Bændablaðið - 22.02.2018, Side 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 22. febrúar 201850
Skipulag er alltaf í þróun, eða
þannig var það öldina sem leið.
Vítt um landið voru lagðir vegir
og byggðar upp góðar hafnir.
Hafnarmannvirki leiddu víða
til þess að útgerð og fiskverkun
jókst. Aukin umsvif leiddu til
gatnagerðar, húsbygginga og alls
annars sem staðarins samfélag
þarfnast.
Það er skylda okkar allra að okkar
skipulag sé svo gott að það sé það
besta sem völ er á, ekki bara fyrir
núlifandi fólk heldur einnig fyrir
fólk sem landið byggir næstu 200 ár.
Skipulag nútímans má ekki leiða til
þess að nýting lands og sjávar verði
lakari eftir 100 ár en hún er í dag.
Það er skylda okkar allra að
reyna að skila landinu og sjónum
til næstu kynslóðar ekki lakara en
það var þegar við tókum við því.
Á liðinni öld voru sett fram viðmið
um að gott ræktunarland sem náði 10
hektara stærð gat verið grundvöllur
sjálfstæðs býlis. Seinna fóru slík
mörk í 20 hektara.
Á myndinni sést land sem var
skipulagt sem ræktunarland 1953–
1957 en var annars fram að því
úthagi. Myndin er tekin árið 2009
af nánasta umhverfi bújarðarinnar
Fremri-Gufudals.
Uppbygging staðarins hófst með
byggingu útihúsa og íbúðarhúss
um 1960. Árið 2010 var byggt
íbúðarhúsið Kaplaskjól og árið 2015
bættist aftur við íbúðarhús er hlaut
nafnið Bæjarlækur.
Í þessum húsum eru nú búsettar
3 fjölskyldur, 11–12 manns auk
annarra sem oft dvelja lengi. Spöl
utar í dalnum er bærinn Gufudalur
og eru þar búsett tvö fullorðin og
4 eða 5 börn. Í héraðslýsingum í
Árbók Ferðafélags Íslands falla orð
á þá leið að Gufudalurinn sé líkt
og smækkuð mynd af norðlensku
héraði. Af þessum bæjum fer fólk
daglega að heiman og til vinnu
og börn fara daglega í grunnskóla
eða leikskóla og koma aftur heim
síðdegis.
Myndin er í raun dæmi um
nýtingu lands sem nútímanum gæti
fundist lítilfjörlegt.
Bílfær vegur var lagður um
Gufudalssveitina á árunum
1949–1955. Það var raunverulega
tímamótaviðburður þegar ég, árið
1952, sá þrjátíu til fjörutíu bíla í lest
koma inn Hofsstaðahlíðina og voru
þar komnir Vesturbarðstrendingar
á leið til hátíðar verslunarmanna í
Bjarkalundi. Veginn var að vísu ekki
búið að tengja en þessir bílstjórar
sættu sjávarföllum og óku Vaðalinn
frá Kletti og út undir Múlaklifin.
Skömmu síðar náði fullgerður vegur
endum saman frá Reykjavík til
Patreksfjarðar. Meginhluta vegarins
um Gufudalssveit mun Jón Víðis
hafa teiknað, allavega Djúpadal
og Gufudal. Jón lagði vissulega
hlykkjóttan veg en jafnframt með
mikilli umhyggju fyrir náttúrunni.
Ræsi var sett í hvern lækjarfarveg,
tilfærsla gat bitnað á slægjunni eða
silungunum og eða landið grafist.
Miklar framfarir fylgdu veginum,
bílar voru keyptir, nýir og gamlir.
Mikið var byggt, nú þurfti ekki
lengur að reyða þakjárnið og timbrið
langar leiðir á hestum.
Hvar er framtíðin?
Framtíðin er á hverjum tíma
ókomin og ókunn. Það er þekkt að
líf fólks veltur víða á næringu og
skjóli. Og það er alveg ljóst að þar
sem er vatn og góð ræktunarjörð,
þar eru góð lífsskilyrði. Að ekki sé
nú talað um sjófang og fjörugróður.
Svæði Breiðafjarðar hafa um aldir
verið fólki þægilegri en mörg önnur
héruð. Svæðinu ógnar ekki það sem
kalla má jarðvá.
Skálanes í Gufudalssveit er og
hefur lengi verið góð bújörð með
fjölbreytt og fallegt umhverfi.
