Gerðir kirkjuþings - 01.01.2017, Síða 75
75
Úrræði úrskurðarnefndar
16. gr.
■Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar eru heimil eftirfarandi úrræði gagnvart prestum,
djáknum og öðrum starfs- eða trúnaðarmönnum þjóðkirkjunnar:
a. mælt fyrir um að veitt verði áminning, eftir atvikum með skilyrðum eða
leiðbeiningum eða nánari fyrirmælum um rétta starfshegðun,
b. mælt fyrir um flutning í starfi,
c. mælt fyrir um að viðkomandi skuli ekki gegna núverandi starfi eða sambærilegu
starfi á kirkjulegum vettvangi um ákveðið tímabil eða til frambúðar,
d. mælt fyrir um endanlega brottvikningu viðkomandi úr hvaða starfi sem er á
kirkjulegum vettvangi sem valdsvið nefndarinnar nær til.
Framfylgd úrskurða
17. gr.
■Kirkjulegir framkvæmdarvaldshafar skulu framfylgja úrskurðum skv. 16. gr., undir
yfirumsjón kirkjuráðs, og fylgjast jafnframt með því að farið sé eftir úrskurðum er snerta
starfsemi eða framferði embættis-, starfs- eða trúnaðarmanna.
Birting úrskurða og skýrsluskil
18. gr.
■Úrskurði nefndarinnar skal birta á vef þjóðkirkjunnar. Þeir skulu birtir án nafna,
kennitalna og annarra persónugreinanlegra auðkenna. Heimilt er að undanskilja úrskurði
birtingu ef sérstök vandkvæði eru á að tryggja persónuvernd.
□Nefndin skal árlega skila ráðherra skýrslu um störf sín og helstu niðurstöður og ályktanir
sem draga má af úrskurðum nefndarinnar.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
Vernd persónuupplýsinga og þagnarskylda
19. gr.
■Um vinnslu nefndarmanna og starfsmanna og ráðgjafa nefndarinnar á persónuupplýsingum
fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Nefndarmenn
eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem fram kemur í gögnum sem nefndinni eru látin
í té. Sama gildir um þá sem hún kann að kveðja sér til aðstoðar. Þagnarskylda helst þótt
látið sé af starfi.
Upplýsingaskylda og gagnaöflun
20. gr.
■Stjórnvöldum þjóðkirkjunnar er skylt að láta úrskurðarnefnd í té öll gögn máls, svo og
þær upplýsingar og skýringar sem hún telur nauðsynlegar vegna úrlausnar máls.