Bændablaðið - 12.04.2018, Page 42

Bændablaðið - 12.04.2018, Page 42
42 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. apríl 2018 Fyrirspurn á Alþingi til landbúnaðarráherra um lífræna ræktun: Einungis 31 voru starfandi í lífrænni ræktun á Íslandi á árinu 2016 – Aðeins komu 5 af 35 milljóna króna aðlögunarstyrkjum í greininni til úthlutunar á síðasta ári, verið að skoða ráðstöfun á restinni Bjarni Jónsson alþingismaður lagði fram fyrirspurn á Alþingi þann 31. janúar varðandi lífrænar landbúnaðarafurðir. Sendi hann Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrirspurn um málið í þrem liðum. Spurði hann ráðherra einnig hvort hann hygðist beita sér fyrir því að málefni lífræns landbúnaðar verði skoðuð með heildstæðum hætti. Fyrirspurnin er athyglisverð í ljósi þess hversu erfiðlega hefur gengið að koma fótunum undir lífræna ræktun á Íslandi. Virðist það þvert á þróunina víða um Evrópu þar sem lífrænt framleiddar afurðir án allra eitur- eða aukaefna njóta ört vaxandi vinsælda. Tvær umsóknir og ein styrkveiting Í haust vakti það einnig athygli að einungis tvær umsóknir bárust til Búnaðarstofu MAST varðandi aðlögunarstyrki fyrir lífrænan landbúnað á árinu 2017. Aðeins annar umsækjandinn var talinn uppfylla skilyrði styrkveitingar. Var þar gert ráð fyrir 35 milljónum til styrkveitinga, en áður nam heildarupphæðin 3,5 milljónum króna. Markmiðið er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í vottaðri lífrænni búvöruframleiðslu og auka framboð lífrænna vara á markaði. Samkvæmt reglugerð nr. 1180/2017 um almennan stuðning við landbúnað, sem Matvælastofnun vinnur eftir, getur stuðningur við framleiðanda aldrei verið meiri en 50% af árlegum aðlögunarkostnaði skv. umsókn og að hámarki 20% af heildarframlögum stuðningsins í fjárlögum ársins. Því var 30 milljónum óráðstafað í árslok. VOR félag lífrænna framleiðenda verði kallað að borðinu Lagt hefur verið til að nýjasta aðildarfélag Bændasamtaka Íslands,VOR, sem er hagsmunafélag framleiðenda sem stunda lífræna ræktun eða fullvinnslu lífrænna íslenskra afurða, hafi hönd í bagga varðandi nýtingu þeirra fjármuna sem út af stóðu. Að sögn Sigurðar Eyþórssonar, framkvæmdastjóra BÍ, er ekki hugmyndin að þessar 30 milljónir bætist við þær 35 milljónir sem verða í pottinum 2018. Þess í stað hefur verið lagt til að fjármagnið verði notað m.a. við að hjálpa bændum í lífrænni ræktun að standa undir kostnaði við úttektir og vottanir á starfsemi sinni. Einnig að hluta fjárins verði varið til að kalla til erlenda ráðgjafa í samstarfi við Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins líkt og gert var í garðyrkjunni með góðum árangri. Jafnframt verði hægt að nýta fjármunina til að kynna lífræna ræktun almennt og hvetja fleiri til að skoða þá möguleika sem í henni felast. Að sögn Jóns Baldurs Lorange, framkvæmdastjóra Búnaðarstofu MAST, þá er ákveðið regluverk þegar til staðar varðandi úthlutun fjármuna sem falla til á yfirstandandi ári. Eigi að síður er nú til skoðunar hvort breytt verði fyrirkomulagi úthlutunar aðlögunarstyrkja til lífræna geirans á þessu ári til að þjóna betur markmiði úvörusamninganna. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar í þeim efnum. Mjög hæg þróun í lífrænni ræktun á Íslandi Kristján Þór svaraði fyrirspurn Bjarna Jónssonar á Alþingi þann 22. febrúar. Gerði hann það með eftirfarandi hætti beint út frá spurningum Bjarna: „1. Hver hefur þróunin verið undanfarinn áratug í framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða með lífræna vottun og hvert er hlutfall lífrænt vottaðra landbúnaðarafurða af heildarframleiðslu og -sölu innlendra landbúnaðarafurða? Þróun vottaðrar lífrænnar landbúnaðarframleiðslu á Íslandi má marka af þrennu: – fjölda vottaðra starfsstöðva, – flatarmáli vottaðs nytjalands og – fjölda vottaðs búpenings. Á liðnum áratug hefur fjöldi frumframleiðenda verið á bilinu 22 (2006) til 39 (2011), en í árslok 2016 var fjöldi þeirra einungis 31. Flestir þeirra eru tiltölulega sérhæfðir, þ.e. stunda ýmist garðyrkju, búfjárrækt eða söfnun villtra plantna af landi eða sjó. Framleiðsla þeirra er allfjölbreytt eins og sjá má af töflu 3 sem lýsir þeim vöruflokkum sem framleiddir voru árið 2016. Vinnslustöðvum hefur hins vegar fjölgað jafnt og þétt úr 12 (2006) í 29 (2016). Um er að ræða fjölbreytta flóru vinnslustöðva, svo sem sjá má af töflu 3 (2016), en þær vinna ýmist úr innlendum eða innfluttum hráefnum, eða hvort tveggja. Flatarmál vottaðs nytjalands er algengur mælikvarði á framvindu og stöðu lífræns landbúnaðar. Framvindu þess hér á landi má sjá á mynd 1. Um árabil voru um 5.000 hektarar nytjalands vottaðir lífrænir, en það svæði þrefaldaðist árið 2007, einkum vegna aukinna nytja á óræktuðu landi til söfnunar villtra jurta. Eftir það hefur aukningin verið mjög hæg og í árslok 2016 voru tæpir 23 þúsund hektarar vottaðir til lífrænna landnytja, sem svarar til um 1,5% af því sem talið er nýtanlegt land til landbúnaðar (ræktunar og beitar) hér á landi. Í samanburði við flest önnur lönd Evrópu er það hlutfall mjög lágt. Fyrir utan þessar tölur eru svo í kringum 200 þúsund hektara svæði á grunnsævi, einkum við innanverðan Breiðafjörð, sem hagnýtt er til öflunar þangs og þara sem vottanleg eru sem lífrænar afurðir. Mjög lítill hluti bústofns íslenskrar búfjárræktar er enn sem komið er vottaður lífrænn. Vottaður stofn náði hámarki á árunum 2011– 2013, en hefur dregist nokkuð saman á síðustu árum. Þannig voru í árslok 2016 vottaðar mjólkurkýr 111 talsins og vetrarfóðraðar ær 1.475. Þótt tölur um bústofn á árinu 2017 liggi ekki endanlega fyrir er ljóst að sauðfjárbændum hefur fækkað og þar með vetrarfóðruðum ám. Undantekning frá þessari framvindu er eldi á varphænum sem tók mikinn kipp fyrir rúmum tveimur árum, þegar einn eggjaframleiðandi byggði upp allstóra eldisstöð sem uppfyllir kröfur um vottaða lífræna framleiðslu. Ein eldisstöð framleiðir vottuð laxaseiði til útflutnings og áframeldis. Engir alifuglar eða svín eru vottuð í lífrænu eldi. Upplýsingar um magn framleiddra vottaðra lífrænna landbúnaðarafurða hér á landi liggja ekki fyrir. Hlutföll vottaðra afurða í einstökum afurðaflokkum verða því ekki metin nema mjög gróflega og út frá ofangreindum upplýsingum um fjölda framleiðenda, nytjaland og bústofn. Í flestum tilvikum er ekki um mikið magn að ræða. Þó eru nokkrar undantekningar frá því og er verulegt magn villtra sjávarjurta (þangs og þara) svo og eggja og gulróta framleitt í landinu. Ætla má að margar tegundir lífræns grænmetis gangi til þurrðar þegar kemur fram á haust, framboð gulróta, kartaflna og gulrófna endist lengur, en lífræn mjólk og mjólkurafurðir, egg, lambakjöt og bygg eru fáanleg á markaði mestallt árið. Auk þessara afurða er framleitt mikið magn af þang- og þaramjöli, einkum til útflutnings og áframvinnslu, til notkunar í matvæla- og fóðuriðnaði. Þá eru nokkrir aðilar vottaðir til framleiðslu á lífrænum snyrtivörum.