Bújörðin í heild sinni býr í dag
yfir nokkrum staðalforsendum
sem gera land fýsilegt til búsetu.
Grunnforsendan er gróðurmold
og vatn. Að auki, veðursæld
og sólfar. Melanesið er hluti af
jörðinni Skálanes. Svæðið er stærra
og betra en það sem tekið var til
uppbyggingar á bújörðinni Fremri-
Gufudal fyrir um 60 árum.
Bújörðin Skálanes fer mjög illa
út úr áformum Vegagerðarinnar
um lagningu Vestfjarðavegar ef
veglínan, sem kölluð er Þ H um
Gufufjörð og Melanes, verður
valin. Landinu er vægðarlaust
rústað.
Allt er undir, flugvöllurinn,
túnin, ræktunarlandið og allgott
útivistar- og tómstundasvæði.
Hvar verður fólkið?
Vegagerðin birtir þá framtíðarsýn
í mati á umhverfisáhrifum að
eftirsókn eftir sumarbústaðalandi
á svæðinu muni aukast. Það er ekki
hægt að greina neina framtíðarsýn
á þróun byggðar í tillögum
Vegagerðarinnar þegar bornar
eru fram tillögur um veglínur. Á
Melanesinu er fórnað indælis landi
sem gæti borið bú líkt og lengi hafa
tímgast undir hlíðum Ingólfsfjalls í
Ölfusi. Á næstu 100 árum búumst
við við því að íbúar Íslands verði
1–2 miljónir manna. Við búumst
líka við því að allmargir þeirra
verði án atvinnu. Við höfum þá í 80
ár lagt mikla áherslu á að draga úr
akstri og umferð, því má búast við
að sótspor framleiðslu hafi aukið
vægi, jafnvel umfram vöruverð.
Tekjur ríkisins vaxa að líkindum
ekki í hlutfalli við fólksfjölda. Það
er óvarlegt að búast við því að
efnahagur fólksins verði betri en
nú á dögum.
Hver verður líftími sjávarfalla-
brúnna í Reykhólahreppi?
Það er kynnt að bráðlega
verði staðfest Aðalskipulag
Reykhólahrepps til ársins 2018. Það
má öllum vera ljóst að vegakerfið
sem nú verður skipulagt og byggt,
verður ekkert endurbætt næstu 100
ár. Ekkert nema brýnasta viðhald.
Kemur til mála að brýrnar yfir 5
firði í Reykhólahreppi verði eftir
100 ár allar orðnar ónýtar? Við
þurfum núna svör við því.
Að lokinni ákvörðun um val á
veglínum, samhliða staðfestingu
á aðalskipulagi Reykhólahrepps,
hefjast væntanlega erfiðir
samningar milli landeigenda og
Vegagerðarinnar.
Hvað er framkvæmdaleyfi?
Reykhólahreppur telur sig líklega
eiga að snara út framkvæmdaleyfi
vegna vegarins fljótlega eftir
ákvörðun um skipulag og
leiðarval. Er ekki vissara fyrir
Reykhólahrepp, ábyrgðarinnar
vegna, að setja fyrirvara? Enda sé
lokið samningum milli Vegagerðar
og landeigenda eða á annan hátt
hafi verið aflað réttinda til handa
Vegagerðinni til framkvæmdanna.
Einnig þarf hreppsnefnd að
gæta þess að það séu sérstakir
skilmálar af hálfu Vegagerðarinnar
varðandi framkvæmdina birtir í
matsskýrslu þá verði þeirra getið
í framkvæmdaleyfi. Nefna má
hafnaraðstöðu vegna skelræktar í
Djúpafirði og einnig fullyrðingar
um að unnt verði að sigla undir
brýrnar. Sé ekki settur fyrirvari
í framkvæmdaleyfið er hætt við
að sérstök ákvæði falli út við
framkvæmd verksins. Sjálfur hef
ég nokkra reynslu af slíku þegar
vegagerðin útlistaði ágætlega
hvernig æðarvarpi í Hrútey mætti
hlífa við ónæði af framkvæmdum
við Djúpveg og vinna þar ekki
á varptíma. Í framkvæmd varð
raunin sú að boranir, sprengingar
og annað hófst í eynni í byrjun maí
með hörmulegum afleiðingum fyrir
fuglana.
Ábyrgð og aðgæsla
Óskilyrt framkvæmdaleyfi er lítill
pappír sem gæti skapað mikla
ábyrgð.
