Bændablaðið - 12.04.2018, Page 28

Bændablaðið - 12.04.2018, Page 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. apríl 2018 Hafsteinn Hafliðason er mörgum garðeigendum og öðru áhugafólki um plöntur að góðu kunnur. Hann hefur á starfsferli sínum getið sér gott orð sem garðyrkjufræðingur og alþýðufræðari um ræktun plantna og umhirðu. Fyrir fáeinum árum skrifaði hann lipra og lærða pistla í Bændablaðið um plöntur og oft með áhugaverðu þjóðfræðilegu ívafi út frá þeim. Hann er að mestu sestur í helgan stein í Þingborg í Flóa og dundar sér þar við ýmsa dægradvöl; sýsl og tilraunir í eigin bakgarði, auk þess sem hann er nokkuð iðinn við að uppfræða alþýðuna á Facebook- síðunni Ræktaðu garðinn þinn. Garðyrkja engin afgangsstærð í uppvextinum „Ég er náttúrlega alinn upp við garðyrkju meira og minna,“ segir Hafsteinn um ræturnar að áhuga hans á plöntum. „Garðyrkja var engin afgangsstærð. Ég er fæddur á Ísafirði og alinn upp í Djúpinu, í Vigur, meðal annars hjá stjúpömmu minni, Björgu Björnsdóttur, sem var mikil ræktunarkona. Hún var á lífrænu línunni, vildi ekki nota tilbúinn áburð, en notaði kúamykjuna á rófurnar, sauðatað á kartöflurnar og hrossatað á rabarbarann – ef hrossin skildu eitthvað eftir í hesthúsunum. En þau voru nú oftast úti við. Hún var vel lesin og verseruð í fræðunum, enda var systir hennar, Guðrún Björnsdóttir, menntaður garðyrkjufræðingur. Svo varð pabbi auðvitað garðyrkjumaður frá Garðyrkju- skólanum, útskrifaður 1944. Hann var garðyrkjustjóri í Reykjavík í ein 30 ár. Ég var ekkert mikið að snuddast með með honum fyrr en ég var kominn yfir fermingu – enda tíðkuðust ekki þessar pabbahelgar þá.“ Almennilegt þjóðlíf þrífst bara í ræktuðu landi „Ég var næmur ungur piltur með áhuga á mannkyninu. Það þrífst ekkert almennilegt þjóðlíf nema í ræktuðu landi þannig að ég var fljótur að tengja þar á milli. Annars konar þjóðlíf er bara villimennska, eða hjarðmennska eins og hefur reyndar tíðkast hér á Íslandi alla tíð. Mér finnst miklu máli skipta að fólk stundi það að rækta gróður; hvort sem það er tré, gras eða matjurtir til dæmis. Það verður engin menning án ræktunar. Í okkar máli aðskiljum við reyndar ræktun og menningu, en í mörgum öðrum löndum er þetta bara eitt orð – kúltúr,“ segir Hafsteinn. Lærði að sinna herragarði í Svíþjóð Hafsteinn fór til Svíþjóðar til að læra garðyrkjufræðin. „Þar snerist námið um það að nemendurnir gætu sinnt herragarði í einu og öllu; hvort sem það var að skipuleggja garða, fella eða gróðursetja tré, fjölga trjám og sinna garðplöntum – hvort sem það voru skrautplöntur eða matjurtir. Svo þurfti maður að kunna allt um pottaplöntur og híbýlaprýði; geta gert blómaskreytingar og annað slíkt. Ég kom svo heim og kláraði sveinsprófið – en það voru reyndar engar löggildingar þá. Ég starfaði stutt við garðyrkjuna eftir prófið en fór að vinna í gestamóttöku á hóteli í fjögur ár. Ég fór svo aftur til Svíþjóðar og starfaði síðan mikið í svokölluðum garðmiðstöðvum, bæði úti í Svíþjóð en einnig hér heima, eins og í Blómavali.“ Miðlun á garðyrkjufróðleik Meðfram sölu mennskunni og ráðgjöfinni miðlaði Hafsteinn garðyrkjuefni í gegnum ýmsa fjölmiðla. „Þegar ég hef fjallað um garðyrkju þá reyni ég að gera það á skemmtilegan hátt líka – og þannig að ég hafi gaman af því – fyrir utan að gera það skilmerkilega. Markmiðið er þá að reyna að koma öðrum á bragðið, enda hef ég lengst af verið tengdur sölumennsku á garðplöntum og upplýsingamiðlun. Þetta helst í hendur. Þú getur varla selt vöruna nema kúnninn þekki hana að einhverju leyti. Í slíkum garð miðstöðvum þurfa alltaf að vera starfsmenn sem kunna á vörurnar, sem geta leiðbeint um það hvað henti á hverjum stað og hvernig eigi að hirða um plönturnar. En mér þótti þetta alltaf mjög áhugavert starf því að starf sölumannsins felst ekki síst í því að lesa viðskiptavininn – og það eru þessi mannlegu nánu samskipti sem eru mjög gefandi. Í raun er þetta líka mjög skapandi vinna og