Dagblaðið Vísir - DV - 20.09.2019, Side 47

Dagblaðið Vísir - DV - 20.09.2019, Side 47
BLEIKT - VIÐTAL 4720. september 2019 „Það þurfti nokkur „aha- móment“ fyrir mig til þess að sjá þetta svona skýrt eins og ég sé það í dag. Eitt svoleiðis andartak var þegar ég skoðaði viðhorf mín gagnvart slæmum tilfinningum, en þá var ég að vinna með eins konar markþjálfa. Hún hjálpaði mér að sjá að ég merkti þær ómeðvitað sem veikleika. Ef ég væri leið, sorgmædd eða reið þá væri eitthvað „að“, þannig að ég leyfði mér ekki að upplifa þessar tilfinningar. Þegar maður heldur spegli svona nálægt sjálfum sér fer maður að átta sig á alls konar hugsanavillum sem maður hefur pikkað upp frá fólki í kringum sig, í gegnum uppeldi og umhverfi. Það er ótrúlega hollt og nauðsynlegt að kafa svona ofan í hlutina, virkilega spyrja sjálfa sig hvort það sem maður trúir sé virkilega satt, eða hvort það sé kannski eitthvað sem maður fékk lánað frá einhverjum í fjölskyldunni,“ segir Sara og heldur áfram. „Einnig tók ég eftir því að ég átti stundum erfitt með að sækja þessar góðu tilfinningar, ég upplifði mig frekar flata eða jafnvel dofna. Ég sá að með því að bæla niður þetta vonda, var ég líka að bæla niður þetta góða. Mig langar ekki að lifa þannig og ákvað því að ég yrði að gera eitthvað í málunum.“ Samfélagsmiðlar góð flóttaleið Sara hefur gert ýmislegt til að rækta sig sjálfa og takast á við slæmu tilfinningarnar. Hún hefur farið á námskeið, unnið með þjálfa, farið á ráðstefnur, vinnustofur, hugleitt, skrifað og spjallað við nánar vinkonur. „Allt hefur þetta hjálpað mér að þeim stað sem ég er komin á í dag og hef ég elskað ferðalagið, enda finnst mér ekkert meira skemmtilegt en að læra og þróa mig áfram sem einstakling. En núna er kominn tími til að stoppa og þora að finna. Ég sá tilvitnunina „To feel is to heal“ um daginn. Ætli það sé ekki mest ógnvekjandi parturinn fyrir mig,“ segir hún og bætir við að hún hafi leitað til Krabbameinsfélags Íslands í byrjun mánaðar þegar hún var stödd hér á landi og einnig fengið góð ráð frá sérfræðingunum þar. En af hverju að taka frí frá samfélagsmiðlum? „Eins mikið og ég elska samfélagsmiðlana og veit hvað þeir geta haft jákvæð áhrif þá er mjög lúmskt álag að vera alltaf að hugsa um að vera til staðar fyrir aðra. Vera stanslaust að búa til efni, hugsa hverju væri gaman að deila, hvað mundi hjálpa, hvetja áfram og svo framvegis. Sú vinna byrjar ekki klukkan átta og hættir klukkan fjögur, heldur er hausinn sífellt bundinn við þetta verkefni, frá morgni til kvölds. Þetta var farið að taka mikið á, því sálin mín var byrjuð að öskra á mig að fara að horfa inn á við, sem er afskaplega erfitt þegar hugurinn og einbeitingin er alltaf einhvers staðar annars staðar,“ segir Sara og telur að samfélagsmiðlar séu hentugt skjól fyrir fólk á flótta frá sér sjálfu. „Samfélagsmiðlar eru góð leið til að flýja, við erum aldrei til staðar í núinu, alltaf með hugann inni í þessum tilbúna heimi. Um leið og það opnast tómt rými, grípum við í símann. Það er eins og fólk sé hrætt við að vera eitt með sjálfu sér, upplifa tómarúmið, upplifa hljóð. Þetta er ákveðinn flótti; að vera alltaf að líta út á við, hvað er að gerast í lífi annarra? Í stað þess að horfa á sig. Ég veit að það er mikil vanlíðan hjá fólki vegna samfélagsmiðla, það er að máta sitt líf við glansmynd annarra og bera sig saman við aðra. Þetta veldur erfiðleikum fyrir marga og þessi stöðuga hugsun um „að vera aldrei nóg“ er slítandi. Margir setja í kjölfarið miklar kröfur á sjálfa sig til að geta tékkað í öll boxin og samfélagið virðist hlaupa hraðar og hraðar. Þunglyndi, streita og kulnun virðast sífellt verða algengari. Ég er ekki að kenna samfélagsmiðlum einum um, en ég held að við séum alltof af tengd okkur sjálfum og þurfum að fara líta meira inn á við og hætta að hlaupa.“ Upphafið að einhverju betra Sara telur að margir séu í sömu sporum og hún var í sjálf – á flótta undan slæmu tilfinningunum, sársaukanum og sorginni. Veruleikanum í raun. „Það var algengt í gamla daga að eldri kynslóðir töluðu ekki um tilfinningar, það var lítið pláss fyrir þær fyrr á 19. öld, þegar fólk þurfti að hugsa meira um að lifa af, fæða og klæða fjölskylduna sína. Ég veit að margir eru að glíma við leifar af þessum viðhorfum þar sem svona hlutir erfast niður í gegnum uppeldi, kynslóð eftir kynslóð. Einnig held ég að margir vilji halda uppi ákveðinni ímynd, að það sé allt fullkomið hjá þeim. Þessi glansmynd af lífinu sem margir eru með á samfélagsmiðlum er líka pressa á fólk um að ýta þessum slæmu hlutum frá sér og reyna að halda áfram,“ segir Sara og telur jafnvel að sum okkar séum jafnvel hrædd við að finna til. „Það er vont að upplifa slæmar tilfinningar og ég held að flestir vilji það ekki. Viljum við ekki frekar finna þetta jákvæða, gleðina, hamingjuna? En ég held að við þurfum líka að kunna að taka á móti þessu erfiða til þess að virkilega kunna að meta þetta góða. Ég er að læra að leyfa þessu vonda að vera, ekki streitast á móti, ekki loka á. Þá flæðir það frekar í gegn og líður hjá, frekar en að það safnist upp sem spenna í líkamanum.“ Sara hefur fundið fyrir miklum stuðningi síðan hún opnaði sig á Instagram og tilkynnti fjarveru sína frá samfélagsmiðlum, stuðning sem hún segir einmitt eina af jákvæðu hliðum miðlanna. Hún lítur björtum augum á framtíðina og finnur að hún stendur á miklum persónulegum tímamótum. „Ég ætla að einblína á þetta verkefni næstu vikurnar, leyfa mér að gráta þegar ég þarf að gráta. Leyfa mér að vera leið, sorgmædd og upplifa allt sem kemur. Þegar mig langar að kyngja og ýta niður, að anda þá í staðinn og sleppa takinu. Því aðeins þannig kemst ég í gegnum þetta. Ég held að þetta sé upphafið að einhverju enn betra og að ég muni koma sterkari til baka, hvernig sem það mun líta út, það verður að koma í ljós. Markmið mitt er að verða frjáls og blómstra, því þannig get ég gefið enn meira af mér til annarra.“ n Þetta var mjög furðulegur tími, blandaður missi og gleði, maður vissi ekki hvernig maður átti að höndla þetta Bestu vinkonur Sara ásamt móður sinni, Lindu. Mynd: Aðsend Nýtur sín í móðurhlutverkinu Sara ásamt syni sínum, Alexander. Mynd: Aðsend

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.