Bændablaðið - 02.11.2017, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 02.11.2017, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2017 Stjórnvöld ásamt bændum þurfa að móta sér nýja langtímastefnu sem tekur mið af hagsmunum neytenda, lýðheilsu, kolefnisfótspori og byggðaþróun í landinu. Íslenskur landbúnaður er agnarsmár í samanburði við evrópskan og skilyrði til framleiðslu mun lakari út frá hnattrænni stöðu. Það er því mjög bagalegt að samningsaðilar við nýgerða búvörusamninga hafi ekki haft tollverndina sem hluta samningsins þar sem hún er okkur mikils virði. Vissulega er Ísland aðili að alþjóðlegum stofnunum eins og t.d. Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og verður að fylgja þeim samningum sem við erum þar aðili að. Síðustu 10 ár hafa íslensk stjórnvöld hins vegar haft frumkvæði að því að gera samninga við ESB um tollalækkanir (40% árið 2007) og samkomulag um gagnkvæma tollkvóta bæði árin 2007 og 2015 (sá síðari með gildistöku vorið 2018). Það er eðlilegt að gerð sé hagræðingarkrafa á innlenda framleiðslu sem og samkeppni með hófstilltum innflutningi landbúnaðarvara. Samkeppni er af hinu góða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að því sögðu verður að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð stjórnvalda undanfarin misseri varðandi tollamálin. Það verður ekki bæði sleppt og haldið Á sama tíma og stjórnvöld stuðla að auknum innflutningi landbúnaðarvara er verið að gera auknar kröfur um bættan aðbúnað í íslenskri svínarækt umfram það sem kollegar okkar þurfa að uppfylla í Evrópu. Eftir að íslensk svínarækt verður búin að innleiða þessar breytingar stöndum við jafnfætis Norðmönnum í þessum efnum sem eru öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Á sama tíma og við fögnum auknum kröfum og viljum hafa aðbúnað okkar dýra eins og best verður á kosið gengur hins vegar ekki að hróflað sé við tollverndinni. Samkeppnin verður ekki réttlát. Taflan efst á síðunni sýnir nokkur dæmi um mismun (og er ekki tæmandi) í kröfum á milli Íslands og ESB þegar kemur að svínarækt. Það hlýtur að teljast eðlilegt að það séu gerðar sömu kröfur varðandi aðbúnað, sýklalyfjanotkun og fleira þegar kemur að innfluttu kjöti. Íslenskir svínabændur upplifa sig í sjálfheldu þar sem kröfur um aðbúnað eru auknar á sama tíma og opnað er fyrir aukinn innflutning á kjöti sem uppfyllir ekki sömu kröfur. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Skortur á fyrirsjáanleika Í sumar var undirritaður boðaður á fund í landbúnaðarráðuneytinu þar sem kynntar voru hugmyndir ráðherra um breytt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum. Í stuttu máli má segja að til hafi staðið að hætta með núverandi útboðsfyrirkomulag og afhenda tollkvóta með lágmarks kostnaði til innflytjenda í þeirri von að ágóðanum yrði skilað beint til neytenda. Þetta er neytendavæn hugsun, en engin tilraun er gerð til að meta hvort og hvaða áhrif þetta hafi á innlenda framleiðslu. Ekki frekar en þegar tollasamningarnir við ESB hafa verið gerðir. Á sama tíma eru svo rekin tvö aðskilin mál fyrir dómstólum þar sem reynir á hvort bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti haldi. Við sem störfum í landbúnaði vitum hvað allir framleiðsluferlar eru langir og því er mikilvægt að meiri stöðugleiki sé í tollverndinni af hálfu stjórnvalda heldur en verið hefur. Taka verður tillit til