Skírnir - 01.09.1991, Page 243
EINAR FALUR INGÓLFSSON
Af draugum og sérlunduðum
drengjum
Hugað að sögum eftir Gyrði Elíasson
og Sigfús Bjartmarsson
Gyrðir Elíasson
Svefnhjólið
Mál og menning 1990
Sigfús Bjartmarsson
Mýrarenglarnir falla
Mál og menning 1990
I
í æsku hlakkaði ég alltaf til að fara í sveitina. Jafnvel meira en til jólanna
og ekki var það verra þegar sveit og jólum var slegið í eitt; hangikjöt og
jólaöl á borðinu hjá ömmu og afa, og fyrir utan lúrði kolsvart
jólamyrkrið, svo þykkt að það mátti skera með brauðhníf. Á gamlárs-
kvöld var hátíð og kveikt í bálkesti. Við Fagurhólinn hafði allskyns drasli
verið safnað í haug á jólaföstunni og tækifærið notað til að brenna ýmsu
smálegu sem til féll við búskapinn: þar voru tómir áburðarpokar,
bindigarn, brotnir girðingastaurar og slitin langbönd úr görðum fjárhúss
sem hafði verið endurnýjað að hluta. I froststillu kvöldsins var stungið af
frá Andrési útvarpsstjóra, eldur lagður í haug af nokkurra mánaða
gömlum Tíma, bensíni dælt uppúr tankinum á hlaðinu og síðan skvett á
köstinn: logarnir gusu upp og lýstu hjarnið og húsin og myrkrið í kring
varð að þoka - það faldi sig í löngum skuggunum bakvið gamla bæinn og
fylgdist með úr fjarlægð ásamt annarsheimsverunum og jafnvel forn-
kappinn í hólnum með hjálminn hringlandi ofaná holri kúpunni gat ekki
stillt sig um að kíkja. Síðan kviknaði á köstum við nágrannabæina, um
sveitina teygði einn og einn logi sig til himins; stór köstur á Múla, ágætur í
Einholti, og þarna sjáiði á Gýgjarhóli, og jafnvel bjarmi frá nokkrum
austurí Hreppum...
Það var á slíku gamlárskvöldi sem manni leið hvað best. Þögnin þetta
líka djúp og allt heyrðist svo ógnar vel. Friðsæld sveitarinnar rómantísk
og fámenni á staðnum, skepnurnar búnar að fá hátíðarskammtinn af heyi,
lýsi, fóðurbæti og ég stóð í túnfætinum og horfði á bálkestina brenna út
Skírnir, 165. ár (haust 1991)