Gerðir kirkjuþings - 01.01.2017, Side 17
17
Setningarræða forseta kirkjuþings, Magnúsar E. Kristjánssonar
Kirkjuþing 2017 er sett. 56. kirkjuþing íslensku þjóðkirkjunnar.
Verið öll hjartanlega velkominn kirkjuþingsfulltrúar, starfsfólk og gestir. Já og verið
velkomin í Garðabæ, hingað í Vídalínskirkju þar sem kirkjuþingið er nú haldið í fyrsta
sinn. Vonandi mun ykkur öllum líða vel hér og aðbúnaður reynast viðunandi.
Það er ánægjuefni að fá að bjóða sérstaklega velkomna hingað í dag dómsmálaráðherra,
frú Sigríði Andersen. Þá vil ég bjóða velkomin bæjarstjóra Garðabæjar hr. Gunnar
Einarsson.
Á þriðjudaginn voru 467 ár frá því Jón Arason var hálshöggvinn, í gær voru 534 ár frá
fæðingu Lúters, og í dag eru 99 ár frá lokum fyrir heimstyrjaldarinnar. Já tíminn líður og
þetta minnir okkur á hvað sumir atburðir og sumt fólk hefur mikil áhrif á líf okkar löngu
eftir þeirra tíma. Nú erum við saman komin á fjórða og jafnframt síðasta kirkjuþingi þessa
kjörtímabils. Þau þrjú ár sem eru liðin frá upphafi þessa kjörtímabils er stuttur tími en þau
hafa liðið ótrúlega hratt. Það er ágætt að staldra við og fara yfir það í huganum hvort okkur
hafi miðað eitthvað á þessum þremur árum sem við höfum setið saman á kirkjuþingi.
Var það aftur á bak, ellegar nokkuð á leið? Við þessu er ekki einhlítt svar og sjálfsagt eru
skoðanir skiptar um það eins og annað. Við erum nefnilega ekki alltaf sammála, höfum
mismunandi skoðanir og stundum ólíka hagsmuni að verja. Það væri líka furðulegt ef við
í þjóðkirkjunni, um 70% íslensku þjóðarinnar, værum sammála um alla hluti. Eðlilega eru
skoðanir mismunandi.
Í lýðræðislegum samfélögum, samtökum og félögum ýmiskonar hefur fólk einmitt
komið á samkomum s.s. Alþingi, kirkjuþingi, safnaðarfundum og aðalfundum, til þess að
ræða, takast á um, greiða atkvæði, já komast að niðurstöðu í málum svo sátt geti orðið um
ákvarðanir. Þetta fyrirkomulag er ekki fullkomið, getur aldrei orðið það fyrst og fremst
því við erum ekki fullkomin. Þetta er bara minnst vonda aðferðin sem við þekkjum til
að taka ákvarðanir fyrir fólk í skipulagsheildum þar sem þarf að ríkja sátt, ef ekki um
niðurstöðuna þá að minnsta kosti um aðferðina sem notuð var til að ná niðurstöðu.
En þá má velta því fyrir sér hvernig vinnubrögð á slíkum samkomum hafa þróast og
hvort við hér á kirkjuþingi þurfum að bæta okkar.
Á starf á þingum að vera keppnisgrein? Er markmiðið að vinna hina? Eða á markmiðið
að vera að ná sátt sem flestra, og viðmiðið, að niðurstaðan sé sem hagstæðust fyrir
sem stærstan hluta þeirra sem ákvörðun snertir. Við mótun kirkjuþingsins var Alþingi
fyrirmyndin. Þingsköp og siðir voru mótuð eftir þeim hefðum sem fólk þekkti þaðan.
Það má velta því fyrir sér hvort betra hefði verið að horfa til fleiri fyrirmynda því það er
áleitin spurning hvort sá siður að vinna hina, eins og þekkist úr stjórnmálum sé sá siður
sem samkomu sem kennir sig við kristni hentar best. Meirihluti og minnihluti. Nú ráðum
við ekki þið.
Á sá ræðumaður mest hól skilið sem ekki aðeins færir góð rök fyrir máli sínu heldu
nær einnig að niðurlægja þá sem eru honum ósammála? Er sú eða sá sigurvegarinn?
Eiga fundarsköpin að mótast af því að hver og einn geti, megi og eigi að koma í
ræðustól, jafnvel þó það sé ekki til annars en að endurtaka það sem aðrir hafa sagt. Er það