Skírnir - 01.09.1991, Síða 237
SKÍRNIR HAFRÆN MANNFRÆÐI OG AFLABRÖGÐ
499
fulltrúar fyrrverandi nýlenduherra drógu upp af þeim. Þannig dróst
vettvangur fyrir rannsóknir mannfræðinga í þróunarlöndunum skyndi-
lega saman á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar. Ástæðan var ekki aðeins
að leyfi fengust ekki lengur eins auðveldlega og áður til rannsóknardvalar,
heldur jafnframt sú að æ fleiri mannfræðingar héldu aftur af sér, urðu sér
meðvitaðri um það pólitíska inntak og hættuna á misbeitingu valds, sem
leyndist í „vísindalegu" starfi meðal efnalega vanþróaðra þjóða. Vestræn
mannfræði hefur því átt undir högg að sækja um alllangt skeið, en það
hefur blessunarlega leitt til skapandi sjálfsskoðunar og sjálfsgagnrýni
innan fræðigreinarinnar. Mikill meirihluti mannfræðinga fæst eftir sem
áður við rannsóknir utan sinna heimaslóða, í fjarlægum löndum, en skrif
þeirra bera núorðið áberandi merki meðvitundar um hættuna á misbeit-
ingu kennivalds.
Sambúð manns og sjávar
Fyrir nokkrum árum (1987) kom út bók með þessum titli eftir Gísla
Pálsson dósent í mannfræði við félagsvísindadeild Fíáskóla Islands. Um
brautryðjandaverk er að ræða, því annað hefur ekki að minni vitund birst
umtalsvert í bókarformi á íslensku sem ótvírætt geti talist til mannfræði.
I formála bókar sinnar minnir Gísli lesendur á að samfélögum manna
hafi löngum verið skipt í flokka „með tilliti til þeirra auðlinda sem nýttar
eru hverju sinni“. Hættir við öflun viðurværis (söfnun, veiðar, akuryrkja,
hirðingjalíf, fiskveiðar o.s.fr.) hljóta að hafa áhrif á samskipti fólks
innbyrðis og við umhverfi sitt. Þannig er það markmið Gísla að kynna
fyrir lesendum sínum ákveðið svið mannfræði sem hann kallar „hafræna
mannfræði“ og sýna um leið fram á, hvernig veruleiki íslensks samfélags
tengist því. Hafræn mannfræði byggist nefnilega á samanburðarrannsókn
á fiskveiðisamfélögum ólíkra heimshluta, og leitast við að svara nokkrum
mikilsverðum en jafnframt ærið flóknum spurningum þar að lútandi.
Hvernig er staðið að því að dragp björg í bú við sjávarsíðuna víða um
heim? Hvaða sess hafa fiskveiðar skipað í hagsögu mannsins? Hvaða þýð-
ingu hefur glíman við lagardýr fyrir samfélag og vitsmunalíf fiskimanna?
Að hve miklu marki eru samskipti þeirra breytileg frá einum stað til
annars?
Bók Gísla er fróðleiksnáma sem gerir lesendum kleift að leita svara við
ofangreindum spurningum og víkka þannig sjóndeildarhring sinn langt
útfyrir íslenskan skerjagarð. Þar með er þó ekki öll sagan sögð! Vandlátir
bókaormar gætu látið blekkjast og þóst full saddir af léttvægu fóðri í
formi almennra inngangsrita, undirorpnum þeim dæmigerða veikleika að
fjalla um allt og þar með ekki neitt. Það á ekki við í þessu tilfelli. I bók
Gísla leynist líka, þegar betur er gáð, markvissari og afmarkaðri þráður
sem gengur í gegnum alla kafla hennar. Gísli hefur valið sér eitt afmarkað