“ Fjölþætt skilyrði fyrir stuðningi „2. Hvaða möguleikar eru á að hljóta fjárhagslegan stuðning til aðlögunar að lífrænum búskaparháttum á sveitabýlum, hvernig er honum háttað og hve margir bændur hafa notið slíks stuðnings árlega undanfarin fimm ár? Um núgildandi fyrirkomulag stuðnings vegna lífrænnar framleiðslu er fjallað í V. kafla reglugerðar nr. 1180/2017 um almennan stuðning við landbúnað. Matvælastofnun ráðstafar þeim fjármunum sem ætlaðir eru til að styðja við aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum. Þeir framleiðendur sem uppfylla skilyrði 3. gr. ofangreindrar reglugerðar og hafa byrjað lífræna aðlögun í landbúnaði undir eftirliti faggildrar vottunarstofu og í samræmi við gildandi reglugerð um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara geta sótt um aðlögunarstuðning. Skilyrði fyrir stuðningi eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi í þeim búgreinum sem við á hverju sinni. Umsóknum þarf að skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar, eigi síðar en 15. maí ár hvert og í umsókn þurfa eftirfarandi upplýsingar koma fram: 1. Upplýsingar um nafn, kennitölu, og lögheimili framleiðanda sem sækir um stuðning. 2. Upplýsingar um búsnúmer lögbýlis sem verið er að aðlaga að lífrænni framleiðslu. 3. Lýsing á búrekstrinum sem verið er að aðlaga að lífrænni framleiðslu, þ.m.t. upplýsingar um gripafjölda eftir tegundum búfjár, flatarmál lands eftir tegund nytja og aðstæður í gripahúsum sem breyta þarf til að mæta kröfum um aðbúnað lífræns búfjár. 4. Áætlaður aðlögunarkostnaður á umsóknarári samkvæmt kostnaðaráætlun. 5. Upplýsingar um áður fenginn aðlögunarstuðning ef við á. Fylgiskjöl sem þurfa að fylgja með fyrstu umsókn eru: 1. Kostnaðaráætlun unnin af fagaðila, svo sem Ráðgjafar- miðstöð landbúnaðarins. Í kostnaðaráætlun skal m.a. leggja mat á þann kostnað vegna lífrænnar aðlögunar sem framleiðandi þarf að bera frá því að lífræn aðlögun hefst og þar til lífræn vottun fæst. Kostnaðinn skal áætla fyrir hvert ár aðlögunarinnar og skal líta til eftirfarandi þátta: a. Fjárfestingar: Breytingar á húsa kosti til að uppfylla viðbótarkröfur um aðbúnað og gólfrými, tækjabúnað og aðstöðu, námskeið og fræðsluefni til að byggja upp þekkingu framleiðanda. b. Rekstrarútgjöld sem tengjast sérstaklega aðlögunarferlinu: Gerð aðlögunaráætlunar, greiningar jarðvegssýna og fóðursýna, gerð jarðakorta, ráðgjöf búnaðarráðunauta og fyrstu úttektir vottunarstofu. c. Lækkun tekna vegna minni framleiðslu á hverja flatar- og búfjáreiningu: ræðst m.a. af þekkingu og hæfni framleiðanda, jarðvegsgerð, landsháttum, veðurfari og fyrirkomulagi búreksturs árin áður en aðlögun hefst. 2. Afrit af áætlun um aðlögun að lífrænni landbúnaðar- framleiðslu, staðfest af faggildri vottunarstofu. 