ég hef sótt í slíka vinnu líka á öðrum sviðum. Ég vann til að mynda að þáttagerð, bæði fyrir útvarp og sjónvarp, þar sem fjallað var um garðyrkju frá ýmsum hliðum. Þetta fjölmiðlabrölt byrjaði reyndar þannig að ég skrifaði pistla í Þjóðviljann, líklega í ein tvö ár. Þá bauðst mér að gera útvarpsþætti á Rás 2 sem ég vann við meira og minna í yfir tíu ár, samhliða garðyrkjuráðgjöf og sölu, örugglega til 1998. Í þeim voru meðal annars símatímar, þar sem fólki bauðst að hringja inn og viðra vandamál sín eða með fyrirspurnir til mín sem ég svaraði bara í beinni útsendingu. Þetta var auðvitað alveg nýtt en naut mikilla vinsælda. Svo var það 1988 að Sveinn Einarsson, þáverandi dagskrárstjóri á RÚV, bað mig um að gera sjónvarpsþætti um garðyrkju. Ég gerði það fyrst í ein tvö sumur ásamt tökumanninum snjalla, Baldri Hrafnkeli Jónssyni. Hann var með kvikmyndatökuvélina en ég var í umfjölluninni, reyndi að vera frekar minna í mynd en segja meira frá því sem bar fyrir augu – auk þess að tala við garðyrkjufólkið auðvitað. Svo hélt ég áfram með smáþætti á Stöð 2, lítil innslög sem voru kostuð. Blómaval stóð að þessari þáttagerð.“ Sýslar við pistlaskrif og garðyrkjuráðgjöf Hafsteinn fór svo út úr fjölmiðla- bransanum og gerðist umhverfisstjóri í Snæfellsbæ, sem þá var nýstofnað sveitarfélag. „Þaðan fór ég á Selfoss í svipað starf. Selfyssingar vildu reyndar ekki hafa mig lengi í þessu starfi og fundu út að það væri of dýrt að hafa sérstakan garðyrkjustjóra á fullum launum fyrir bæjarfélagið. Bærinn lagði stöðuna niður og nú sér áhaldahúsið um þetta. Það má segja að ég hafi síðan að mestu setið í helgum steini, en er þó að sýsla við eitt og annað og leika mér hér heima. Ég hef gaman af því að skrifa pistla ef ég er beðinn um það og ég hef gert dálítið af því – meðal annars fyrir Bændablaðið. Svo fylgist ég með garðyrkjuumræðu á vefnum – til dæmis á Facebook – og blanda mér þar í umræðuna og gef ráð. Ég er félagi í Facebook-síðunni Ræktaðu garðinn þinn þar sem fjölmargir skiptast á skoðunum um ýmis málefni og ég reyni að hjálpa til með ráðgjöf þar. Líka á síðunni Stofublóm inniblóm pottablóm. Á þessum síðum er töluverður hluti þjóðarinnar að leita sér aðstoðar, enda er þetta mjög sniðugur vettvangur fyrir skoðanaskipti og skilvirk leið til upplýsingaöflunar. Ef ég sé eitthvað í ummælum notenda sem þarf að athuga betur, þá gríp ég oft inn í og hef gaman af því að vera í sambandi við fólk. Oft er það þá fróðleikur sem ég er með á takteinum en stundum þarf ég að grúska eitthvað til að finna réttu svörin. Ég reyni að vanda mig við þetta. Maður fær nú svo sem ekkert mikil viðbrögð oftast nær, en það er gaman að sjá ef manni tekst að gleðja einhvern.“ Umræðan á Alþingi oft tómt rugl og þras „Oftast fæ ég fyrirspurnir um ástand pottaplantna þegar þær eru nær dauðar; annaðhvort með ofvökvun eða með of mikilli áburðargjöf. Það hefur líka gerst að fólk hefur samband sem hefur keyrt með pálmana sína í janúar frá Keflavík til Reykjavíkur á opnum bíl í frosti. Því miður er það nú þannig að náttúrufræðikennslu – hvort sem það er almenn líffræði eða umhverfisfræði – er illa sinnt í grunnskólakerfinu. Í kennaranámi er mikið verið að fókusera á kenningar og hverjir hafi komið með þær og af hvaða tilefni. Það er minna hugað að hinum praktísku hliðum lífsins. Með öðrum orðum þá er í íslensku skólakerfi meira verið að hugsa um fenginn, hvers maður aflar, en um það hvernig skynsamlegast sé að afla hans. Það er meira þrasað en gert – Hafsteinn Hafliðason garðyrkjufræðingur er sestur í helgan stein en sinnir enn garðyrkjuráðgjöf á spjallborðum Facebook-hópa: Þurfum að koma okkur upp hagkvæmri skógarauðlind Hafsteinn býr í Þingborg í Flóa og dundar sér þar við ýmsa dægradvöl; sýsl og tilraunir í eigin bakgarði. Myndir / smh Úrklippa úr umfjöllun Hafsteins um hlyni, kjörviði fínsmiðanna, sem var birt í Bændablaðinu 22. mars 2016. Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.