SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 7
7
hausTið 1945 áTTi landsbanki íslands 60 ára aFmæli og er þess
að nokkru geTið í bankablaðinu það ár. Í grein eftir Klemens
Tryggvason kemur m.a. fram að mjög lítil fjölgun hafi orðið í
starfsliði bankans áratuginn á undan þrátt fyrir stóraukin umsvif.
Starfsmenn Landsbankans árið 1945 voru aðeins 87 talsins en þá
hafði útibúum fjölgað og gjaldeyriseftirlitsdeild og hagfræðideild
verið settar á stofn. Í tilefni af afmælinu ákvað bankaráðið að gefa
50.000 kr. í námssjóð starfsmanna er hafði verið stofnaður áratug
áður. Þá var einnig ákveðið að innrétta efsta loft bankahússins sem
samkomusal fyrir starfsmenn. Af ýmsum ástæðum varð þó ekki úr
framkvæmdum fyrr en sumarið 1950.
Skilningur – réttlæti – víðsýni
Með vísan í þessi hugtök þakkar frú Sigríður Brynjólfsdóttir
yfirmönnum Landsbankans aukna upphefð kvenna í bankanum
og öra þróun í átt til jafnræðis í launamálum á við karlana. Hún
ræðir kröfur Landsbankakvenna um sömu laun fyrir sömu vinnu
og segir í grein í Bankablaðinu árið 1947:
„Höfum við nú fengið þessar óskir okkar uppfylltar þannig,
að laun flestra okkar eldri hafa verið færð til samræmis við laun
karlmannanna og vonum við að hér verði ekki staðar numið. Einnig
hefur ein okkar verið skipuð fulltrúi...“
„Ég sé þig...“
Halldór Stefánsson, sá ágæti rithöfundur og starfsmaður
Landsbankans, slær á léttari strengi og birtir í þessu sama hefti
ljóðið Skrifstofustúlka. Síðasta erindið er á þessa leið:
Ég sé inn um gluggann þinn, á hvíta fagra fingur
þú fengið hefur blekklessu, ég veit það ergir þig.
Ég vorkenni þér innilega og vil þig láta kyssa,
því kannski varstu þá að skrifa reikninginn á mig.
Fulltrúaráð tekur við
Fljótlega eftir stofnun SÍB fóru að koma fram annmarkar á því
fyrirkomulagi að sambandið skyldi vera sameiginlegt starfsmannafélagi
þeirra tveggja banka sem í upphafi áttu hlut að máli. Þegar kom
fram á eftirstríðsárin hafði þeim svo fjölgað í ellefu og því óhægt
um vik að halda svo fjölmenna fundi. Varð því að ráði að SÍB var
breytt í fulltrúaráð starfmannafélaganna á aðalfundi haustið 1948 og
jafnframt að félögin kysu einn fulltrúa fyrir hverja tíu félagsmenn.
„Eins og kýr í fjósi“
Höfuðborgin þandist mjög út á stríðsárunum og hélt sú þróun áfram
eftir að kom fram á síðari hluta fimmta áratugarins. Ein afleiðingin
varð sú að frá stjórnarráðinu bárust þau tilmæli að bankarnir tækju
upp rekstur mötuneytis þar sem starfsmenn hefðu ekki tíma til að
ganga til síns heima í hádeginu. Um þetta voru að vonum skiptar
skoðanir og Guðmundur R. Ólafsson skrifar í 1. tbl. Bankablaðsins
1948:
„Ég tel það vafalaust í
verkahring landlæknis ef
honum er skýrt frá þessu
máli, að vara við því að
byrgja starfsfólkið inni
í vinnustofunum allan
daginn, eins og kýr í
fjósi, án nauðsynlegrar
útigöngu um miðjan
daginn. Væri fróðlegt að
leita álits landlæknis og
læknadeildar Háskólans
á áhrifum þess að heilsu starfsmanna.“
Þrátt fyrir andmæli Guðmundar og eflaust margra fleiri
bankamanna varð þróunin sem kunnugt er sú að mötuneytin spruttu
upp í bönkunum – og starfsmenn urðu af hressingargöngu í hádeginu.
Sænsku húsin rísa
Eftir að Byggingarsamvinnufélag bankamanna í Reykjavík hóf
starfsemi risu hin svokölluðu „sænsku hús“ af grunni eftir að ófriðnum
lauk. Um var að ræða tilsniðin hús frá Svíþjóð og því byggingartíminn
stuttur. Bankarnir reyndu að hlaupa undir bagga með byggjendum
og m.a. veitti Búnaðarbankinn starfsmönnum sínum hagstæð lán
til 35 ára á 5,7% vöxtum. Síðar opnuðust frekari möguleikar til
fjármögnunar húsa bankamanna því
að eftirlaunasjóðir hófu að veita lán
til íbúðabygginga. Mestur þróttur
var í Byggingarsamvinnufélagi
starfsmanna Landsbankans er var
stofnað 1949 og byggði allmargar
íbúðir á næstu árum.
Myndatexti: Landsbankinn studdi vel við bakið á sínu fólki og m.a. var innréttaður
salur á efsta lofti aðalbankans í Reykjavík. Mikill húsnæðisskortur var í Reykjavík fyrir
styrjöldina. Hér leggja starfsmenn hitaveitulagnir
árið 1945. Mynd: Orkuveita Reykjavíkur. www.or.is
VELTIÁR AÐ LOKNU STRÍÐI
– 1945-1955 –