Skírnir - 01.09.1991, Side 264
526
AÐALSTEINN INGÓLFSSON
SKÍRNIR
Að sögn átti Jóhannes Geir hvorki erindi við sjálfar nýbyggingarnar á
svæðinu, né landslagið umhverfis þær, heldur hráslagalegar dramatískar
stemmningarnar sem mynduðust á jöðrum byggingarsvæðissins í skamm-
deginu, þegar stakir ljósastaurar og bílar vörpuðu draugalegri rafur-
magnaðri birtu á moldarbingi og mótatimbur. Þær fáu hræður sem ösluðu
ómalbikaðar göturnar árla morguns eða síðla kvölds köstuðu frá sér
löngum og ógnvekjandi skuggum, eins og persónurnar í kvikmyndum
Eisensteins.
Það er einmitt í vegferð einmana sálna á mörkunum, þarsem mætast
náttúra og byggð, bændamenning og borgarlíf, að listamaðurinn ber helst
kennsl á sjálfan sig. Einsog í mörgum öðrum málverkum Jóhannesar
Geirs virðist vegurinn vera í senn tákn fyrir landnám mannsins og vegferð
hans, lífshlaupið.
Hvernig ber þá að skilja þau orð Jóhannesar Geirs að myndin sé
„algjör fantasía"? Hún er „fantasía" að því leyti að í henni er fátt sem
minnir beinlínis á staðhætti í Seláshverfi. Þeim mun meiri áherslu leggur
listamaðurinn á að draga upp huglæga mynd, það er fantastíska, af til-
finningunum sem sóttu á hann á umræddum næturgöngum um hverfið.
Sterkust þessara tilfinninga er óvissan.
Myndin snýst ekki um bið eftir strætó, heldur biðina eftir réttlætingu
þess ferðalags sem manneskjan hefur tekist á hendur. Á hvaða leið er hún
og í hvaða tilgangi ?
Þetta er áleitinn undirtónn í mörgum lykilmyndum á ferli Jóhannesar
Geirs, til dæmis sakleysislegri krítarmynd frá 1946-47 sem ber nafnið
Heybandslestsvo ekki sé minnst á stórbrotnar „endurminningar-
myndir“ á borð við Jarðarför á Króknum2 og Fjárrekstur á SauðárkrókiJ
báðar frá 1964. I fyrri myndinni frá Króknum er líkfylgd á ferð út við
ystu nöf, í þeirri síðari eru kindur reknar til slátrunar. Á hvaða leið, í
hvaða tilgangi ?
Listamaðurinn segir að konan vinstra megin í myndinni hafi verið
honum efst í huga þegar hann hófst handa við málverkið. Eða réttara sagt,
hann hafi upphaflega ímyndað sér fígúru í bláu við útjaðar myndar, í
sterkri birtu frá ljósastaur eða bílljósum. Síðan fannst honum að blái
liturinn kallaði beinlínis á kvenmannsfígúru.
Blái liturinn í kápu konunnar er síðan áréttaður og gæddur frekari dýpt
í blæbrigðum himins, og fær mótvægi í okkurgulum og svarbláum
litbrigðum hægra megin í myndinni.
I endanlegri gerð myndarinnar er konan vinstra megin enn efst í huga
listamannsins. Allar línur eru dregnar þannig að þær beina sjónum okkar
að henni. Um leið er einsog kraftlínum stafi frá henni.
1 Sjá: Sigurjón Björnsson & Aðalsteinn Ingólfsson,Jóhannes Geir, Listasafn ASÍ
og Lögberg, Rvk. 1985, bls. 17.
2 Sama rit, bls. 21.
3 Sama rit, bls. 34.