Morgunblaðið - 13.12.2018, Blaðsíða 70
70 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. DESEMBER 2018
Þrjár ískenskar nýbyggingar hafa
verið tilnefndar til hinna virtu Mies
van der Rohe-arkitektúrverðlauna
fyrir árið 2019 sem stofnunin Funda-
ció Mies van der Rohe og Evrópu-
sambandið veita annað hvert ár fyrir
besta samtímaarkitektúrinn í Evr-
ópu. Tilnefningarnar hljóta Basalt
arkitektar fyrir hótelið The Retreat
við Bláa lónið, Kurtogpí arkitektar
fyrir Marshall-húsið og Andrúm arki-
tektar fyrir Veröld – Hús Vigdísar.
Ein íslensk bygging hefur sigrað í
samkeppninni, tónlistarhúsið Harpa
árið 2013.
Alls eru 383 byggingar og bygg-
ingaverkefni tilnefnd til Mies van der
Roher-verðlaunanna að þessu sinni.
Flest eru á Spáni, 27, 21 í Belgíu, og
19 í Frakklandi og á Englandi. Í
fréttatilkynningu segir að flestar
bygginganna hafi menningarlegt
hlutverk, eða 15 prósent, en aðeins
færri, 14 prósent, eru skilgreindar
sem margnota byggingar.
Nú mun sjö manna dómnefnd velja
40 byggingar af listanum og kynna
sérstaklega og fimm þeirra lenda svo
í apríl á svokölluðum stuttlista. Verð-
launabyggingin verður loks kynnt 7.
maí í Barcelona.
Höfundar The Retreat við Bláa
lónið eru arkitektarnir hjá Basalt,
þau Sigríður Sigþórsdóttir, Hrólfur
Karl Cela, Marcos Zotes og Perla Dís
Kristinsdóttir. Arkitektarnir að baki
Kurtogpí, þeir Ásmundur Hrafn
Sturluson og Steinthor Kári Kárason
hönnuðu breytingarnar á Marshall-
húsinu, er fyrrverandi fiskimjöls-
verksmiðju var breytt í sýningarrými
fyrir Nýlistasafnið, Kling & Bang og
Ólaf Elíasson og veitingastað. Þá eru
arkitektarnir hjá Andrými, Kristján
Garðarsson, Haraldur Örn Jónsson,
Hjörtur Hannesson og Gunnlaugur
Magnússon höfundar Veraldar –
Húss Vigdísar sem er hluti af HÍ.
Þrjár íslenskar tilnefndar til
Van der Rohe-verðlaunanna
The Retreat, Marshall-húsið og Veröld keppa við 380 hús
Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson
The Retreat Hótelið nýja við Bláa lónið, verk Basalt arkitekta, er tilnefnt.
Ljósmynd/Ari Magg
Marshall-húsið Breytingar á fyrrverandi verksmiðju eru hönnun Kurtogpí.
Ljósmynd/Vigfús Birgisson
Veröld – Hús Vigdísar Andrúm arkitektar hönnuðu bygginguna á lóð HÍ.
VIÐTAL
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Bergrún Íris Sævarsdóttir er jafnan
önnum kafin og ekki síst um þessar
mundir því hún kemur að tveimur
bókum sem koma út fyrir þessi jól,
annars vegar (Lang)elstur í leyni-
félaginu, þar sem hún teiknar mynd-
ir og semur texta, og hins vegar í
Næturdýrunum, þar sem hún teikn-
ar myndir og semur texta við lög
sem Ragnheiður Gröndal samdi og
flytur.
(Lang)elstur í leynifélaginu er
einskonar framhald af bókinni
(Lang)elstur í bekknum sem kom út
á síðasta ári og sagði frá Eyju sem
er að byrja í barnaskóla og kynnist
þar Rögnvaldi sem setið hefur eftir í
fyrsta bekk í áratugi, þar sem hann
hefur ekki viljað læra að lesa. Berg-
rún segir að það hafi verið aðeins
snúnara að skrifa framhaldið en
fyrri bókina. „Ég þurfti að finna
hvaða sögu ég vildi segja af því þau
Eyja og Rögnvaldur eiga svolítið
sjálfstætt líf í hausnum á mér og bú-
in að gera svo margt að ég þurfti að
velja á milli. Ég var þannig með
fjóra söguþræði en á endanum
blönduðust tveir þeirra saman, ann-
ars vegar þessi hugmynd með dval-
arheimili aldraðra, að Eyja væri orð-
in yngst á elliheimilinu, sem mér
fannst skemmtilegt þótt það væri
glataður titill,“ segir Bergrún og
skellir upp úr, „svo ég hélt áfram
með þetta (lang)elstur-þema, Rögn-
valdur á enn eftir að læra svo margt,
hann þurfti að læra á klukku og svo
stofna þau leynifélag svo það er
ýmislegt sem þau hafa að gera.
Þetta er þó ekki búið, það eru fleiri
sögur eftir.