3. Staðfesting faggildrar vottunar- stofu um að umsækjandi hafi undirritað samning við hana um reglubundið eftirlit með framleiðslunni samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu. Einnig skal fylgja staðfesting faggildrar vottunarstofu um að umsækjandi hafi lokið a.m.k. átta klukkustunda námskeiði fagaðila, eins eða fleiri, um lífræna aðlögun landbúnaðar- framleiðslu, þar sem fjallað er um aðlögunarferlið, lífrænar aðferðir í þeim búgreinum sem aðlaga á að kröfum, skráningar og skýrsluhald í lífrænum búskap, fyrirkomulag eftirlits og vottunar og fyrir- komulag ráðgjafar og stuðnings við lífræna aðlögun. Mat- vælastofnun skal staðfesta fyrirkomulag og skipulag námskeiðsins. Matvælastofnun annast úthlutun aðlögunarstuðnings. Stuðningur við hvern framleiðanda getur að hámarki numið 50% af árlegum aðlögunarkostnaði með tilliti til umfangs aðlögunar. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag árlega en 20% af heildarframlögum stuðningsins samkvæmt fjárlögum. Heimilt er að veita framleiðanda árlegan aðlögunarstuðning á meðan aðlögun undir eftirliti faggildrar vottunarstofu stendur yfir og skal umsækjandi þá sækja um að nýju. Ný umsókn skal vera með uppfærðum upplýsingum og fylgiskjölum auk þess skal fylgja með umsókn staðfesting faggildrar vottunarstofu á að aðlögun standi yfir samkvæmt áætlun. Matvælastofnun er einnig heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum frá framleiðanda telji hún þess þörf til að meta umsókn. Á árinu 2017 fékk 1 umsækjandi stuðning, alls 3.231.250 kr. Á árinu 2015 fengu 5 umsækjendur stuðning, alls 3.400.000 kr. Á árinu 2014 fengu 5 umsækjendur stuðning, alls 5.202.706 kr.* Á árinu 2013 fengu 6 umsækjendur stuðning, alls 5.002.294 kr.* *Ástæðan fyrir hærri greiðslu árin 2013 og 2014 er sú að á þeim árum var veitt viðbótargreiðsla vegna þróunarfés sauðfjár.“ Ríkisstjórnin leggur áherslu á að efla lífræna ræktun „3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir stefnumörkun í málefnum lífræns landbúnaðar og gerð markvissrar aðgerðaáætlunar með það að markmiði að auka hlut lífræns landbúnaðar eins og gert hefur verið í flestum Evrópulöndum? Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar- innar er sérstaklega bent á að efla þurfi lífrænan landbúnað. Þessi áhersla er auk þess í samræmi við rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins á árunum 2017–2026 en eitt af markmiðum samningsins er að auka vægi lífrænnar framleiðslu. Í upphafi árs 2017 samþykkti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upptöku gildandi reglna Evrópusambandsins um lífræna ræktun í EES-samninginn og voru gerðirnar formlega teknar upp í samninginn 17. mars 2017. Í nóvember 2017 voru nýjar reglur um lífræna ræktun samþykktar innan ESB og munu þær taka gildi í byrjun árs 2021. Þessar reglur falla undir gildissvið EES-samningsins og munu því koma til meðferðar innan EFTA. Með vísan til þess að ríkisstjórnin leggur áherslu á að efla lífræna ræktun og í ljósi nýrrar löggjafar ESB á þessu sviði er fyrirhugað að ráðherra beiti sér fyrir því að málefni lífræns landbúnaðar verði skoðuð með heildstæðum hætti,“ sagði ráðherra í svari sínu við fyrirspurn Bjarna. /HKr. Bjarni Jónsson. Kristján Þór Júlíusson. LÍFRÆNN LANDBÚNAÐUR

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.