Skírnir - 01.09.1991, Side 257
SKÍRNIR AF DRAUGUM OG SÉRLUNDUÐUM DRENGJUM
519
sem kunni ekki að hræðast, sögu sem veitti manni ósjaldan hroll í æsku.
En þannig eru um alla bókina vísanir í frásagnir og ævintýri, innri þætti
sögunnar og önnur verk höfundarins.
Eftir heimsókn í kirkjugarðinn við Suðurgötu, og flótta undan kór
dauðra, strengir sögumaðurinn heit: „Eg fer ekki framar í kirkjugarða:
meðan ég lifi_“ (bls. 109). Hik er í endann, því ljóst má vera að varla er
hann lifandi og sjálfan er hann farið að gruna það sterklega.
Eitt kvöldið liggur leið sögumannsins niður að höfn og þar þiggur
hann boð um að ganga um borð í undarlegt og dökkt seglskip; draumur
um heimferð er að rætast og loksins er hann að viðurkenna fyrir sjálfum
sér hvers kyns er; að hann lifi engu lífi, öll mótspyrna sé til einskis. Sögu-
maður sest niður og skrifar bréf til pabba síns; til að sættast og útskýra
þetta allt fyrir honum - bréfið er þó mátulega óljóst frá hendi höfundar-
ins, skrifað í belg og biðu, og er brotakennd samantekt atburðanna og
minnir þannig á endi sagnanna „Loftnets" og „Vængmanns“ í Bréf-
bátarigningunni. Sögumaður er enn óviss þótt hann sé orðinn sáttur við
orðinn hlut, hann veit ekki fullkomlega hvernig öllu er háttað og hvoru-
megin hann er staddur:
[...] ég veit ekki mitt rjúkandi ráð lengur, hvorume^in ég er,
sennilega báðumegin, en stundum finnst mér ég vera að hníga í
ómegin - (bls. 142)
Að lokum kemur þó staðfestingin, hann undirritar bréfið með: „ÞINN
AFTURGENGNI SONUR“ (bls. 144).
Sem dæmi um smáatriði sem skapa fyllingu og herða að byggingu
Svefnhjólsins, má nefna að í fyrsta hluta springur tundurdufl í fjörunni og
einn af þeim sem biðu sprengingarinnar segir tregablandinni röddu þegar
hvellurinn heyrist: „Svona prumpa hvalir“ (bls. 20). I þriðja hlutanum fer
sögumaðurinn síðan út á Seltjarnarnes, hittir gamlan undarlegan mann og
sá segir honum frá hval sem rak dauðan á land og sprakk vegna gas-
myndunar (bls. 119). Þannig liggur net tenginga um textann. Þá er oft
dýpri merking bak við ýmislegt sem virðist í fyrstu bara hluti af
yfirborðinu. Því tengjast enn fremur misaugljósar vísanir í önnur bók-
menntaverk, þjóðsögur og goðsögur. Ferjumaðurinn Karon (hann er líka í
Mýrarenglunum), skotta og móri, sláttumaðurinn, ævintýri eins og
Eldfæri H.C. Andersens, og Alfinnur álfakóngur birtast lesandanum og
vekja hugrenningatengsl. Það er ekki svo að lesandinn fái lykil að aukinni
eða réttri túlkun ef hann getur rakið sig eftir öllum þessum vísunum, en
hann getur lengi aukið og bætt við skilning sinn og ekki síst á sambandinu
milli hinna tveggja heima.
Gyrðir er alls ekki eini íslenski rithöfundurinn sem hefur lætt draugum
og viðlíka furðum inn í sögur sínar á síðustu árum. Fleiri ungir höfundar
hafa gert það sama, það tengist gjarnan fantatískri eða súrrealískri aðferð í