Skírnir - 01.09.1991, Page 262
524
EINAR FALURINGÓLFSSON
SKÍRNIR
brakandi gólffjölum; þar innanum gömul dagblöð og stílabækur og
hverskyns ummerki um börn sem nú eiga börn og barnabörn og búa
fullorðin hér og þar um landið. Það var gaman að koma inn í gamla bæ-
inn, en þangað vogaði maður sér ekki einn, nema helst þá um sólbjartan
dag og með Snata gamla með sér; á kvöldin var hlaupið fram hjá dyrunum
á leið í fjósið eða í aðra snúninga; brjáluðum hjartslættinum á þeim löngu
augnablikum gleymi ég aldrei.
I dag er gamli bærinn horfinn og hvinurinn hærri í trjánum en nokkru
sinni fyrr; bogin rýna þau til norðurs. Stöðum sem þessum bindast
ótölulegur fjöldi minninga og orðlausra skynjana, skynjana sem maður
telur sig einan eiga og ekki á að vera hægt að koma í orð; svo einkalegar
telur maður þær vera. En þó hefur það tekist að einhverju leyti hjá þeim
Gyrði og Sigfúsi. Sveitalíf Sigfúsar vekur upp gleymdar kenndir og máðar
minningar af sönnum æskudögum, og fléttast það saman við áhrifaríkar
frásagnir. Gyrðir er ekki á ólíkum slóðum, en heimur hans er háðari
ímyndun og dulúð; samkennd finnur maður þar einnig ríka. Ég hef
handfjatlað þessar bækur og lesið, gefið nokkrum hugsunum lausan
tauminn, og skoðað það sem mér þykir athyglisverðast. Þær eiga nokkra
snertifleti sameiginlega; sumt er verulega líkt en annað vitaskuld gjörólíkt.
Til dæmis ytra formið. Saga Gyrðis er gríðarlega þétt í byggingunni en
bók Sigfúsar samanstendur af sex smásögum. Þær skapa nokkuð sterka
heild, og ræður frásagnarhátturinn þar mestu.18 Bernskulýsingarnar og
tilfinningin fyrir söguheiminum, og textinn sjálfur, vekja óneitanlega að-
dáun og sama má segja um bók Gyrðis; frásögnina um ferðalag sögu-
manns í leit að sjálfum sér og tilverunni mætti eins kalla óð til drauma -
eða til dauðans - en dauðinn felur alltaf í sér líf. Það segir sagan lesand-
anum altént. Og sögur höfundanna beggja hafa vakið upp drauma í höfði
mínu, drauma sem ég hef vaknað undrandi upp frá en gleymt skömmu
síðar rétt eins og öllum öðru sem mig dreymir. Eftir situr þó einhver óviss
tilfinning, eða að minnsta kosti þægileg hugmynd um vellíðan.
18 Þó heggur ein sagan í: „Skörðótt fyrir augum“, en þar er gamalkunnugt bragð
notað: sögumaður finnur handrit, og veikir þessi saga nokkuð annars heildstæða
bygginguna. Jorge Luis Borges beitti þessu skáldskaparbragði gjarnan í sögum
sínum, persónur finna handrit, bréf eða bækur og spinnast sögurnar út frá því.
Sigfús gæti hafa verið undir áhrifum frá Borgesi, og kæmi ekki á óvart, þar sem
hann hefur þýtt safn smásagna eftir hann, Blekspegilinn, og kom það út hjá Máli
og menningu í fyrra.