Bændablaðið - 21.07.2016, Page 43

Bændablaðið - 21.07.2016, Page 43
43Bændablaðið | Fimmtudagur 21. júlí 2016 Tölum af virðingu um landbúnaðinn og bændur Mér fellur illa umræðan nú um landbúnaðinn okkar. Umræða sem nú spinnst útfrá fréttum um meint brot MS á samkeppnislögum. Ég ætla hér ekki að fjalla um þessi meintu brot MS, því ég tel að það sé rétt að við fáum fyrst að vita hvort einhver hafi eitthvað brotið af sér. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur áður fellt úr gildi ákvörðun samkeppniseftirlitsins, sem nú tekur nákvæmlega sama málið upp aftur. Ég ætla hér ekki heldur að ræða fyrstu tilsvör forsvarsmanna MS, sem mér þykja þó afar vanhugsuð og óheppileg. Það sem mig langar að ræða er mikilvægi landbúnaðarins fyrir okkur neytendur, fólkið í landinu, og hvers vegna við eigum að fylkja okkur saman og standa vörð um þessa atvinnugrein. Landbúnaðurinn og innlenda matvælaframleiðslan eru okkur svo gríðarlega mikilvæg. Þessi grein er líka stunduð af strangheiðarlegu fólki, bændum landsins, og því margt afar vanhugsað og ósanngjarnt sem maður les nú á samfélagsmiðlum. Við sem þjóð eigum að sjálfsögðu eins og allar aðrar þjóðir að hafa í forgang að tryggja okkar innlendu matvælaframleiðslu. Tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og um leið að hafa stjórn á matvælaöryggi. Þess utan er landbúnaðurinn forsenda byggðar á mjög stórum svæðum landsins. Landbúnaðarvörurnar okkar eru líka hollari og af meiri gæðum en gengur og gerist víðast hvar annars staðar. Landbúnaðurinn kemur einnig víða við í samfélaginu okkar. Þannig er hann t.d. ein af grunnforsendum þess að við getum stundað ferðamennsku með þeim hætti sem nú er gert. Matvælaverð með því lægsta sem finnst í okkar vestræna heimi Íslensk frameidd matvæli eru ekki einusinni dýr. Matvælaverð á Íslandi er með því lægsta sem finnst í okkar vestræna heimi þegar verðlag er skoðað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks. Og ef við skoðum það af skynsemi þá liggur þar einmitt hundurinn grafinn. Við getum ekki leyft okkur að hlaupa til og flytja inn vörur frá öðrum löndum þótt þær séu einhvers staðar ódýrari þá og þá stundina. Matvörur sem eru undirverðlagðar eða stórlega niðurgreiddar í því landi á þeim tíma. Matvörur sem framleiddar eru af fólki sem fær bara brot af þeim launum sem Íslendingar fá fyrir að vinna slíka vinnu. Ef við hlaupum eftir slíku þá lifir engin framleiðsla hér til lengdar og er löngu komin á hausinn þegar við svo virkilega þurfum á henni að halda. Svona hentistefna sæmir ekki siðmenntaðri þjóð. Hvað gengur versluninni til? Matvöruverslunin í landinu er sá aðili sem mest elur á þessari skoðun, þ. e. að lækka megi matarverð hér með innflutningi. Sú er bara alls ekki raunin og eru margar ástæður fyrir því. Versluninni gengur það eitt til að ná stjórn á þessum vöruflokkum þannig að hún sé í stöðu til að ráða álagningunni og geta aukið sína afkomu. Ef það sem forsvarsmenn verslunar segja væri satt þá ætti vöruverð hér á fötum, skóm og ýmsum öðrum varningi að vera miklu lægra en það er í dag. Það hefur nefnilega aldrei verið sett nein hagræðingarkrafa á verslunina eða opinber verðlagning á innfluttar vörur. Stuðningur við neytendur Stuðningur við íslenskan landbúnað er stuðningur við neytendur. Þeir sem þekkja til vita að tilkoma stuðnings við landbúnaðinn er í raun stuðningur við neytendur. Lækkað verð á nauðsynjavörum sem komið var á til að bæta hag þeirra tekjulægri. Þeir sem það vilja vita, vita líka að landbúnaðurinn skilar samfélaginu til baka margfaldri þeirri upphæð sem í dag rennur til landbúnaðarins í formi beingreiðslna. Hagkvæmari mjólkurvinnsla og lægra verð til neytenda Það er heldur ekki að ástæðulausu að búvörulög voru sett, lög sem heimila mjólkurvinnslufyrirtækjunum með verkaskiptingu og samvinnu, að vinna að hagsmunum bænda og neytenda. Ástæðan er afar einföld, með þessu móti má ná