SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 19

SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 19
19 banka í eigu ríkisins“, sem að einkabankar, sparisjóðir og aðrir aðilar kjarasamninga SÍB höfðu gerst aðilar að með sérstöku samkomulagi. „Stjórnendur nýju einkabankanna vildu losna undan þessum lögum og margir þeirra töldu algjöran óþarfa að allir starfsmenn yrðu áfram í einu sameinuðu stéttarfélagi. Þarna hófst því enn og aftur mikil barátta stjórnar SÍB að ná samkomulagi við öll fjármálafyrirtækin um að SÍB væri áfram samningsaðili og stéttarfélag allra starfsmanna og koma þannig í veg fyrir að félagsmönnum yrði tvístrað í 5-10 stéttarfélög sérstakra starfsstétta“ segir Friðbert. Aðspurður um hörkuna í þeirri baráttu segir hann það ekkert leyndarmál að þessi barátta hafi verið hörð, en sem betur fer átti SÍB stuðning meðal meirihluta eigenda fyrirtækjanna, sem tókst með aðstoð SÍB að koma mönnum í skilning um „hve mikilvægt það er fyrir báða aðila að hafa einungis einn samræmdan kjarasamning fyrir alla starfsmenn. Sem betur fer tókst að semja og var skrifað undir nýtt samkomulag um kjarasamninga bankamanna þann 14. október 2004. Þetta samkomulag gildir enn.“ ÁRIN 2007- 2015 SÍB verður SSF Nafnabreytingin úr Sambandi íslenskra bankamanna (SÍB) yfir í Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) átti sér stað árið 2007 eftir að félagsmönnum í fjármálageiranum, utan bankanna, hafði fjölgað mjög og þótti nýtt nafn gefa betri mynd af eðli og hlutverki stéttarfélagsins. Óvissuskeið og fjármálakreppa Strax árið 2007 voru blikur á lofti varðandi rekstur og framtíð bankanna, þó engan hafi órað fyrir þeirri atburðarás sem hófst haustið 2008. „Um haustið árið 2007 vorum við formenn SSF boðuð til fundar í Íslandsbanka og tjáð að bankinn hefði áhuga á að aðlaga betur starfsmannafjölda að rekstri, en að það yrði gert að mestu án uppsagna. Vorið 2008 var engu að síður ljóst að bankinn ætlaði að segja upp um 100 starfsmönnum á öllum sviðum bankans. Sömu skilaboð komu frá öðrum bönkum og sparisjóðum, nauðsynlegt væri að draga saman starfsemi og fækka starfsmönnum. Að þessu var unnið um sumarið og fram eftir hausti 2008.“ Í lok september árið 2008 lá fyrir yfirtaka ríkisins á Íslandsbanka og í byrjun október féllu einnig Landsbanki og Kaupþing. „Krafa ríkisins var skýr við stofnun nýju bankanna þriggja í október 2008. Þeim var uppálagt að fækka starfsmönnum um 30-40%, eða um 1500 störf, sem átti að leggja niður strax í október. Í upphafi snérist öll vinna stjórnar SSF og stjórna starfsmannafélaga bankanna að því að tryggja sem flestum áframhaldandi starf, að fækka uppsögnum eins og unnt væri. Þar mættum við kjörnir fulltrúar félaganna, lögfræðingum á vegum FME ásamt stjórnendum fyrirtækjanna á löngum og ströngum fundum. Með mikilli baráttu tókst að koma fyrirhuguðum uppsögnum úr 40% niður í rúm 20% þetta fyrsta ár, en síðar bættust því miður við fjöldi uppsagna“ segir Friðbert. Samhliða þessari baráttu var unnið að því að tryggja öllum starfsmönnum greiddan uppsagnarfrest, en ætlun ríkisvaldsins var að senda þá starfsmenn sem misstu starfið á Tryggingarsjóð launagreiðenda, sem aðeins hefði greitt hluta af kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti. Hann segir að þessi barátta hafi sem betur fer skilað sér því allir fengu sinn uppsagnarfrest greiddan án vinnuframlags. Aðstoð í áfallinu „SSF vann mikið og öflugt starf víða við að draga sem mest úr áfalli þeirra sem misstu vinnuna með ýmis konar aðstoð“ segir Friðbert sem segir þennan tíma og til dagsins í dag hafa verið annasaman. Hann segir að þetta tímabil hafi að mörgu leyti runnið í eitt skeið þar sem afleiðingar kreppunnar væru enn að koma fram. SSF