Spássían - 2013, Qupperneq 49
49
að sýningin væri búin og þeir
mættu klappa eða fara og hvorki
dansarar né höfundur létu sjá sig. Í
báðum þessum verkum gaf fjarvera
manneskjunnar og óljós endir til
kynna að um myndlistargjörning
væri að ræða frekar en danssýningu.
Þarna var ósamræmi á milli
væntinga og veruleika, áhorfandinn
fór á danssýningu en fannst hann
vera á myndlistarsýningu. Þrátt fyrir
að báðar sýningarnar væru flottar
og eftirminnilegar truflaði þetta
ósamræmi upplifunina nokkuð, þótt
það kæmi líka skemmtilega á óvart.
Í verkinu Untitled movement
sýndi japanski dansflokkurinn
Contact Gonzo sína eigin útgáfu
af snertispuna. Snerting var
grundvöllur verksins, en ekki í
formi flæðandi samruna tveggja
eða fleiri líkama heldur í líki
slagsmála. Dansararnir slógu hver
á annan, stukku hver á annan og
drógu hver annan um sviðið. Öll
samskiptin voru ofbeldisfull en þó
innan ákveðins ramma. Eftir að
hafa nýverið horft á nokkuð mörg
MMA myndbönd kom hugtakið
bardagaíþrótt frekar upp í hugann
en danssýning.
Red Herring eftir Diederik
Peeters var aftur á móti greinilega
list. Peeters lék sér á snilldarlegan
hátt með leikhúsformið og má
segja að verk hans hafi verið vel
kóreógraferað útvarpsleikhús.
Efni og sviðsetning báru vott um
skemmtilega uppátektarsemi og allt
það sem eyrað nam var hrein snilld.
Framsetning sýningarinnar væri
fullkomin fyrir barnasýningu, alltaf
eitthvað óvænt og skemmtilegt að
gerast. Verkið var gott leikhúsverk
en hvort það var dans fer eftir því
hvernig dans er skilgreindur.
Allar sýningarnar sem nefndar
hafa verið hér á undan voru
áhugaverðar og eftirminnilegar og
því má segja að það skipti ekki máli
hvað þær séu kallaðar. Áhorfandinn
ætti að mæta á sýningar með
opinn huga og forvitnina eina
að vopni. Það verður samt ekki
hjá því komist að áhorfandinn
hafi einhverjar væntingar til þess
sem hann sér, og of stór frávik frá
væntingum, geta haft truflandi áhrif
á upplifun af verkum þó að þau geti
líka komið ánægjulega á óvart. Í
nútímasamfélagi hefur áhorfandinn
úr svo miklu að moða að hann hefur
enga ástæðu til að fara á viðburði
sem hann vill ekki sjá. Rétt eins og
börnin sem velja aðeins það sem
þau þekkja velja áhorfendur að sjá
það sem þeir vita að þeim á eftir
að líka við - nema þeir hörðustu í
listabransanum.
Hin eiginlega merking á bak við
hugtakið listdans getur því aðeins
breyst og stækkað að sameiginlegur
skilningur náist á milli listamanna
og áhorfenda um þróun hugtaksins.
Þessi sameiginlegi skilningur verður
þó varla til nema lifandi umræða um
listformið sé í gangi, ekki aðeins á
milli listamannanna sjálfra heldur
líka listamanna og áhorfenda. Þegar
litið var yfir áhorfendahópinn á
Reykjavík dansfestival sást að þar
var samankominn frekar einsleitur
hópur listáhugafólks frekar en
breiður hópur dansnemenda,
danskennara og annarra þeirra sem
áhuga hafa á dansi. Þetta er kannski
eðlilegt því danshátíðin leggur
áherslu á framsækni í listsköpun
og það er þekkt staðreynd að nýjar
nálganir í listum ná sjaldnast
almennri viðurkenningu fyrr en
eftir áralanga gerjun og síun. En
það má líka spyrja sig hvort fjarvera
þeirra sem mestan hafa áhugann á
dansinum í sínu hefðbundna formi
stafi af því að þeir eru hræddir um
að fá kjöt þegar þeir ætla að fá fisk.
1 „Færri komast að en vilja“, Fréttablaðið, 31.
ágúst 2013.
Red Herring eftir
Diederik Peeters