fram mun hagkvæmari mjólkurvinnslu og lægra verði til neytenda á hollum gæðavörum landbúnaðarins. Þessu hafa líka fylgt miklar kvaðir fyrir bændur þar sem greinin hefur verið undir opinberri verðlagningu allan þann tíma. Gegnum þá verðlagningu hefur verið tryggt mikið aðhald á greinina og stórar hagræðingarkröfur verið settar fram sem skilað hafa neytendum og bændum mjög miklu. Leggjumst á sveif með bændum nú og tökum upplýsta umræðu um landbúnaðinn, gildi hans fyrir samfélagið og neytendur áður en við köstum okkur á þennan sleggjudómavagn sem tröllríður fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa Hólmgeir Karlsson. Barátta bænda í Landbroti fyrir náttúrulegu rennsli vatns í læki og lindir hefur staðið yfir í ára- tugi. Eftir að aur og vatn barst nær þjóðveginum í kringum miðja síð- ustu öld hafa ríkisstofnanir reist varnargarða sem hindra náttúru- legt flæði Skaftár út á Eldhraunið í þeim tilgangi að vernda veg og mosa. Með þessari aðgerð hefur rennsli Skaftár út á Eldhraun verið skert sem leitt hefur af sér takmarkað rennsli þess vatns sem kemur undan hrauninu. Í greininni „Hernaðinum gegn Eldhrauni verður að linna“ úr síð- asta tölublaði Bændablaðsins fer Sveinn Runólfsson mikinn og staðhæfir margt um vatnaveitingar bænda í Landbroti út á Eldhraunið undanfarna áratugi. Gerir hann það án þess að færa fram rök, benda á skýrslur eða ályktanir máli sínu til stuðnings, þó hann segi að gögnin séu til. Kemur það spánskt fyrir sjón- ir að heiðursmaður sem setið hefur í virðulegu embætti landgræðslustjóra til áratuga skuli láta slíkt frá sér fara í virtum fréttamiðli. Deilurnar um vatnsþurrð lindar- lækja í Landbroti ná lengra aftur en elstu menn muna. Grenlækur og Tungulækur eru eldri en Eldhraunið sjálft. Er sú staðreynd óumdeil- anleg, það sýna gömul kort og frásagnir skýrt. Skaftáin bar aur í Eldgjárhraunið og lækirnir runnu sinn veg. Skaftáreldahraunið rann yfir stórt landsvæði og enn runnu lækirnir. Þessir lækir sem lengst af hafa verð með merkari sjóbirtings- ám á landinu. Þá eru bleikjustofnar þessa vatnasvæðis ein af grunnstoð- um í íslensku bleikjueldi. Frá þessu landsvæði komu merkir menn í sögu rafvæðingar landsbyggðarinnar. Ber þar að nefna Bjarna í Hólmi, Sigfús á Geirlandi og Eirík í Svínadal. Bjarni í Hólmi átti fyrsta bíl sveitarinnar og fræg er sagan þegar hann raðaði honum saman part fyrir part niður við Skaftárós og ók honum heim að Hólmi. Þetta voru öflugir menn sem voru kappsamir og bráðgreindir. Þeir lærðu að nýta sér kosti og gæði íslenskrar náttúru þ.m.t. lindarlæki til virkjana til að færa bæjum í samfé- laginu bæði birtu og yl. Lindarlæki sem þeir vissu að voru með tryggu vatnsrennsli sem hélst óbreytt allt þar til opinberir aðilar fóru að hefta nátt- úrulegt flæði Skaftár út á Eldhraunið. Það er því með öllu óskiljanlegt hvað Sveini gengur til með að ýja að því að þeir hafi staðið að virkjanafram- kvæmdum við þurra árfarvegi í sinni eigin sveit. Sveinn ber bændur í Landbroti þungum sökum um ólöglegt athæfi. Að þeir hafi farið inn í annarra manna land og breytt stefnu kvísla og ála til að eiga vatn á rafstöðvar sem þeir reistu við þurra læki. Sú gamla tugga sem hann rifjar upp: „Með lögum skal land byggja og ólögum eyða“ er góð og sönn. Við lifum í réttarríki og ætti endilega að kæra þessar „ólöglegu“ aðgerðir sem hann segir bændur hafa staðið í. Sveini tekst þó að opinbera að málaferlin eru á hendur stjórnsýslunni en ekki bændum og hafa aldrei verið. Þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið af eða skv. beiðni landeigenda, hafa alla tíð verið mótvægisaðgerðir við þeim vatnaveitingum sem ríkisstofnanir hafa staðið fyrir án mats á áhrifum þeirra og án samráðs við landeigendur sem sátu síðan eftir með skert vatnsrennsli. Engar rannsóknir sýna tengingu vatnsmagns Árkvísla við lindarlækina? Sveinn segir engar rannsóknir sýna tengingu vatnsmagns í Árkvíslum við lindarlækina. Staðreyndir sýna aftur á móti að fyrirstöðugarðar sem hefta vatn í Árkvíslar hafa veruleg áhrif á vatnsmagn lindarlækjanna í Landbroti. Fyrirstöðugarðarnir sem byggðir voru 1992 drógu fljótlega úr vatnsmagni lindarlækjanna, að Grenlæk meðtöldum, og fór svo að stórir kaflar þeirra stóðu á þurru árið 1998. Samkvæmt greinargerð Orkustofnunar frá 1997 veitir títt- nefndur garður í Árkvíslum 12 til 15 m3/s (u.