útvegaði lögmenn þar sem ágreiningur var, greiddi fyrir sálfræðiaðstoð og aðstoð ráðningastofa (Capacent og Hagvang) vegna undirbúnings fyrir launaviðtöl og gerð ferilskráa og ótal margt fleira. „Hundruðir félagsmanna fóru á námskeið, m.a. hjá „Nýttu kraftinn“ til að undirbúa sig fyrir atvinnu hjá nýjum vinnuveitanda og á tímabili var starfandi nokkurs konar neyðarmóttaka hjá Rauða krossinum á vegum SSF“ segir Friðbert en margir félagsmenn urðu fyrir miklu áfalli á þessum tíma. „Afleiðingar efnahagskreppunnar komu fram á ýmsa vegu og mikill tími og orka fór í það að takast á við það verkefni sem var meira eða minna í gangi fram á árið 2013 þar sem í kjölfar hruns bankanna þriggja lentu önnur fjármálafyrirtæki einnig í hruni og lokun. Allir sem hafa tjáð sig við okkur forsvarsmenn og starfsmenn telja að SSF hafi staðið sig afar vel í þessu „björgunarstarfi“ og að við hefðum veitt alla þá aðstoð sem mögulegt var að veita félagsmönnum við þessar erfiðu aðstæður.“ Baráttunni er ekki lokið Í dag eru félagsmenn SSF um 4000 talsins en voru um 6000 þegar mest var. Þrátt fyrir þessa miklu fækkun félagsmanna og starfsmanna í fjármálageiranum er „enn skýr krafa yfirvalda og ýmissa álitsgjafa í þjóðfélaginu um að enn þurfi að „hagræða“ og fækka starfsmönnum íslenskra fjármálafyrirtækja. Undir þessa kröfu um hagræðingu taka stjórnendur banka og sparisjóða einnig í öllum viðtölum. Framtíðin Friðbert telur að enn sé mikil barátta framundan við að tryggja atvinnu og tryggja réttindi og kjör félagsmanna SSF. Krafan um hagræðingu heldur áfram og einnig er að renna í garð mikill umbreytingatími í íslensku fjármálalífi og því telur Friðbert að það sé mikilvægt að innan SSF sé „reynslumikið baráttufólk til að stýra þeirri réttindabaráttu á vegum SSF nú sem áður.“ Að því sögðu liggur beinast við að spyrja hvort hann hyggist gefa áfram kost á sér til formennsku SSF á næsta þingi sem haldið verður í mars á næsta ári. „Ég hef starfað að félagsmálum allt frá því ég gekk í skátahreyfinguna á Flateyri þegar ég var 10 ára. Ég hef setið í stjórnum skólafélaga, íþróttafélaga, starfsmannafélaga, húsfélaga, stéttarfélaga bæði á Íslandi og erlendis, lífeyrissjóða og samtaka lífeyrissjóða og þannig má lengi telja. Ég tel mig vera á besta aldri, rétt sextugur og með mikla starfsorku. Síðastliðin 15 ár hef ég unnið á skrifstofu SSF sem formaður og framkvæmdastjóri. Allan þann tíma hef ég fengið gífurlegan stuðning frá félagsmönnum SSF, sem ítrekað tjá okkur starfmönnum SSF ánægju sína með þjónustu og frábært starf stéttarfélagsins. Ég er því ákveðinn í að bjóða mig áfram til starfa fyrir okkar frábæra stéttarfélag á þingi samtakanna í mars 2016“ segir Friðbert. Hann segist eiga nóg inni þrátt fyrir að hafa verið formaður SSF í þennan tíma. „Ég hef þannig aflað mér mikillar reynslu á öllum þessum sviðum undanfarna áratugi. Ég er menntaður hagfræðingur frá Háskóla Íslands sem hefur hjálpað mér mikið í öllum þeim samningamálum sem ég hef sinnt fyrir hönd félagsmanna SSF.“ Á þeim tíma sem Friðbert hefur gegnt formennsku hefur SSF gert níu kjarasamninga og að hans mati þá er enginn vafi á því að „í flest öllum tilfellum hefur SSF gert betri kjarasamning, eða í það minnsta sambærilegan við önnur stéttarfélög á íslenskum vinnumarkaði. Þegar rauntölur launahækkana (Hagstofan) eru skoðaðar undanfarin ár er ljóst að til viðbótar umsömdum launahækkunum hafa margir félagsmenn SSF einnig fengið það launaskrið sem viðvarandi var flest árin. Kjarasamningur SSF þykir einn sá albesti á markaðnum hvað varðar starfstengd réttindi og kjör, og þannig viljum við hafa hann áfram um alla framtíð“ segir Friðbert að lokum.

x

SSFblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.