Skírnir - 01.09.1991, Qupperneq 244
506
EINAR FALURINGÓLFSSON
SKÍRNIR
árið niður alla sveit og fann sterkt fyrir því að maður er aldrei alveg einn
og að myrkur er bara bilið milli bæjanna.
II
Niðurlag minninganna hér að framan fæ ég lánað úr Ijóðum tveggja
höfunda; ljóðum úr bókum sem þeir sendu frá sér á undan skáldsögunum
sem hér eru til umfjöllunar, ljóðum sem segja þó nokkuð um þær
skoðanir og viðhorf til lífsins sem persónur skáldsagnanna endurspegla.
„Eg er aldrei alveg einn"1 segir ljóðmælandi Gyrðis Elíassonar og er ólíkt
rólegri og sáttari við tilveruna en lesendur eiga að kynnast úr fyrri
ljóðabókum skáldsins, hann er að samsamast umheiminum og alltaf er
einhver í fylgd með honum; hvort sem það eru verur þessa heims eða
annars, og vissulega kann þeirri samfylgd að fylgja einhver myrkfælni.
Sigfús Bjartmarsson veltir svipuðum hlutum fyrir sér en tekur á þeim á
annan hátt: „myrkur er bara bilið milli bæjanna"2 segir hann, herðir sig
gegn ásókn óttans, og reynir að vísa frá sér hugmyndum um tilveru sem
fellur ekki að sjáanlegum heiminum innan fjallahringsins.
Svefnhjól Gyrðis og Mýrarenglarnir falla eftir Sigfús, eru um margt
ólíkar sögur, en þó ekki síður líkar. Þær sýna að mörgu leyti svipaða
heima og lífsskoðanir og við lestur á þeim vöknuðu með mér svipaðar
spurningar. Formgerðin er þó allólík. Mýrarenglarnir eru sex sögur úr
norðlenskri sveit, harðri og erfiðri, og tengjast þær gegnum vitund
sögumannsins. Hann er þó ekki alltaf sami maðurinn; þeir sem segja frá
eru á ólíkum aldri og tengsl sagnanna við áþreifanlega og raunverulega
veröld eru missterk. Kal er í túnum, fuglar eru skotnir og börnin keppast
við að verða fullorðin eins fljótt og mögulegt er.
Skáldsaga Gyrðis er þétt saumuð saman: byggingin hnitmiðuð, sögu-
hlutar spegla hver annan, endurtekningar meðvitaðar og vandlega unnar.
Sögumaðurinn er fyrst staddur í sveit, hann virðist deyja og þá fara mörk
draums og veruleika að skriðna. Hann sofnar í baði og vaknar upp á
öðrum stað og skilur ekki alveg hvers kyns er, langar heim en sofnar aftur
í baði, vaknar í Reykjavík og áttar sig loks á því að hannn er draugur,
sættir sig við „lífið" og kemst þá heim að lokum.
Bygging beggja þessara bóka er sterk og heillandi, og þegar við bætist
öguð, sjálfstæð og ljóðræn notkun íslenskunnar, drífa þær lesandann
áfram. Stundum veittu sögurnar mér þannig ekkert næði til að staldra við
um stund og hugsa um það sem ég hafði þegar lesið; stílfærni höfundanna
er jafn mikil og þeir stíla ólíkt, svo annaðhvort var að halda í við
frásögnina eða missa af einhverju ella...
1 Ur ljóðinu „Samkennd", Tvö tungl, Mál og menning, Reykjavík 1989, bls.32.
2 Ur ljóðinu „Á sveig“, Án fjaðra, Mál og menning, Reykjavík 1989, bls. 91.