þ.b 3 Elliðaár) frá hrauninu og í Skaftá aftur og rennur síðan framhjá Kirkjubæjarklaustri. Lækirnir voru þurrari en aurarnir í Eldhrauni sem birtast í martröðum landgræðslumanna. Það var ekki fyrr en þessi stífla, sem kallaður er flóð- varnargarður, var rofinn að lækirnir runnu á ný. Nú veit ég ekki hvort menn efist um að vatnið úr baðkarinu renni um niðurfallið þegar tappinn er tekinn. Ef svo er, skil ég að þessi tilraun vefjist fyrir þeim. Í greinargerð Orkustofnunar frá 1997 segir orðrétt um garðinn við Brest. „Árið 1992 var lokað fyrir þessa veitu að mestu, þar sem sumum þóttu rökin fyrir tilvist hennar og vatnsmagnið orka tvímælis. Greina má breytingar af völdum þeirra aðgerða á rennslissíritum. Eftir að hætt var að beina ánni út á lekasvæði hefur meðalrennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur, sem var lengst af 35 til 38 m3/s aukist í 50 m3/s síðustu fjögur ár. Þetta þýðir að það hefur alltaf lekið mikið vatn út í hraunið, sennilega svipað og rann út um Brest.“ Aurburður til baga í lækjum? Rök þeirra sem vilja hefta eða takmarka stórlega það vatn sem fellur úr Skaftá út á hraunið um Árkvíslar eru m.a. að jökulvatnið í Skaftá muni á endanum ná til lindarlækjanna sem koma undan hrauninu og rústa lífríkinu í þeim. Það vita þeir sem kunnugir eru sjóbirtingnum í Skaftárhreppi að hann gerist vart stærri en í Kúðafljóti sem er jökulvatn og að sjóbirtingsstofninn hrundi í Eldvatninu eftir að „jökullinn“ var tekinn af því. Á Suðurlandi eru stórar jökulár, Ölfusá og Þjórsá. Í þeim eru einna stærstu náttúrulegu laxastofnar landsins. Rétt austar eru lindárnar Eystri- og Ytri-Rangá, í þeim er lítið um náttúrulegan laxasporð og er þeim haldið uppi með seiðaslepp- ingum. Þvert á móti hefur það vatn sem kemur ofan af Eldhrauni að sumri alltaf verið ríkt af snefilefnum, haldið uppi hitastigi Grenlækjar og Tungulækjar og skapað þá einstöku flóru og fánu sem í þeim er. Að taka „jökulinn“ af þessum lækjum er og verður glæpur gegn lífríki þeirra. Stíflugerð opinberra aðila frá 1992 hefur orðið til þess að bleikjustofn- inn er nánast útdauður. Urriðaveiði hefur dregist saman um tæp 90%. Það ástand sem nú er upp komið með þurrum árfarvegum og þá einkum hrygningarstöðvum á löngum köfl- um hefur að auki ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríkið. Hvers eiga komandi kynslóðir að gjalda, Sveinn minn? Ábyrgð bænda Landeigendum ber siðferðisleg skylda til að standa vörð um þá náttúru sem er innan eignar þeirra. Það er ótækt að þeir þurfi að standa í eilífðar stappi við stjórnsýslu um að vatni skuli ekki veitt frá þeirra landi. Það er hneisa að fyrrverandi stórlaxar í náttúruvernd skuli meta gamburmosa ofar auðugum vistkerfum. Mosa sem bændur eyða ekki, heldur náttúrulegt rennsli jökulvatns. Bændur eru ekki að leysa einn umhverfisvanda með því að bæta á annan. Því er bersýnilega öfugt farið. Það er leiðinlegt að sjá hvernig fyrrverandi landgræðslustjóra tekst að afskræma niðurstöður greinar- gerða og sögu þessa máls og með því ómerka ritaðar heimildir fræði- manna. Vona ég að honum sjálfum farnist sú gæfa að hans óeigingjarna starf að hinum ýmsu málum, sem snerta þjóðina og ekki síst lands- byggðina alla, verði virt um ókomna tíð. Mál er svo sannarlega að linni. Steinn Orri Erlendsson, verkfræðinemi, Seglbúðum. Vísindaskáldskapur Sveins Runólfssonar Lesendabás Steinn Orri Erlendsson. Eldhraun í Vestur-Skaftafellssýslu. Mynd / TB

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.