Gerðir kirkjuþings - 01.01.2017, Qupperneq 19
19
og fyrirtæki slíta samskiptum við hinn seka eða oft meintan seka og á viðkomandi er ekki
hlustað meira. Hún eða hann er bara vond manneskja og það borgar sig ekki að hlusta
á eða eiga samskipti við þá persónu meir. Þetta gengur jafnvel svo langt að það verður
samkeppni um að úthrópa einstakling, finna honum allt til foráttu, koma honum burt.
Stundum heggur einnig sá sem hlífa skyldi. Er þetta í lagi. Er þetta kristinn siður? Er 8.
kafli Jóhannesarguðsspjalls gleymdur?
Í ár minnumst við þess að 500 ár eru síðan Lúter negldi tesurnar 95 á kirkjudyrnar í
Wittenberg. Þetta var upphaf siðbótarinnar. Það er óumdeilt að hugmyndir Lúters hafa
haft mikil áhrif. Ekki aðeins á kirkju og kristni heldur á vestræn samfélög. Það er líklegt að
við séum sammála um að Lúter hafi verið mikilsverð persóna. En það er ekki allt geðslegt
sem eftir Lúter er haft.
Hefði heimurinn orðið betri ef fólk hefði slökkt á Lúter í framhaldi af því sem hann sagði
um Gyðinga? Brennt öll hans skrif, hætt að lesa hann og já hent honum út af Facebook?
Nú á tímum virðist lítið þurfa til að “slökkva á fólki”. Ásakanir um eitthvað misjafnt eða
aðeins rangar skoðanir virðast jafnvel nægja til að einstaklingur sé afgreiddur, dæmdur úr
leik á vettvangi samfélagsmiðla, í kommentakerfum og svo í fjölmiðlum sem flytja fréttir
af því sem sagt var á Facebook. Væri hlustað á Lúter ef hann væri uppi á okkar tímum, eða
hefði verið slökkt á honum og hann úthrópaður gyðingahatari?
Það er gott að hafa háleit markmið um siðferði og vandaða framkomu. Það er ekki
gagnrýnt hér. En sjálfsagt er að minna á að sá mælikvarði sem við notum til að dæma
aðra er sá mælikvarði sem við ættum að nota til að vega og meta eigin frammistöðu.
Ef við viljum að okkur sé sýnt umburðarlyndi þá skulum við byrja á því að sýna öðrum
umburðarlyndi.
Okkur skortir öll dýrð Guðs en öll erum við vitnisburður um einhvern örlítinn hluta af
dýrð hans. Sköpuð í hans mynd þó aðeins sé það lítill hluti hans myndar. Það að vanvirða
annað fólk og koma illa fram við það þýðir að við vanvirðum þá birtingamynd Guðs sem
það fólk er.
Kjarni flestra helstu trúarbragða mannkyns er samúð, samlíðan. Þau trúarbrögð kenna
flest Gullnu regluna. Og auðvitað er það kjarni kristninnar að koma fram við aðra eins
og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Gullna reglan er án efa besta mótefni við
þeirri tilhneigingu að afgreiða fólk með niðurlægjandi hætti. Hún er hornsteinn góðra
samskipta, lykill að farsælu samstarfi. Gullna reglan er í raun það hornmát sem við ættum
að nota í öllum okkar gjörðum.
Karen Armstrong er rithöfundur sem þið sjálfsagt þekkið flest. Hún hefur skrifað á
þriðja tug bóka um trú og trúarbrögð og haldið fyrirlestra um allan heim. Karen Amstrong
hefur hlotnast margvíslegur heiður fyrir skrif sín sem eru mikils metin, ekki aðeins af
kristnu fólki heldur einnig gyðingum og múslimum. Fjöldi virðulegra stofnana hafa veitt
henni viðurkenningu s.s. heiðursdoktorsnafnbót
Karen Armstrong hafði forgöngu um áhugavert verkefni sem er nefnt Charter for
Compassion. Tilgangurinn er að fá fólk til að sýna samúð og umgangast alla samkvæmt
gullnu reglunni. Það hafa margir tekið undir með henni og gengið til liðs við verkefnið. Í
dag eru starfandi hópar í 50 löndum sem sinna þessu verkefni. Í þessum hópum er fjöldi