Gerðir kirkjuþings - 01.01.2017, Blaðsíða 73
73
8. gr.
■Að fresti liðnum skv. 7. gr. skal haldinn fundur í nefndinni með kæranda og gagnaðila
þar sem kærandi leggur fram gögn og greinargerð sína ef við á og gagnaðili þau gögn sem
hann kýs þá að leggja fram.
□Gagnaðila skal veittur frestur til þess að tjá sig skriflega um gögn þau og greinargerð sem
kærandi hefur lagt fram. Frestur gagnaðila skal að jafnaði ekki vera lengri en fjórar vikur,
en veita má þó lengri frest þegar sérstaklega stendur á.
□Sinni gagnaðili ekki tilmælum nefndarinnar skv. 7. gr. innan tilgreinds frests skulu þau
ítrekuð með nýjum fresti sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur. Ef gagnaðili
sinnir enn ekki tilmælum nefndarinnar byggir hún úrlausn máls á framlögðum gögnum
og öðrum þeim upplýsingum er hún aflar sjálf um málið.
9. gr.
■Að þeim fresti liðnum, sem gagnaðila hefur verið veittur, skal halda fund í
úrskurðarnefndinni með kæranda og gagnaðila þar sem greinargerð gagnaðila og önnur
skjöl, sem hann kýs að leggja fram, eru afhent.
□Þegar öll gögn hafa verið lögð fram getur úrskurðarnefnd að beiðni málsaðila ákveðið
að fjalla um mál munnlega. Að jafnaði skal framlagningu gagna lokið á þessu tímamarki.
□Ef ákveðið verður að fjalla um málið munnlega skal ákveðinn stuttur frestur til þess og
að honum liðnum skal kærandi tjá sig fyrst um málið en gagnaðili að því búnu.
□Nú er ekki ákveðið að aðilar tjái sig munnlega um málið fyrir nefndinni og skal þá
kæranda veittur frestur til að tjá sig skriflega um það en að því búnu skal gagnaðila gefinn
kostur á að koma að skriflegum athugasemdum sínum. Miðað skal við að frestir, sem
veittir eru til þess að málsaðilar megi koma að skriflegum sjónarmiðum sínum samkvæmt
þessari málsgrein, verði ekki lengri en tvær vikur samtals.
Gagnaöflun
10. gr.
■Nefndin skal í upphafi málsmeðferðarinnar og einnig síðar, ef ástæða þykir til, rita
stjórnvöldum, einkaaðilum, rannsóknaraðilum eða öðrum bréf og óska eftir því að fá send
tilgreind eða ótilgreind gögn sem kunna að vera til upplýsingar um málsatvik. Strax og
slík gögn berast nefndinni skulu afrit þeirra afhent málsaðilum. Nefndin getur mælt svo
fyrir í bréfi þar sem óskað er afrits gagna samkvæmt þessari málsgrein að gögn, sem henni
eru afhent í trúnaði, séu auðkennd sérstaklega.
Opinber rannsókn
11. gr.
■Hafi aðili neytt réttar síns til þess að óska eftir að fram fari opinber rannsókn af sama
tilefni og mál það sem til úrlausnar er, skal úrskurðarnefnd leitast við að fá öll þau
gögn, sem aflað hefur verið við þá rannsókn, þ.m.t. skýrslur sem gefnar hafa verið fyrir
rannsóknaraðilum.