Skírnir - 01.09.2002, Side 15
SKÍRNIR
AÐ HUGSA í MYNDUM
237
aður í mynd líkamans, og var tilvera mannsins um leið mæld á
mælistiku veraldarinnar allrar. Samhengi allra hluta var áréttað,
ekki aðeins innan hins kristna heims heldur allt frá fornöld, og því
gátu heiðin rit orðið viðfangsefni kristinna fræðimanna. Af þess-
um hugmyndum spruttu jafnt heimspekileg verk og innblásin
skáldverk. I Timaeusi var lögð áhersla á goðsögnina, og heims-
fræðingarnir túlkuðu goðsögur sem þátt í sköpunarverki guðs,
rétt eins og allt annað í heiminum. I goðsögurnar var lagður alle-
górískur skilningur.14 Gamall sem nýr skáldskapur gat þannig
orðið vettvangur fyrir heimspekilegan sannleika í kristnum heimi
miðalda. Heimsfræðingarnir áttu með þessum hætti þátt í því að
brúa bilið á milli heiðinna texta og kristinnar lífssýnar. Ekki voru
allir sammála þeim í túlkuninni á heiðnum goðsögum, og sumir
guðfræðingar álitu hana stríða gegn túlkun ritningarinnar, en
Snorri er greinilega undir áhrifum heimsfræðinganna.15 Guðirnir
voru höfðingjar sem fluttu um langa leið norður í álfu, og gerðust
forfeður konungaætta á Norðurlöndum - og þeir áttu að hafa flutt
dróttkvæðin með sér frá Aþenisborg og Tróju, eins og Ólafur
Þórðarson áréttar í Þriðju málfræðiritgerðinni.16
Mannslíkaminn varð í meðförum heimsfræðinganna áhrifa-
mikil táknmynd á miðöldum, um stjórnarfar og þjóðfélagsgerð,
14 Sjá t.d umfjöllun Peter Dronke (1974:21-25 og víðar) um þetta atriði. Goðsag-
an um Bacchus varð William frá Conches t.d. tilefni til að ræða dulda merkingu
hennar, þar sem undir byggi helgisaga. Hugmynd hans um integumentum (‘að
pakka inn’) minnir sumpart á hugtakið ofljóst, sem Snorri gerir að umtalsefni í
niðurlagi Skáldskaparmála. Að yrkja ofljóst er að yrkja tvírætt, að fela merk-
ingu með því að nota orð sem gæti merkt fleira en eitt, og er sú aðferð sérstak-
lega athyglisverð í sambandi við hið tvíræða líkingamál um líkamann. Það vek-
ur ennfremur eftirtekt að kaflinn sem fjallar um að yrkja ofljóst kemur í beinu
framhaldi af líkamlega myndmálinu í Skáldskaparmálum.
15 Snorri varð ekki fyrstur norrænna fræðimanna eða skálda til þess að skoða sögu
Norðurlanda í ljósi goðsagna, benda má á höfunda Skjöldunga sögu og Hátta-
lykils.
16 „í þessa bók má gerla skilja, að öll er ein listin skáldskapur sá er rómverskir
spekingar námu í Aþenisborg á Grikklandi og sneru síðan í latínumál, og sá
ljóðaháttur eða skáldskapur er Óðinn og aðrir Asíamenn fluttu norður hingað
í norðurhálfu heimsins, og kenndu mönnum á sína tungu þesskonar list, svo
sem þeir höfðu skipað og numið í sjálfu Asíalandi, þar sem mest var frægð og
ríkdómur og fróðleikur veraldarinnar“ (Þriðja málfræðiritgerðin:60).