Hreppsnefndin myndi með
ótímabæru framkvæmdaleyfi
skekkja samningsstöðu málsaðila,
öðrum til hagsbóta, hinum til
tjóns. Framkvæmdir við veginn
hafnar á öðrum endanum en hinn
endinn í óvissu, það gengur ekki.
Hvort sem varðar eignarnám eða
einhverja óvissu varðandi skipulag
eða framkvæmdina, þá verða
málsaðilar að eiga þess kost að
sanna málflutning sinn fyrir dómi.
– Veljið rétta leið til betri vegar.
Reynir Bergsveinsson.
LESENDABÁS
Það eru margir sem setja sér
göfug markmið í upphafi árs
og oftar en ekki á að taka
mataræðið rækilega í gegn.
Ekki eru allir sammála um
hvaða leið sé best til árangurs
og ýmsir matvælakúrar í
boði sem eiga að bæta heilsu
og minnka fituforða. Þó að
margir deili um kosti ýmissa
matvæla þá viðurkenna flestir
þá staðreynd að sælgæti er alls
ekki hollustuvara. Sælgæti er
snautt af næringarefnum og
trefjum en uppfullt af sykri.
Flestir vita að sykur er fitandi
í óhóflegu magni og getur að
auki valdið tannskemmdum. Ef
einstaklingur, sem eingöngu hefur
neytt sælgætis, hættir alveg og
skiptir yfir í grænmeti, þá hefur
það að sjálfsögðu jákvæð áhrif
á eitt og annað. En ímyndum
okkur að síðar kæmi í ljós að eitt
af gróðurhúsunum sem framleiddi
grænmetið hefði börn í vinnu langt
undir lögaldri og hefði þar að auki
enga skýra áætlun um hvað eigi
að gera við gamlar sprungnar
ljósaperur. Hvað væri til ráða?
Ég hef ekki svarið en ég
veit að lausnin er ekki að hætta
snarlega að borða grænmeti og
snúa sér aftur að sælgætinu.
Það er einfaldlega vegna þess
að þessi óvæntu álitamál með
grænmetisframleiðsluna gera
skaðsemi sælgætis ekkert minni.
Vissulega þarf að laga þessi atriði,
en óháð því er grænmetið alltaf
margfalt betri kostur en sælgætið.
Sama gildir í raun um sælgæti
og jarðefnaeldsneyti. Olía er
mengandi, heilsuspillandi,
loftslagsbreytandi, ósjálfbær og
friðarógnandi. Sælgætið er reyndar
heldur skárra, enda mengar það
lítið og skaðar einungis neytandann
sjálfan. Stríð hafa heldur ekki
brotist út vegna sælgætis en
takmarkað framboð, t.d. þegar
minnkar í Nóakroppsskálinni á
föstudagskvöldum, getur þó verið
friðarógnandi.
Ýmsir (en ekki nógu margir þó)
eru nú einmitt að reyna að hætta
jarðefniseldsneytisnotkun eða
draga verulega úr henni. Sumir
hætta alveg notkuninni með
kaupum á raf- eða metanbíl en
aðrir draga verulega úr neyslunni
með kaupum á tengiltvinnbíl
eða með því að hjóla meira.
Ótrúlega margir lýsa þó miklum
efasemdum um ágæti nýrrar
tækni og benda á ýmsa vankanta.
Barnaþrælkun í einni kóbaltnámu
og áhyggjur af eftirlífi rafhlaða
eru dæmi um eðlilegar áhyggjur
tengdar nýjum orkugjöfum. Sama
hlýtur þó að gilda um grænmeti
og rafbíla þ.e. að einstakir
hnökrar í framleiðslunni gera
skaðsemi af gamaldags bensín- og
dísilbrennslu ekkert skárri en áður.
Þó að ekki séu allar nýorku-
lausnir fullkomnar þegar kemur
að orkuskiptum í samgöngum,
þá er alveg ljóst að þær eru
miklu betri en núverandi
jarðefnaeldsneytisnotkun. Til
að ná skuldbindingum Íslands
í loftslagsmálum verðum
við hreinlega að snarminnka
olíunotkun í samgöngum á næstu
12 árum. Meira grænmeti – minni
olía, áfram Ísland!
Sigurður Ingi Friðleifsson
framkvæmdastjóri Orkuseturs
Sælgæti og jarðefnaeldsneyti
Hvað er skipulag?
Myndin er Fremri-Gufudalur eins og hann var árið 2009.