mismunandi stærðar markaða Meðfylgjandi tafla sýnir vel hversu agnarsmár íslenskur kjötmarkaður er í samanburði við lönd ESB. Hér má sjá að hvort sem horft er til íbúafjölda eða kjötframleiðslu, þá er Ísland einungis 0,06% af EU-28 löndunum. Er þá sanngjarnt að semja tonn á móti tonni í tollasamningum? Það verður að endurskilgreina stærð kjötmarkaðarins Nýverið fjallaði Viðskiptaráð um breytingar sem eru að verða á íslenskum smásölumarkaði og sagði m.a að „Koma alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Costco og H&M til landsins og stóraukin verslun Íslendinga á vörum og þjónustu yfir netið bera þess merki að samkeppnisyfirvöld hér á landi þurfi að aðlaga nálgun sína að breyttu umhverfi og tækni. Íslensk fyrirtæki, sem eru agnarsmá í alþjóðlegum samanburði, eru í beinni samkeppni við fyrirtæki sem eru margfalt stærri ...“ Svipaða nálgun má finna í umsögn Félags atvinnurekenda frá því í maí á þessu ári þar sem ríkið taldi sig geta sparað háar fjárhæðir með því að bjóða sameiginlega út lyfjakaup með öðrum Norðurlandaþjóðum. Í umsögn FA við því segir m.a. „Taki íslenska ríkið þátt í útboðum á erlendum mörkuðum eru ýmis atriði sem þarf að líta til. Velta þarf upp ýmsum spurningum, m.a. hvort íslensk fyrirtæki yrðu með þessu í raun útilokuð frá lyfjaútboðum á vegum íslenska ríkisins. Sú staða gæti auðveldlega komið upp enda eru íslensk fyrirtæki alla jafnan smærri en erlend fyrirtæki.“ Við svínabændur höfum skilning á þessum sjónarmiðum VÍ og FA en viljum þó vekja athygli á að fyrirtæki einsog Costco og H&M starfa þó eftir sömu lögum og reglum og önnur fyrirtæki í landinu. Það sama gildir ekki um kollega okkar erlendis. Nú er svo komið að innflutt svínakjöt er orðið um 30% af öllu kjöti seldu innanlands (innflutt kjöt umreiknað yfir í kjötskrokka tímabilið jan.–júní 2017). Gleymum því ekki að að einungis um 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins er seld frá einu ríki til annars. Þrátt fyrir þessa gagnrýni er líka ýmislegt jákvætt að gerast í okkar umhverfi. Með auknum fjölda ferðamanna upplifa svínabændur sífellt aukna eftirspurn sem við viljum gjarnan sinna. Íslensk landbúnaðarframleiðsla er með yfirburði hvað varðar gott heilbrigðisástand bústofna, heilnæmi afurða, framleiðslu í nærumhverfi (takmörkuð kolefnisspor) ásamt lágri tíðni matarsýkinga. Gagnrýni okkar má ekki skilja sem svo að við leggjumst gegn öllum breytingum á tollaumhverfinu heldur köllum við eftir skýrri stefnu og vandvirkum vinnubrögðum. Það er forsenda þess að svínarækt og íslenskur landbúnaður í heild sinni geti haldið áfram að dafna og vaxa neytendum til hagsbóta. Ingvi Stefánsson, formaður Svínaræktarfélags Íslands Vegna mistaka vantaði seinni hlutann af þessari grein í síðasta blaði og er hún því endurbirt hér í heild sinni. Beðist er velvirðingar á þessu. /HKr. Móta þarf langtímastefnu í landbúnaði: Taki mið af hagsmunum neytenda, lýðheilsu, kolefnisfótspori og byggðaþróun í landinu Á FAGLEGUM NÓTUM Dæmi um mismun milli Íslands og ESB í kröfum um svínarækt Ísland ESB lönd sem flytja inn kjöt til Íslands Halaklippingar Geldingar framkvæmdar af Gotstíur Gólfefni eldisgrísa Notkun sýklalyfja Aðgangur að erfðaefni EU-28 Íslandi Nautakjöt Svínakjöt Lambakjöt Alifuglakjöt Alls 0,06% EU 28 mannfjöldi 510.000.000 Íslendingar 330.000 Íbúafjöldi á Íslandi samanborið við EU-28 0,06% Ísland, hlutfall af EU-28 