Skírnir - 01.09.2002, Qupperneq 234
456
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR
SKÍRNIR
breytist úr manni í dýr og gefur með því til kynna að maðurinn geymi
þetta hamslausa dýr innra með sér.36 Sagan af Drakúla greifa býður einn-
ig upp á að lesandinn velti fyrir sér mörkum mennskunnar, og í Franken-
stein er mennskan mjög til umræðu: er skrýmslið ómennskt vegna þess að
það er ekki fætt af móðurlíkama (og ægilega ófrítt), eða er skapari þess í
raun mesta skrýmslið, fyrir að hafa sett saman slíkan óskapnað?
Mennskan er leiðarstef í báðum skáldsögum Sjóns, en leirbarnið -
góleminn - er ljóslega vera sem getin er á ystu mörkum mennskunnar, ef
hún yfirleitt telst mennsk. Líkt og Frankenstein-skrýmslið er hann ekki
fæddur af líkama konu, heldur er hann niðurstaða tilrauna, alkemisma,
sem ber merki bæði galdra og vísinda. Þessa stöðu gólemsins áréttar Sjón
svo með ítrekuðum sögum af óvenjulegri sköpun og mennsku. í Auguþín
sáu mig er sagt frá hermanninum óþekkta sem heimsækir hermannaekkj-
ur á nóttunni, en líkami hans er samsettur úr líkömum látinna hermanna.
Piparkökukarlar og piparkökudeig lifna við og eitt af róbótum Rossums
úr leikriti Capeks um vélverurnar sem náðu yfirráðum á jörðinni, birtist
stuttlega í draumabók engils vesturgluggans. Viðfangsefni skáldsögunnar
kallast því skemmtilega á við fræðilega umræðu síðustu tuttugu ára um
gervimennsku af ýmsum toga og þau áhrif sem staða tækninnar hefur á
samfélagið, þar sem ítök tækni í daglegu lífi eru orðin gífurleg og tækni-
leg inngrip í líkama einstaklingsins sjálfsagður hlutur.37
í Meö titrandi tár kemur þessi umfjöllun um mennskuna fram í kenn-
ingum um uppruna íslendinga og tengslum við gotnesku skáldsögurnar,
sérstaklega varúlfsminninu, en einnig má nefna sögurnar af fyrirmynd
bergrisans í skjaldarmerkinu, söguna af því hvernig föngunum í fanga-
búðum nasista er breytt í sebradýr og söguna af ‘baktanga’ hins rússneska
36 Reyndar eru til fleiri aðferðir við að breytast í varúlf, í sumum tilfellum er um
svokallaðar hamfarir að ræða þar sem sál eða andi mannsins færist yfir í dýrið,
og stundum tekur sjálfur líkaminn umbreytingum. f goðsögum og þjóðsögum
um varúlfa er yfirleitt gert ráð fyrir því að varúlfar breytist fyrir eigin tilverkn-
að, sem galdramenn eða illmenni, en f bókmenntum og á hvíta tjaldinu er var-
úlfurinn yfirleitt ofurseldur örlögum sínum og getur ekki komið í veg fyrir um-
breytingu sína. Það gerir hann þó ekki minna illskeyttan.
37 Þetta tengist aukinni fræðilegri umræðu um svokallaða sæborg (cyborg), sem er
vera á mörkum mennsku og vélmennsku. Ekki er rúm til að fara út í þá um-
ræðu hér, en ég hef rætt sæborgina í greinum eins og „Við skulum vaka um
dimmar nætur og horfa til himna: marsbúar og sæborgir og önnur ó-menni“
(1999b), ^Augu þín sáu mig eftir Sjón“ (2001c), „Myndanir og myndbreyting-
ar: ímyndir og sjálfsmyndir í myndböndum Bjarkar" (2001 b) og „Varahlutir
fyrir útópíur: eða af varúlfum og píum“ (2002). Þrátt fyrir að sæborgin sé til-
tölulega nýtt hugtak (það var búið til árið 1960 sem stytting á cybemetic org-
anism), á fyrirbærið sér langa sögu, sem til að mynda tekur til bæði gólemsins
og Frankenstein-skrýmslisins.