SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 13

SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 13
13 bankamenn voru mjög í sókn þegar hér er komið sögu. Rauð strik nýgerðra kjarasamninga reyndust haldlítil í óðaverðbólgu og stuðluðu frekar að víxlverkun kaupgjalds og verðlags. Kjarasamningar voru gerðir til stutts tíma og ávinningar af kjarabaráttu hurfu jafnharðan. Á þingi SÍB árið 1975 var samþykkt „að við gerð nýrra kjarasamninga yrði það ófrávíkjanleg krafa SÍB og aðildarfélaga þess að samningarnir hljóti ótvíræða viðurkenningu sem tvíhliða kjarasamningar“. Efndi SÍB til allmargra funda um land allt þetta haust til að stappa stáli í liðsmenn sína og undirbúa sókn til betri kjara. Vorið 1976 lagði SÍB fram kröfu um fullan samnings- og verkfallsrétt. Náðu bankamenn þessum aðalkröfum sínum fram og í kjölfarið voru sett lög á Alþingi nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins. Gífurleg fjölgun í stéttinni Á 30. þingi SÍB árið 1977 var staðfest innganga nýs félags í SÍB, Starfsmannafélags Reiknistofu bankanna. Þegar hér er komið sögu eru félög sambandsins orðin þrettán talsins og skráðir meðlimir 1.811 talsins. Félagsmenn SÍB um þessar mundir skiptust þannig: 749 úr Landsbanka, 289 úr Útvegsbanka, 239 úr Búnaðarbanka, 124 frá Seðlabanka, 108 frá Samvinnubanka, 83 frá Iðnaðarbanka, 76 úr Verslunarbanka, 26 frá Reiknistofu bankanna, 25 úr Alþýðubanka, 25 úr Sparisjóði Hafnarfjarðar, 19 úr Sparisjóðnum í Keflavík, 13 úr Sparisjóði Kópavogs og 12 úr Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Stakir meðlimir voru 23 talsins. Verkfallshótun dugði til Samningum, er höfðu verið gerðir til tveggja ára sumarið 1976, var sagt upp 31. mars 1977 og tók uppsögnin gildi 1. júlí. Þrátt fyrir bætta stöðu SÍB með formlegum samningsrétti gekk hvorki né rak til að fá fulltrúa bankanna að samningaborðinu. Að því kom á fundi stjórnar SÍB og formanna starfsmannafélaganna hinn 3. október þetta sama ár, að samþykkt var að boða til verkfalls frá og með 26. október. Í leiðara 2. tbl. Bankablaðsins 1977 segir Sólon R. Sigurðsson, formaður SÍB á þessa leið: „Það virðist sem viðsemjendur okkar hafi enn ekki áttað sig á þeim breyttu aðstæðum, sem fullur lögverndaður samningsréttur bankamanna hefur í för með sér. Því miður virðst það ennþá vera stefna bankanna að bankamenn eigi að bíða eftir því að samningar takist í öllum öðrum vinnudeilum í landinu og síðan verði okkur boðið það sama. Ef til vill átta þeir sig ekki fyrr en verkfall skellur á.“ Það virðist ljóst að verkfallshótunin hafði sitt að segja því hún dugði til að knýja fram samningaviðræður er leiddu til nýs samnings er undirritaður var 1. nóvember. Hinu nýja vopni hafði ekki verð beitt – en dugði þó. Réttarstaða trúnaðarmanna Hinn 8. september 1977 var undirritaður sérstakur samningur um trúnaðarmenn SÍB og aðildarfélaga þess milli samninganefndar bankanna og sambandsins. Þar var hnykkt á almennum ákvæðum um réttarstöðu trúnaðarmanna og hlutverk þeirra í bönkunum skilgreint. Jafnframt þessu jók skrifstofa SÍB mjög allt upplýsingastreymi og þjónustu við trúnaðarmenn, efndi til námskeiða fyrir þá og gaf út ýmis konar fræðsluefni um réttindi og skyldur starfsmanna. Segja má að uppbygging trúnaðarmannakerfis SÍB hafi verið veigamikill þáttur í hinu breytta eðli sambandsins sem stéttarfélags í kjölfar samningsréttarins. Á aukaþingi SÍB 19. apríl 1978 var breytingin loks innsigluð með samþykkt nýrra laga fyrir sambandið þar sem öll tvímæli eru tekin af um það að SÍB var orðið stéttarfélag bankamanna. Þáttaskil í skólagöngu Árið 1977 markar þáttaskil í sögu menntunar bankamanna en þá var gerður nýr samningur um starf og skipulag Bankamannaskólans er þá hafði starfað í tæpa tvo áratugi. Fyrstu árin var starfsemi skólans einkum fólgin í byrjendanámskeiðum ásamt endurþjálfun og vísi að framhaldsnámskeiði í formi námskeiðahalds. Gunnar H. Blöndal var í upphafi ráðinn skólastjóri og starfaði hann að uppbyggingu skólans í hlutastarfi allt fram til ársins 1978. Starfsemin gekk mjög vel, sérstaklega eftir að skólinn fékk inni í húsnæði SÍB árið 1966. Með samningunum 1977 var skólinn verulega efldur með fjölgun kennslustunda og kennsla fór fram í vinnutíma í stað kvöldkennslu Sólon R. Sigurðsson, formaður SÍB, 1975 – 1979. SAMNINGS- OG VERKFALLSRÉTTUR – 1975-1985 – Félagsfundur vegna verkfallsaðgerða árið 1980.

x

SSFblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.