SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 16

SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 16
16 Þá var því brotið blað á ný þegar Anna G. Ívarsdóttir var kosin formaður á 37. þingi SÍB í apríl árið 1991. Hún var áður kjörin í stjórn sambandsins árið 1987 og hafði gegnt varaformennsku frá árinu 1989. Fjöldauppsögnum mótmælt Þótt ekki hafi verið gripið til beinna uppsagna við samruna bankanna fjögurra árið 1990 þrengdi sú ráðstöfun mjög að bankafólki með óbeinum hætti. Smám saman jukust kröfur um sparnað í ríkisbönkunum. Starfsöryggi bankastarfsmanna hefur farið minnkandi og nokkrir bankar hafa sagt upp starfsmönnum. Mestu fjöldauppsagnir urðu hjá Landsbankanum vorið 1993. SÍB mótmælti uppsögnum í Landsbankanum sem ólögmætum og siðlausum og aflaði sér jafnframt verkfallsheimildar. Þá var boðað til útifundar á Lækjartorgi 27. maí og komu þangað um tvö þúsund bankamenn og sýndu samstöðu í þrengingum. 38. þing SÍB var haldið á Selfossi þetta heita vor og var atvinnuleysið helsta umfjöllunarefni þingsins. Þar var m.a. sýnt fram á að útlánatöp síðustu ára væru meginástæður fyrir rekstrarvanda bankanna fremur en launakostnaður. Frá því uppstokkunin í bankakerfinu hófst í lok níunda áratugarins hefur bankamönnum fækkað um fimmtung. Aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði Bankarnir höfðu sjálfir greitt bankamönnum bætur í atvinnuleysinu þar sem þeir áttu ekki aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði. Á því varð breyting þegar Samband viðskiptabanka ákvað að hætta greiðslu bóta 1. júlí 1993 í kjölfar nýrra laga er kváðu á um fulla aðild þess að sjóðnum. Því sótti SÍB um aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði og fékk jákvætt svar skömmu síðar. 1. október 1993 fengu 89 bankamenn greiðslur úr sjóðnum. Þessi tala fór yfir 100 á árinu 1994 og jafngildir það rösklega þremur af hundraði félagsmanna SÍB. SÍB tekur við rekstri Bankamannaskólans Í tengslum við nýjan kjarasamning í ársbyrjun 1994 var gert samkomulag um að SÍB tæki að sér rekstur Bankamannaskólans, fræðslumiðstöðvar bankamanna, sem sjálfstæðrar stofnunar. Jafnframt flutti SÍB skrifstofur sínar í rúmgott húsnæði í sambýli við skólann að Snorrabraut 29 í Reykjavík. Þegar hér er komið við sögu hafði Bankamannaskólinn nær lognast út af og engin hefðbundin fræðsla verið í skólanum veturinn 1993-1994. Segir í SÍB tíðindum í janúar 1994 á þessa leið: „Ekki er gert ráð fyrir að við skólann starfi skólastjóri heldur að fræðslunefnd beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd fræðslunnar. SÍB yfirtekur reksturinn og ræður starfsmann til skólans. Samningurinn er til þriggja ára og verður þá endurskoðaður ef aðilar óska þess. Það er von samninganefndar að þessi tími nýtist til þess að hefja Bankamannaskólann aftur til vegs og virðingar.“ Á afmælisári SÍB árið 1995 hljóta allir bankamenn að geta tekið undir þessar vonir því oft var þörf en nú nauðsyn á að efla og styrkja menntun íslenskra bankamanna. SÍB 60 ára – sterkari samtök Þessar stiklur úr fyrstu 60 árum úr sögu Sambands íslenskra bankamanna sýna, svo ekki verður um villst að sambandið þróaðist smám saman úr laustengdu bandalagi starfsmannafélaga tveggja ríkisbanka yfir í öflug stéttarsamtök allra íslenskra starfsmanna fjármálafyrirtækja. Aðildarfélög SÍB voru 19 talsins á afmælisárinu 1995. Félag starfsmanna Landsbanka Íslands og starfsmannafélög Búnaðarbankans, Byggðarstofnunar, Eyrasparisjóðs, Iðnlánasjóðs, Lánasýslu ríkisins, Íslandsbanka, Reiknistofu bankanna, Seðlabankans, VISA-Ísland og Þjóðhagsstofnunar auk starfsmannafélaga sparisjóða Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mýrarsýslu, Svarfdæla, Vestmannaeyja og Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðs vélstjóra. Heimild: Bankamenn í sextíu ár. Stiklur úr sögu Sambands íslenskra bankamanna. Valþór Hlöðversson – Athygli, tók saman. Prentun; Oddi. Samband íslenskra bankamanna, 1995.

x

SSFblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.