sökum að menn neita allri skipulegri yfirvegun“ (5,72). Yfirvegunin er
góð, svo langt sem hún nær, og okkur ber að innprenta börnum okkar og
nemendum hana fram í rauðan dauðann. En spurning er hvort yfir-
vegunin hafi alveg þá dýpt og þá breidd sem Páll ætlar henni: þá dýpt að
með henni getum við kennt botns í þekkingu bæði á eigin brjósti og
alheiminum;23 þá breidd að hún geti höfðað til alls skyniborins fólks, líka
þess sem stendur á sama um velferð annarra. Yfirvegunin kann að vera
tvísýn í öðrum skilningi en þeim sem Páll eignar henni: það sé einnig
tvísýnt um hversu langt hún, ein og sér, geti leitt okkur í átt að betri heimi.
Páll Skúlason hefur í verkum sínum afsannað þau fleygu orð að nú á
dögum séu bara til prófessorar í heimspeki, engir heimspekingar. Með
þeim hefur hann í senn lagt drög að nýrri heimspekihefð á íslandi og
auðgað þá bókmenntahefð sem svo lengi hefur verið stolt okkar og sómi.
22 Sjá t.d. greinar Vilhjálms Árnasonar, „Um gæði og siðgæði“, Samfélagstíðindi, 5.
árg. (1985) og „Að skila ull eða æla gorinu. - Tekið undir kveðju Kristjáns
Kristjánssonar“, Samfélagstíðindi, 10. árg. (1990). Öndverð sjónarmið koma
fram í M. Stocker, „Desiring the Bad“, Journal of Philosophy, 76 (1979) og grein
minni, „Að vita og vilja. - Síðbúin kveðja til dr. Vilhjálms Árnasonar",
Samfélagstíðindi, 10. árg. (1990).
23 Sjá kafla II hér að framan.