SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 6

SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 6
6 Norræn samvinna Fulltrúar SÍB fóru í fyrsta sinn á mót norrænna bankamanna vorið 1937. Var það haldið í Stokkhólmi í boði Sænska bankamannasambandsins sem þá hélt jafnframt upp á 50 ára afmæli sitt. Frá Íslandi fóru þeir Haukur Helgason og Þorgeir Ingvarsson. Fyrsti fundurinn hér á landi í þessi samstarfi Norðurlandanna var haldinn í Reykjavík árið 1949. Fram að þessu höfðu hinir norrænu fundir verið skipaðir fulltrúum einstakra landssambanda en árið 1952 kom fram tillaga þess efnis að skipulaginu yrði breytt þannig að í stað fulltrúafundanna yrði stofnað norrænt samband bankamanna. Gekk það eftir og Norræna bankamannasambandið, NBU, var stofnað 24. ágúst 1953. Hefur það starfað æ síðan og einkum unnið að kjaramálum bankamanna, fræðslu- og kynningarmálum og á vegum þess starfa ýmsar fastanefndir. Frá 1964 hefur SÍB átt fastafulltrúa í stjórn NBU. Jakkar og svuntur Í 1. tbl. Bankablaðsins árið 1938 er þessa klausu að finna: „Fyrir nokkrum árum mun það hafa verið ákveðið að Landsbankinn léti starfsmönnum sínum í té vinnujakka og svuntur, eftir því sem við ætti í hverju tilfelli. Kvenfólkið er fyrir óratíma búið að fá sínar svuntur, en ekki bólar á jökkum handa karlmönnunum. „Damerne først“ var svo sem sjálfsagt en það réttlætir ekki tómlætið í garð karlmannanna. Vonandi verður þó bætt úr þessu bráðlega. Einnig virðist engin meining í því, að gera upp á milli dyravarða Landsbankans og láta aðeins einn þeirra hafa einkennisföt. Þessir dróttsetar bankans þurfa á einhvern hátt að skera sig út úr, til þæginda fyrir viðskiptavini bankans. Sama er og með sendla og sendimenn bankans. Mál þetta hefur verið látið afskiptalaust alltof lengi og vil ég því skora á þá, sem hlut eiga að máli, að sjá um skjótar framkvæmdir. – Einn á skyrtunni.“ Kaupfélagsstjórarnir koma Þannig hljóðar fyrirsögn í Bankablaðinu í ágúst 1939. Þar er greint frá því að Landsbankanum hafi hlotnast sá heiður að fá að njóta starfskrafta þriggja fyrrum kaupfélagsstjóra, þeirra Hannesar Jónssonar, Vilhjálms Þór og Benedikts Guttormssonar. Síðan segir í hæðnistón: „Landsbankinn fær því þrjá kaupfélagsstjóra á tæpu hálfu öðru ári, Útvegsbankinn hefur engan fengið ennþá en aðalgjaldkeri Búnaðarbankans var áður kaupfélagsstjóri og heyrst hefir að aðalbókarastaðan þar hafi verið boðin kaupfélagsstjóra nokkrum, en sá hafi verið nógu hreinskilinn til að segjast ekki álíta sig færan til þess að taka við stöðunni og neitað því algjörlega. – Skyldi finnast annar í staðinn!“ Hugmynd um bankamannaskóla Menntunarmál bankamanna voru ofarlega á baugi í umræðunni á fyrstu árum SÍB. Sveinn Þórðarson skrifaði grein í Bankablaðið í október 1938 en þá mun hugmynd að stofnun bankamannaskóla fyrst hafa verið hreyft þar. Allnokkrar greinar voru skrifaðar um málið á næstu árum og um það fjallað á þingum SÍB. Skóli bankamanna varð þó ekki að veruleika fyrr en í lok sjötta áratugarins. Hugað að byggingarmálum Húsnæðisekla var mikil á fjórða áratugnum og raunar mun lengur en það. Innan SÍB komu strax fram raddir um stofnun byggingarfélags bankamanna og að því kom í janúar 1942 að sambandið fékk svar frá borgaryfirvöldum í Reykjavík varðandi umsókn um lóðir á Melunum, vestan Suðurgötu. Synjaði bæjarráð erindinu að svo stöddu á þeim forsendum að ekki væri búið að skipuleggja svæðið. Styrjöldin og dýrtíð sem henni fylgdi svæfði byggingarmálið um sinn. Byggingarfélag bankamanna var svo stofnað 6. október 1944 og var Jón Grímsson kjörinn fyrsti formaður þess. Hafði það m.a. forgöngu um innflutning hinna svokölluðu sænsku húsa í Vogahverfinu í Reykjavík að lokinni styrjöldinni. Þrátt fyrir dýrtíðina mátti sjá að styrjöldinni fylgdu veltiár og mikill uppgangur sem sést m.a. á því að auglýsingasíður 1. tbl. Bankablaðsins árið 1942 voru 54 talsins en efnissíður aðeins 32! Snúist til varnar Menntunar- og menningarmál bankamanna voru helstu viðfangsefni SÍB fyrsta áratuginn. Haldin voru fræðslukvöld, keppt í skák, efnt til árshátíða og knattspyrnukeppni þar sem barist var um „Silfurvíxilinn“, glæsilegan silfurskjöld sem Bankablaðið gaf út árið 1937. Eiginleg kjaramál komust fyrst á dagskrá þegar sambandið mótmælti harðlega dýrtíðarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar vorið 1943. Þar segir m.a.: „Stríðsgróðinn hefir nær allur fallið í hlut annarra stétta og þá fyrst og fremst atvinnurekenda í útgerð og verslun, án þess að hægt sé að færa fram nein rök fyrir því, að þeir hafi frekar til þess unnið en launþegar og aðrar afskiptar stéttir þjóðfélagsins.“ Hér kveður við nokkuð annan og hvassari tón en áður. Krafan um samræmd kjör á milli bankanna komust og á dagskrá en á þessum árum ákváðu bankaráðin einhliða kjör starfsmanna. Það leið ríflega áratugur áður en SÍB kom beint að undirbúningi reglugerðar um störf og launakjör allra bankamanna sem gefin var út árið 1956. Fleiri slíkar fylgdu í kjölfarið og reyndust þær vera undanfari kjarasamninga á milli aðila upp úr miðjum áttunda áratugnum. Hannes Jónsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri Vestur – Hún- vetninga og alþingismaður. Hann starfaði jafnframt við endurskoðun hjá Landsbankanum.

x

SSFblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.