SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 14
14
eftir vinnu. Þá fjölgaði mjög kennslugreinum og framhaldsnám
var tekið upp. Skólastjóri var ráðinn Þorsteinn Magnússon,
viðskiptafræðingur.
NBU þing á Íslandi
Norræna bankamannasambandið, NBU hélt þing sitt í fyrsta sinn
á Íslandi sumarið 1978. Þingfulltrúar voru ríflega sjötíu frá öllum
Norðurlöndunum en félagsmenn í öllum samböndum voru þá
116.338 talsins.
Aftur var NBU þing haldið í Reykjavík 9.-11. september 1992 og
sóttu það tæplega 90 erlendir þingfulltrúar auk hinna íslensku. Áður
hafði verið haldin fræðsluráðstefna á vegum NBU í Reykjavík dagana
24.-26. ágúst 1988 undir einkunnarorðunum „Góð starfsmenntun
– besta atvinnuöryggið.“
Tímans tækniundur
Á ráðstefnu SÍB um
tækniþróun í desember
1978 var m.a. rakin
þróun í Landsbankanum
frá tímum pennastanga
og bleks í upphafi og
kom fram að bankinn hefði tekið ritvélar í notkun 1905, NCR
bókhaldsvélar árið 1934 og margföldunarvélar árið eftir. NCR
gjaldkeravélar komu í Landsbankann árið 1958, veðdeildin tók
skýrslugerðarvélar af IBM gerð í notkun 1961 og Kinzle bókhaldsvélar
með vaxtaútreikningi komu í bankann árið 1962.
Rafreiknideild Landsbankans tók til starfa árið 1966 og ári síðar
fær bankinn IBM tölvu af gerðinni 360/20. Fleiri kostagripir áttu
eftir að halda innreið sína í íslenska banka og í Reiknistofu bankanna
eftir að hún var sett á laggirnar árið 1972 – allt tímans tækniundur.
Samstaða og baráttuandi
Fyrsta allsherjarverkfall bankamanna skall á 8. desember 1980 og
stóð til 12. desember. Reyndu átökin mjög á samstöðu bankamanna
og skipulag samtakanna.
Aðdragandi verkfallsins var sá að kjarasamningur, er var
undirritaður 3. október þá um haustið, var felldur í almennri
atkvæðagreiðslu með 60% greiddra atkvæða. Á fundi stjórnar SÍB,
samninganefndar og formanna starfsmannafélaganna, 17. nóvember,
var ákveðið að boða til verkfalls 3. desember en ríkissáttasemjari lagði
fram sáttatillögu á fundi samningsaðila og frestaði verkfallinu til 8.
desember. Sáttatillagan var felld í atkvæðagreiðslu og verkfall skall á.
Að loknum miklum fundahöldum hjá ríkissáttasemjara tókust loks
samningar og bankamenn komu til vinnu 12. desember, reynslunni
ríkari. Árangurinn var m.a. umtalsverð kjarabót í krónum og aurum
auk ýmissa félagslegra réttinda.
Ávinningurinn var þó mest fólginn í lærdómi samstöðu og
baráttuanda, sem einkenndi þetta fyrsta verkfall SÍB.
Þrjátíu og einn lá fyrir Kortsnoj!
Vorið 1981 kom stórmeistarinn heimskunni, Viktor Kortsnoj og
tefldi fjöltefli við bankastarfsmenn í samkomusal Búnaðarbankans
við Austurstræti.
Alls tefldi Kortsnoj við þrjátíu og fimm bankamenn og fóru leikar
svo að hann sigraði þrjátíu og einn en gerði fjögur jafntefli. Þeir sem
þeim árangri náðu voru Björgvin Á. Ólafsson, Útvegsbanka, Hilmar
S. Karlsson, Búnaðarbanka og Landsbankamennirnir Vilhjálmur
Þór Pálsson og Jóhann Örn Sigurjónsson.
Í fæðingarstað forsetans
Vorið 1982 flutti SÍB skrifstofur sínar frá Laugavegi 103 að
Tjarnargötu 14, en þar hafði sambandið keypt húsnæði af Félagi
íslenskra stórkaupmanna. Flutningnum fylgdi bylting í félagsstarfi
og skapaðist gott rými til hvers kyns fundahalda.
Húsnæðið var á tveim hæðum, ris og kjallari, um 95 fermetrar
að grunnfleti. Húsið var nýuppgert þegar SÍB festi á því kaup.
Í boði, sem forseti Íslands gekkst fyrir að Bessastöðum í tilefni
af stjórnarfundi NBU hér á landi, kom frú Vigdís Finnbogadóttir
viðstöddum á óvart með því að tilkynna að hún hefði fæðst og búið
um skeið í Tjarnargötu 14, húsinu þar sem SÍB hafði nýlega flutt
starfsemi sína. Færði hún sambandinu nokkur póstkort og bréf er
hún hafði fengið send er hún dvaldi þar í foreldrahúsum. Hefur
þeim gögnum verið komið fyrir á viðeigandi hátt á skrifstofu SÍB.
SÍB í hálfa öld
Þegar Samband íslenskra bankamanna hélt upp á hálfrar aldar
afmæli sitt í ársbyrjun 1985 voru félagsmenn orðnir 3.200 talsins
og aðildarfélögin 17. Sveinn Sveinsson, þáverandi formaður SÍB,
segir í leiðara Bankablaðsins skömmu fyrir afmælið á þessa leið:
„Síðustu 15 árin í starfsemi SÍB hafa mjög einkennst af baráttu
fyrir bættum kjörum til handa bankamönnum. Langþráður áfangi
náðist með tilkomu samnings- og verkfallsréttarins árið 1977, sem
mikla vinnu var búið að leggja í til að ná fram. Við það lagðist
niður einhliða réttur bankaráðanna til að ákvarða kaup og kjör
bankastarfsmanna. Á móti hefur vinna við kjarasamningsgerð
margfaldast, sérstaklega á tímum þegar stutt er á milli samninga.“
Bankamenn hvöttu samningamenn sína til dáða í verkfallinu í desember árið 1980. Hér
kemur Björgvin Vilmundarson, formaður samninganefndar bankanna, af samningafundi.
Björgvin reyndist félagsmönnum SÍB afskaplega vel í allri kjara- og hagsmunabaráttu.