Bændablaðið - 24.05.2017, Blaðsíða 46

Bændablaðið - 24.05.2017, Blaðsíða 46
46 Bændablaðið | Miðvikudagur 24. maí 2017 SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA Umfangsmikil skógrækt er stunduð í heiminum í því augnamiði að vernda vatnsauðlindir. Skógivaxin vatnasvið og votlendissvæði eru uppspretta þriggja fjórðu alls ferskvatns á jörðinni. En hvað kemur það Íslendingum við? Ísland er vatns- og vindsorfið. Eldfjallajarðvegurinn er rokgjarn og ef gróðurþekja rofnar eiga roföflin vatn og vindur létt með að skola og feykja jarðveginum á haf út. Sú er örlagasaga Íslands frá landnámi. Meðan birkiskógurinn þakti að minnsta kosti fjórðung landsins og líklega talsvert meira var jarðvegsauðlindin varin. Í öskugosum hélt birkiskógurinn velli því yfirleitt var öskufallið ekki svo mikið að birkið kafnaði þótt lággróðurinn færi illa. Landið náði sér fljótt á ný og jarðvegurinn hélst á sínum stað. Birkiskógurinn er harðger og stóð keikur þótt harðindatímabil geisuðu í lengri eða skemmri tíma. Þegar skógurinn hvarf voru örlög jarðvegsauðlindarinnar ráðin. Stór hluti hennar er nú glataður. Ekki er þó öll von úti því snúa má vörn í sókn. Meiri skógur, meiri veiði En hvað kemur skógur vatni við að öðru leyti og hvaða vernd felst í því fyrir vatnasvið að rækta skóg? Jú, þegar vatn rennur óhindrað til sjávar grípur það með sér mikilvæg næringar- og jarðvegsefni. Heilbrigð skógarþekja hægir mjög á þessu rennsli vatnsins og þar með efnanna. Gróðurinn dregur í sig vatnið og nýtir til starfsemi sinnar. Sumt gufar upp í stað þess að renna áfram. Gróðurmagn er meira í skógi og rætur ná dýpra en þar sem aðeins vex lággróður og því eru þessi áhrif gróðurlendis á vatnsbúskapinn mest ef gróðurlendið er skógur. Rannsóknir hérlendis sem erlendis hafa kennt okkur að þar sem skógar vaxa við læki og vötn dregur úr streymi frumefnanna köfnunarefnis og fosfórs út í vatnið. Þetta kom meðal annars skýrt fram í rannsóknarverkefninu Skógvatni sem unnið var hér á landi. Einnig kom fram í rannsókninni að þrettánfalt meiri nýmyndun lífræns efnis væri á skógarsvæðum en skóglausum svæðum. Tuttugu sinnum meira lífrænt efni barst út í skógarlæki sem runnu um lerkiskóg en læki sem runnu um skóglaust mólendi. Það þýðir að lífríkið hefur úr mun meiri næringu að spila þar sem skógurinn er og næringin streymir ekki ónotuð til sjávar. Þessi kerfi náttúrunnar gagnast ekki einungis trjánum sjálfum. Skógur er vistkerfi þar sem saman spila örverur, sveppir og ýmis smádýr ofan og neðan moldar, fuglar, spendýr og samfélag jurta. Örverur og smádýr nærast á efnunum sem myndast í skóginum og því meira sem þessum smáu lífverum fjölgar því meira hafa stærri dýr eins og fiskar og fuglar að éta. Skógur við ár og vötn eflir því lífríkið og eykur fiskgengd. Vilji Íslendingar auka veiði í ám og vötnum er skynsamlegt að rækta þar skóga öfugt við það sem oft er haldið fram. Vafasamt er að banna skógrækt nærri ár- og vatnsbökkum í skipulagi sveitarfélaga. Skógur eflir kolefnisbindingu í sjó Önnur rannsókn sem gerð var í Skorradal sýnir hvernig skógur losar efni úr bergi á landi sem nýtast lífverum í sjó. Hverjum hefði dottið í hug að skógar sæju skeldýrum í sjó fyrir frumefninu kalsíni (Ca)? Margfalt meira losnar af því efni í skógi en á skóglausu landi og hluti þess berst til sjávar. Efnið binst kolefni og myndar kalsínkarbónat. Þetta kolefni getur verið upprunnið í sprengihreyflum eða kolaorkuverum okkar mannanna og því er þarna ein af fjölmörgum aðferðum náttúrunnar til að binda kolefni. Óbeint getum við stuðlað að slíkri bindingu með aukinni skógrækt. Svona eru undur náttúrunnar mikil. Lausnarorðið í allri náttúruvernd er hringrásir. Rofni hringrásir náttúrunnar hnignar henni. Saga íslenskrar náttúru er saga rofinna hringrása. Verkefnið fram undan er að loka rofnum hringrásum og efla þær. Landið þarf skóg Náttúra Íslands þarfnast hjálpar okkar við að klæðast á ný heilbrigðum skógi. Til að styrkja byggð í landinu og efla landið til matvælaframleiðslu er nauðsynlegt að rækta nytjaskóga með gjöfulum tegundum í sveitum landsins. Stuðla ber að sem mestri útbreiðslu birkis með því að gróðursetja það í bletti þaðan sem það getur breiðst út af sjálfu sér. Horfur eru á að birki geti vaxið um mestallt hálendi Íslands þegar líður á öldina. Væri hálendið vaxið birkiskógi drægi úr því hitauppstreymi sem nú verður þegar sumarsólin skín á svarta sandana. Þar með yrði sjaldnar hafgola í byggð. Bindum kolefni með skógrækt, eflum þar með sveitir landsins, búum til atvinnutækifæri og verðmæti, veitum búpeningi skjól og jafnvel fóður með skóginum, skýlum öðru ræktarlandi, bætum veðurfarið, aukum líf í ám og vötnum og stuðlum að bjartari framtíð bæði Íslands og alls heimsins með því að gera okkar til að binda koltvísýring og vinna gegn eyðingu jarðvegs. Skógur gefur, hvernig sem á það er litið. Pétur Halldórsson kynningarstjóri Skógræktarinnar Tilvísanir: Stefánsdóttir, Helena Marta o.fl. 2010. Áhrif gróðurs á vatnasviðum á magn lífræns efnis sem berst út í læki Rit Fræðaþings landbúnaðarins, 7, 182-191. Moulton KL o.fl. 2000. Solute flux and mineral mass balance approaches to the quantification of plant effects on silicate weathering. Am. J. Sci. 300, 539-570.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.