Skírnir - 01.09.1991, Page 236
498
HALLDÓR STEFÁNSSON
SKÍRNIR
sem fólk innan ákveðins samfélags leggur í umhverfi sitt og athafnir,
myndar kerfi þar sem allt tengist innbyrðis og verkar gagnkvæmt hvert á
annað. Vel má vera að veruleikinn utan þessa merkingarkerfis (hið
ósegjanlega) sé til, en hann er ekki viðfangsefni menningarmannfræðinnar.
Mannlegur veruleiki er þannig séður sem afrakstur menningarinnar
(merkingarkerfisins og mannsheilans). Markmið fræðanna í slíku ljósi eru
því fremur túlkandi, þau sýnast vera leitin að því hvernig merking og þá
merkingarleysi verður til á hverjum stað og hverri stund, varðveitist og
gengur í erfðir milli kynslóða, hvernig sömu merkingu er komið samtímis
til skila með atferli á ólíkum sviðum hefðbundins samfélagslífs, eða
gegnum röð tengdra athafna og hluta.
Mannfræðin er því ljóslega breiður bás sem rúmar fjölskrúðug mark-
mið og ólíkar leiðir. Það sem mannfræðingar eiga hins vegar allir sam-
merkt er að byggja skrif sín á reynslu fenginni af nánum, langvarandi
kynnum af samfélagi og menningu „öðruvísi" þjóða, þjóðarbrota eða
stétta. Hluti af eldskírn þeirra var og er vettvangsrannsókn þar sem allt
þarf að byggja frá grunni, einhvers konar endurfæðing í nýjum heimi.
Samkvæmt grundvallarhugsjón fræðigreinarinnar snýr mannfræðingurinn
aftur til síns heima, kemur ofan af fjallinu, útúr eyðimörkinni eða frum-
skóginum með þéttskrifaðar minnisbækur í malnum, umbreyttur maður.
Magnaður af vitneskjunni um afstæði félagslegs veruleika öðlist hann
kennivald innan akademíunnar. Utan hennar hefur boðskapur hans hins
vegar æði oft fallið í misjafnan jarðveg. Þess eru dæmi að vitnað hafi verið
til verka mannfræðinga á yfirborðskenndan hátt, og slíkt hafi orðið til
þess að ala á hugmyndum um framandleika „villimanna" frekar en að
uppræta fordóma eins og til var ætlast. Auk þess hefur orðið uppvíst um
misnot þeirrar vitneskju, sem mannfræðingar öfluðu, í hernaðarlegum og
pólitískum tilgangi til þess að bæla niður andspyrnu gegn erlendum
ítökum og til að fá innsýn í samfélagsgerð og ná þannig betri tökum
utanfrá á valdataumum ólíkra samfélaga.
Sjötti og sjöundi áratugur þessarar aldar voru tímar mikillar baráttu og
umtalsverðra sigra í viðureigninni við menningarlega kúgun og arðrán
vesturvelda á þjóðum heimsbyggðarinnar. I uppgjöri voru mannfræðingar
gerðir ábyrgir fyrir því valdi og tilhneigingu til valdníðslu, sem fólst í
verkum þeirra. Þrátt fyrir yfirlýst markmið fræðigreinarinnar um
rannsóknir á eðli og lögmálum mannfélaga almennt varð sá skilningur æ
útbreiddari meðal þjóða þriðja heimsins að maðkur leyndist í mysunni.
Mannfræðin birtist nú sem safn afstæðrar þekkingar á „þeim" (frum-
stæðu) til aðgreiningar frá „okkur“ (Vesturlandabúum). Þessi tilbúna
þekking, sem jókst og þróaðist á Vesturlöndum, skapaði „hina“ í mynd
sem mótuð er af því grundvallar ójafnræði sem ávallt ríkir á milli þeirra
sem þekkja og hinna sem skipa flokk „verðugra rannsóknarefna“.
Einn þáttur í sjálfstæðisviðleitni fyrrverandi nýlenduþjóða hefur þess
vegna birst sem meðvituð andstaða gegn og afneitun á þeim myndum sem