Mér fannst það forvitnilegt hvern-
ig Eyja upplifir lífið á elliheimilinu á
Ellivöllum. Ég hef unnið á elliheimili
og það er svo margt skemmtilegt
sem krakkar geta haft gaman af þar
eins og matarmenning gamals fólk
og málfarið. Ég er svolítið gömul sál
og mér finnst svo sorglegt ef við
glötum blæbrigðum íslenskunnar.
Það er svo margt fallegt í íslensku
sem við missum niður ef við ætlum
alltaf að nota einfaldasta málið og ef
við förum að nota erlend tækni-
hugtök, ef við skiptum út íslensku
máli bara fyrir eitthvað ódýrt, og
þetta er mín leið til að viðhalda ís-
lenskunni.“
Lesum með börnunum
– Barnabækur eru oft skrifaðar á
einföldu máli.
„Ef við lesum með börnunum okk-
ar bætum við sem foreldrar miklu
inn í orðaforða þeirra, miklu meira
en við myndum gera með okkar
venjulega tungutaki því það er
tungumálið sem þau heyra hvort eð
er heima hjá sér allan daginn. Þetta
er svo frábær leið til að auðga ís-
lenskuna í gegnum samtal barns og
foreldra. Ég veit að margir foreldrar
lesa þessar bækur af forvitni, en líka
gefst gæðastund þegar foreldri les
með barni og þá er hægt að útskýra
hugtökin í leiðinni. Ef maður vill
ekki setjast niður og segja barninu
hvað orðin þýða, þá er fínt að velja
bækur með einföldu máli, en þá á
maður barn sem kann ekki að tjá sig
nema að takmörkuðu leyti. Mér
finnst þetta svo mikið geðheilsumál,
ég vil að börnin mín get útskýrt ná-
kvæmlega fyrir mér hvernig þeim
líður og af hverju þeim líður þannig.
Ef þau hafa ekki orðaforðann til
þess eru þau kannski að kyngja ein-
hverjum tilfinningum sem þau
myndu annars útskýra.“
– Það kom önnur bók eftir þig í
haust, samstarfsverkefni.
„Næturdýrin er myndabók fyrir
aðeins yngri krakka, unnin með
Ragnheiði Gröndal. Við erum báðar
litlubarnamæður, þreyttar og úr-
vinda og þekkjum það að sofa ekki
nógu vel á nóttunni. Okkur fannst
því tilvalið að skella í eina svoleiðis
bók, bók sem hjálpar börnum að sofa
betur. Hún fjallar um systkini þar
sem annað barnið er martraðabarn
og hitt er rosalega orkumikið og sef-
ur lítið og illa. Bókinni fylgir tónlist,
frumsamin barnatónlist eftir Ragn-
heiði, ofboðslega falleg, með textum
og teikningum eftir mig. Mér finnst
þessi bók vera algjör perla fyrir ís-
lensk börn.“
Myndskreytt 45 bækur
– Þú byrjar sem teiknari en fórst
síðan að skrifa bækur líka.
„Ég hef myndskreytt 45 bækur,
síðast þegar ég taldi, myndskreyti
mikið fyrir aðra höfunda og fyrir
Menntamálastofnun, sem er mjög
skemmtilegt, en þegar kemur að því
að skrifa sjálf þarf ég að draga djúpt
andann og velja það sem ég ætla að
skrifa um.
Það kom svolítið seinna í lífinu að
skrifa. Ég skrifaði vísur þegar ég
var krakki en hafði ekki sjálfs-
traustið til að skrifa. Ég vissi alltaf
að ég ætlaði að vera teiknari, var
ekkert feimin við að segja það, en
svo varð ég skáld alveg óvart. Ég
var að spjalla við strákinn minn, við
vorum að horfa út um gluggann og
það var rok og leiðinlegt veður. Ég
sagði við hann: Sjáðu hvernig vind-
urinn lætur laufblöðin dansa. Svo
héldum við áfram og töluðum um allt
það sem vindurinn gerir, hvað það er
skemmtilegt þegar vindurinn blæs
og ég bað hann að blása eins og vind-
urinn og öskra eins og rokið og allt í
einu var ég komin með bók, orð fyrir
orð. Ég hljóp til og skrifaði það niður
og þá varð til fyrsta bókin mín, Vin-
ur minn vindurinn. Henni var vel
tekið, sem var ágætis klapp á bakið.
Ég er þó alls ekki fæddur rithöf-
undur, ég læri með hverri bók.“
Sorglegt ef við
glötum blæbrigð-
um íslenskunnar
Bergrún Íris Sævarsdóttir ætlaði að
verða teiknari en varð óvart skáld
Morgunblaðið/Eggert
Annir Bergrún Íris Sævarsdóttir segist ekki fæddur rithöfundur.
Skemmtilegt Eyja á elliheimilinu.
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646
AIR OPTIX® COLORS
Linsur í lit
Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi - Sími: 555-1212 - handverkshusid.is
Opið frá kl. 8 - 18 virka daga og 12 - 16 laugardaga
TORMEK T-4
Vinsæla brýnsluvélin
49.500kr.
Okkar verð