SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 23
23
bankinn var samkomusTaður
Anna María hóf störf í bankaþjónustu þann 1. september árið 1976
og fagnar því sínu fertugasta starfsafmæli á næsta ári. Hún hóf
störf hjá Búnaðarbankanum í sínum heimabæ, Stykkishólmi, og
segir margt hafa breyst á þessum tíma og í raun ekkert líkt lengur
með þeim vinnustað sem hún hóf störf á og vinnustaðnum eins og
hann er í dag, þó svo að starfsheiti og þjónustan sé hin sama. Í dag
starfar hún hjá Arion banka og hefur unnið þar frá því hann hét
Búnaðarbankinn.
„Það er í raun ekki hægt að bera störfin saman í dag“ segir Anna.
„Í þá tíð, svo ég tali nú eins og gömul kona“, bætir Anna við og
hlær, „komu allir í bankann til að sinna sínum viðskiptum og oft
margt um manninn og mikið fjör. Þá má í raun segja að þetta hafi
verið einn af samkomustöðum bæjarins. Hingað komu íbúar og
ræddu landsins gagn og nauðsynjar og auðvitað um það sem var
að gerast í bæjarlífinu“ segir Anna sem er ekki frá því að hún sakni
þess tímabils þegar að útibúið var svo stór þáttur mannlífsins. Í þá
daga voru útreikningar á vöxtum á reikninga á sparisjóðsbókum
og ávísunum gríðarlega umfangsmikill þáttur í daglegum störfum
gjaldkerans. „Þá hófst t.d. undirbúningur fyrir áramótin með því að
við byrjuðum að reikna vexti á allar sparisjóðsbækur í nóvember og
desember og handfærðum svo inn í bækurnar. Þá reiknuðum við
vexti mánaðarlega til dæmis á ávísana- og hlaupareikninga“ segir
Anna. Í dag er starf hennar með allt öðrum hætti. Þó svo að hún
minnist „gömlu“ góðu daganna með vissri rómantík þá leiðist henni
ekki í vinnunni í dag. „Fjölbreytileikinn er miklu meiri og starfið
ekki eins einhæft sem er mikill kostur“ segir hún. Hún hefur mjög
gaman af því sem hún er að gera og óhætt að segja að mikið líf sé í
kringum hana og mikið stuð.
viðhorF almennings heFur breysT
Anna segir að viðhorf almennings til bankastofnana og starfsmanna
hafi breyst mjög mikið. Alla tíð hefur traustið verið mjög mikið en
með fjármálakreppunni hvarf það á einum degi. „Fyrir það fyrsta
eru viðskiptavinir á varðbergi gagnvart bönkunum almennt og við
þurfum að vinna upp traust bankanna við viðskiptavinina að nýju.
Við fengum nú ýmislegt að heyra á sínum tíma sem að var ekki í
okkar valdi að svara fyrir, en flestir voru bara afskaplega kurteisir
og æðrulausir“ segir Anna.
vill Frekari kjarabæTur
Anna telur að í ljósi breyttra viðhorfa og ákveðins skilningsleysis á
kjörum og störfum starfsfólks í fjármálaþjónustu hafi kjarabaráttan
verið erfiðari. „Hvað launin varðar þá er það gömul klisja að
bankamenn séu hálaunafólk, það eru kannski eitthverjir útvaldir en
ekki hinn almenni bankastarfsmaður“ segir Anna. Hún telur ýmislegt
þess valdandi að umræðan og ákveðið skilningsleysi sé með þessum
hætti t.d. fjölmiðlaumfjöllun um heildarlaun bankamanna þar sem
fámennur hópur skekki myndina og umræðan um bónusgreiðslur
sem fjölmargir telji að starfsfólk fjármálastofnana fái. Anna bætir
því einnig við að „því hafi alltaf verið haldið fram að starfsfólk í
bönkum á höfuðborgarsvæðinu séu með hærri laun en starfsfólkið
í landsbyggðunum, og það er engin vitleysa. Fólk hefur flutt sig úr
mínu útibúi til höfuðborgarinnar og fengið launahækkun. Það er
mín skoðun að við eigum að ganga hart fram og fylgja eftir þeim
kröfum sem um var rætt á haustfundi trúnaðarmanna og stjórnar
á Selfossi í ár“ segir Anna.
verkFallsvopnið ekki endilega lausnin
Aðspurð að því hvort hún telji að SSF hefði átt að beita
verkfallsvopninu segist hún ekki viss um að það skili tilætluðum
árangri. „Ég sjálf hef upplifað að fara í verkfall eftir að ég hóf störf
í bankanum en ég man í raun ekki hvort að við náðum fram betri
kjörum. En þetta var ótrúlega skemmtilegt, skrýtið að segja svona,
en það var mikil samkennd og stemmning. Fólk var að hittast og
við stóðum verkfallsvaktir ef að þurfa þótti“ segir Anna. Hún bætir
því við að hún sé efins um að almenningur hafi almennt skilning á
kjarakröfum, „hinn almenni viðskiptavinur held ég að sé ekkert að
spá í þá hluti. En það eru margir sem halda að bankastarfsmenn sé
með miklu betri launakjör en raunin er“ bætir Anna við að lokum.
„GÖMUL KLISJA AÐ BANKAMENN
SÉU HÁLAUNAFÓLK“
SEGIR ANNA MARÍA RAFNSDÓTTIR, GJALDKERI ARION BANKA Í STYKKISHÓLMI
Anna María við höfnina í Stykkishólmi.