Morgunblaðið - 07.09.2019, Síða 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. SEPTEMBER 2019
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Tímaflakk er nýr valkostur í korta-
sjá Loftmynda ehf. á slóðinni map.is.
Þar er hægt að bera saman loft-
myndir frá mismunandi tímum.
Elstu myndirnar eru frá 1996 og þær
yngstu frá 2018. Von er á myndum
frá þessu ári fyrir árslok.
„Við byrjuðum að taka loftmyndir
árið 1996. Nú er búið að tengja allt
myndasafnið saman í tímaflakki og
hægt að bera saman myndir frá
hvaða tveimur árum sem eru í safn-
inu,“ sagði Karl Arnar Arnarson,
framkvæmdastjóri Loftmynda ehf.
Þegar Tímaflakkið er valið opnast
sjálfkrafa yngsta og elsta myndin af
viðkomandi svæði. Með því að draga
sleða til hliðanna sést munurinn á
myndunum. Tveir hnappar sýna ár-
töl myndanna. Með því að smella á
þá má velja myndir frá öðrum árum.
Reglulegar loftmyndatökur
„Við tökum myndir af um 15%
landsins á hverju ári og förum því yf-
ir allt landið á 6-7 árum,“ sagði Karl.
„Við skilgreinum 94 staði sem þétt-
býli og fljúgum yfir þá í lágflugi á
eins til fjögurra ára fresti. Við eigum
myndir af höfuðborgarsvæðinu frá
því sem næst hverju ári. Akureyri
hefur verið ljósmynduð annað hvert
ár og minni þéttbýlisstaðir á 4-5 ára
fresti. Flogið er yfir dreifbýli eftir
þörfum og valdir staðir þar sem
breytingar hafa orðið t.d. vegna
verklegra framkvæmda eða jarð-
hræringa. Sveitarfélög og fram-
kvæmda- og veituaðilar biðja stund-
um um tíðari myndatökur af
tilteknum svæðum og þá er flogið
þar yfir á tveggja ára fresti.“
Myndatökurnar standa yfir í sex vik-
ur á ári, hefjast um miðjan júlí og
lýkur í ágústlok. „Mig langar að fá
enn eldri myndir í safnið. Það eru til
loftmyndir sem voru teknar í stríð-
inu og eftir stríð. Það væri gaman að
sjá þær þarna inni,“ sagði Karl.
Fyrst voru teknar svart-hvítar
myndir á filmuvél. Hver filma rúm-
aði um 500 myndir og var um þrjátíu
sentimetrar á kant. Þegar filman var
búin þurfti að setja nýja í myndavél-
ina og því fylgdi heilmikið vesen í
þröngri flugvél. Filmurnar voru
geymdar í myrkrapokum og sendar
til útlanda í framköllun. „Maður var
alltaf með smá hnút í maganum um
hvort þetta hefði verið í lagi þangað
til filman kom til baka og hægt var
að skoðað hana,“ sagði Karl.
Hárskarpar stafrænar myndir
Loftmyndir skiptu yfir í stafrænar
myndatökur árið 2017 þegar ný og
fullkomin stafræn myndavél var
keypt. Hún tekur miklu skarpari
myndir en filmuvélarnar gátu gert.
Allar myndir eru teknar með 60-80%
skörun við næstu mynd þannig að
hægt er að búa til þrívíddarmyndir
og hæðarlíkön út frá þeim. Myndir af
þéttbýlisstöðum eru teknar með 10
sentímetra upplausn, þ.e. hver
myndeining (pixel) á jörðinni er 10
sentímetrar á kant. En myndir af
öðrum svæðum eru í 25 sentímetra
upplausn þar sem hægt er að greina
atriði eins og raflínur. Í sumar voru
ákveðin þéttbýlissvæði mynduð með
5 sentímetra upplausn sem gæti orð-
ið framtíðin.
Karl sagði að í byrjun hefðu sumir
viðskiptavinirnir sagt að það væri
óþarfi að taka litmyndir. Liturinn
segði svo lítið auk þess sem litmynd-
ir voru miklu dýrari í prentun. Þegar
Loftmyndir gátu útvegað loftmyndir
af stórum svæðum var einnig farið
að nota þær í kynningar, birtingar á
skipulagstillögum og ýmsum hug-
myndum. Einnig jukust kröfur um
að myndirnar væru fallegar og
sýndu atriði sem skiptu e.t.v. ekki
máli fyrir framkvæmdir, en voru
mikilvæg fyrir fólkið sem bjó nálægt.
Karl sagði að myndagrunnur
Loftmynda væri einn sá besti sem
menn hefðu aðgang að á Norður-
löndum. „Við erum einkafyrirtæki
sem gerir þetta á eigin ábyrgð og
áhættu,“ sagði Karl. „Hið opinbera
hefur ekki sett krónu í að búa þenn-
an grunn til. Annars staðar sjá rík-
isfyrirtæki um þetta og verja sum
milljörðum á hverju ári í að viðhalda
myndagrunnunum.“
Myndagrunnur Loftmynda geym-
ir gríðarmiklar og samanburðarhæf-
ar upplýsingar um verklegar fram-
kvæmdir, landeyðingu, landmyndun
t.d. eftir eldgos eða gróðurbreyting-
ar eins og útbreiðslu lúpínu og ker-
fils. Allir geta nú skoðað þessar
myndir og borið saman á tímaflakk-
inu á www.map.is
Fortíð og nútíð bornar saman
Ljósmyndir/map.is
Hafnarfjörður Það varð mikil breyting í Hafnarfirði frá árinu 1996 til 2017. Meðal annars risu Vellirnir og fleiri hverfi í sunnarlega í bænum frá 1996,
þegar eldri myndin var tekin, og til ársins 2018 þegar sú nýrri var tekin. Nær samfelld myndaröð er af höfuðborgarsvæðinu í tímaflakkinu á map.is.
Loftmyndir
bjóða upp á mynd-
rænt tímaflakk á
vefnum map.is
Reykjavíkurhöfn Miklar breytingar urðu við Gömlu höfnina frá 1996 til
2018. Stórar skemmur voru rifnar og Harpa reis við Austurhöfnina.
Bakkafjara Ekkert bólaði á Land-
eyjahöfn árið 2000.