Kjötframleiðsla eftir kjöttegundum - í þúsundum tonna 2015 Ingvi Stefánsson. Munum í argaþrasi daganna að kíkja eftir hvert öðru „Fjárhagsáhyggjur eru slæmar áhyggjur og kvíði er djöfulleg tilfinning,“ segir Þórhildur Þorsteinsdóttir, bóndi í Brekku, í færslu í hópnum „Sauðfjárbændur“ á Facebook. Þar hefur í kjölfarið myndast umræða um sálrænar hliðar þeirra erfiðleika sem nú blasa við sauðfjár bændum. „Bændur eru vanir því að láta móður náttúru ekki beygja sig en fjárhagsáhyggjur eru annars eðlis, að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar er líðan sem enginn vill þurfa að glíma við og hjá hraustasta fólki getur tekið virkilega á. Munum í argaþrasi daganna að kíkja eftir hvert öðru, klapp á bakið getur gert kraftaverk. Þunglyndi er dauðans alvara!“ segir Þórhildur. Meðalbúið að tapa 1,5 milljónum króna Hún segir að nú þegar sauð- fjárbændur sjái fram á gífurlega afurðaverðslækkun og tekjumissi sé staðan mjög alvarleg. „Miðað við þær verðskrár sem hafa komið fram þá má reikna með að meðalbúið sé að tapa 1,5 milljónum króna. Þær krónur eru ekki bara sóttar í hinn vasann. Sumir bændur geta tekið að sér aukavinnu en sá möguleiki er ekki fyrir hendi alls staðar. Sumt er meira tabú en annað. Eitt af því sem er ennþá svolítið tabú er umræðan um þunglyndi og kvíða, en þá umræðu má ekki forðast. Það er mikilvægt að ræða þessi mál. Með umræðu og fræðslu má koma í veg fyrir skilningsleysi og fordóma.“ Tölum saman – það stendur enginn einn Bjarni Guðmundsson, fyrrverandi prófessor á Hvanneyri, tekur undir með Þórhildi og segir að brýnt sé að horfa á fleira en hinn fjárhagslega þátt, nógu alvarlegur sem hann sé. Bjarni bendir á að sinna þurfi hinni félagslegu hlið og þar hafi samtök bænda hlutverki að gegna. „ … réttir og réttarstemning, hrútasýningar, hrútadagar o.fl. verður allt til léttis, en alvarlegri hliðum þarf fagfólk að sinna – áður en of seint verður. Fátt er þó betra en að tala saman, helst augliti til auglitis,“ segir Bjarni. Matthildur Hjálmarsdóttir bóndi segir að samstaðan sé mikilvæg þegar erfiðleikar steðji að og fólk verði að hlúa að sjálfu sér og nágrönnum sínum. Ástþór Örn Árnason bóndi hvetur bændur til dáða í athugasemd undir pistli Þórhildar. „Klöppum á bak hvert annars og munum að við erum öll í þessari stöðu saman, það stendur enginn einn.“ Mikilvægt að leita aðstoðar og þiggja hjálp Bændablaðið hefur í gegnum tíðina fjallað nokkrum sinnum um þunglyndi og kvíða á meðal bænda. Í 15. tölublaði árið 2008 var m.a. rætt við norskan sauðfjárbónda sem glímdi við þunglyndi. Hann þakkaði nágrönnum sínum fyrir að koma sér til hjálpar og á réttan kjöl. Í sama blaði var vitnað í rannsókn sem Vinnueftirlitið gerði á heilsufari bænda. Þar kom m.a. fram að algengi geðraskana hjá bændum væri svipað og annarra stétta en ákveðin merki væru um að bændur leituðu síður meðferðar. Í bæklingnum „Öryggi og vinnuvernd í landbúnaði“, sem dreift var á öll lögbýli á síðasta ári, er vikið að kvíða og vanlíðan á blaðsíðu 26. Þar segir m.a. að ýmsar leiðir séu færar fyrir fólk sem finnur fyrir geðröskunum. „Möguleikarnir að læknast af þunglyndi eru góðir og meðferð, svo sem lyfja- og samtalsmeðferð, styttir sjúkdómstímabil og getur dregið úr einkennum,“ segir í bæklingnum. Á vefnum doktor.is er að finna efni um þunglyndi og kvíða og möguleg viðbrögð.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.