Breiðfirðingur - 01.04.1996, Side 79
NÁMSFERÐ UM NORÐURLÖND
77
það. Ég hugsa að ég hefði haldið það út, en ég ætlaði að halda
áfram að hlusta á fyrirlestra á kvöldin og hafa þýskutíma eins
og áður, en það gat ekki gengið því kl. 8,30 urðu allir að vera
inni. Maður var þannig í fangelsi að mér fannst og það átti
ekki við mig.
Frk. Krebs bauð mér til sín um jólin - það er 6 tíma járn-
brautarferð frá Gautaborg í nánd við litla borg sem heitir
Strömstad. Bærinn heitir Dynegard og liggur í litlum dal með
skógi vöxnum hæðum báðum megin. Eftir dalnum rennur lítill
lækur út í fjörð einn sem blasir við gluggunum í herberginu
mínu. Allsstaðar er stórvaxinn skógur og bera trén við himin,
en gegnum greinar trjánna lýsir aftanskinið og stjörnurnar á
kvöldin. Snjór er nú yfir allt og fyrir jólin var um 20 gráðu
frost, en fallegur er skógurinn þrátt fyrir það. Hér eru 30 kýr
og 8 hestar, mörg svín en bara 2 kindur.
Þú getur ekki ímyndað þér hve rólegt og þó skemmtilegt
hefur verið hér um jólin. Mér fannst sem friður og ró heiman-
að vera komin hingað. Fólkið fór flest heim til sín úr bænum
það sem gat til að vera heima um hátíðina, svo við höfum
aðallega verið 4 í húsinu. (Þjónustufólkið býr á öðrum stað).
Það er Harriet sem er á aldur við mig, föðursystir hennar um
75 ára og ein þjónustustúlka. Við höfum haft það mjög náðugt
- sofið fram á dag, sungið og spilað, étið og drukkið og á
kvöldin sitjum við fyrir framan arineldinn og lesum sögur
upphátt. Við höfum fallegt jólatré og einhvern næsta dag verð-
ur boð fyrir börn úr nágrenninu. Ég hef haft það svo gott hér
að ég vildi að ég mætti vera hér þá mánuði sem ég hoppa yfir
á Gullbergsbrohemmet. En það er nú eins og þar stendur að
„ekki eru alltaf jólin“, og eftir nýárið er ég ákveðin að halda til
Noregs. Verst er að ég á ekkert víst þar enn, en ég lifi bara
fyrir líðandi stund og treysti hamingjunni. Ég vil helst fá stað
1-2 mánuði þar sem ég get unnið fyrir mér, en ef ég fæ það
ekki verð ég samt um tíma í Noregi og stúdera skólahald og
handavinnu. Peningar eru auðvitað af skornum skammti, en ég
vona að fá að heiman aura í febrúar eða seint í janúar og ég
vona að bjargast þangað til.