Fréttablaðið - 21.10.2020, Blaðsíða 34
Um þessar mundir eru þrjú mál til meðferðar þar sem starfsemi og starfs-hættir hljóðbókaút-gefenda og bóksala
eru lagðir á vogarskálar sam-
keppnisreglna og höfundaréttar.
Málin eru ólík að eðli en eiga það
þó sameiginlegt að hljóðbækur, og
framleiðsla þeirra, eru í brenni-
depli. Miklir hagsmunir eru undir
þar sem hljóðbókaútgáfa er orðin
mikilvæg atvinnugrein um leið og
hún breytir öðrum og eldri.
Eggert Bjarni Ólafsson, lögmaður
og sérfræðingur í samkeppnisrétti,
fer yfir þessi þrjú mál. Það fyrsta er
yfirtaka streymisveitunnar Storytel
á Forlaginu, en um er að ræða yfir-
töku stærsta framleiðanda hljóð-
bóka hér á landi á stærsta útgefanda
prentaðra bóka. Bæði rithöfundar
og forleggjarar hafa lýst yfir áhyggj-
um sínum af samrunanum.
Tilkynnt var um yfirtökuna til
Samkeppniseftirlitsins 20. júlí síð-
astliðinn og er málið í svokallaðri
„fasa II skoðun“ hjá Samkeppnis-
eftirlitinu að sögn Eggerts, sem þýðir
að stofnunin telur að yfirtakan geti
skapað samkeppnisleg vandamál.
Við meðferð málsins þarf Sam-
keppniseftirlitið að svara því hvort
með samrunanum verði til fyrir-
tæki með markaðsráðandi stöðu á
tilteknum skilgreindum markaði,
einum eða f leirum, með tilheyr-
andi hættu á verðhækkunum. Og í
öðru lagi þarf það skoða hvort sam-
runinn skapi hættu á útilokun frá
markaði. Með öðrum orðum þarf
að skoða hvort erfiðara verði fyrir
keppinauta og viðskiptavini For-
lagsins og Storytel að athafna sig á
markaðnum eftir samrunann, sem
að lokum gæti einnig leitt til minni
verðsamkeppni og hærra verðs en
ella.
„Að líkindum mun Samkeppnis-
eftirlitið heimila samrunann, en
þó með skilyrðum, sem ætlað er
að koma í veg fyrir að samruninn
raski samkeppni með umtals-
verðum hætti, eins og það er orðað í
lögunum,“ segir Eggert og bætir við
að önnur samkeppnismál þar sem
bókaútgáfa hefur verið til meðferðar
bendi til að þetta verði niðurstaðan.
Þar með talið Uglumálið sem er enn
til meðferðar hjá Samkeppniseftir-
litinu.
Uglumálið gefur vísbendingar
Í maí síðastliðnum tók Penninn
nýjar og nýlegar bækur Uglu útgáfu
úr sölu í verslunum sínum ef þær
voru jafnframt til sölu sem hljóð-
bækur. Ugla kærði sölusynjunina til
Samkeppniseftirlitsins, sem taldi að
synjun fæli í sér misnotkun á mark-
aðsráðandi stöðu og því væri ástæða
til að beita bráðabirgðaákvörðun í
málinu. Það er fremur sjaldgæft að
sögn Eggerts.
Pennanum var lagt fyrir að taka
bækur Uglu aftur í sölu. Þótt end-
anleg ákvörðun í málinu liggi ekki
fyrir má finna vísbendingar um
hvernig stofnunin mun afgreiða
samruna Storytel og Forlagsins.
„Samkeppnisyfirvöld eru gjarnan
íhaldssöm í markaðsskilgreiningu.
Ef tiltekinn markaður hefur verið
skilgreindur með ákveðnum hætti
í samrunamáli eða samkeppnis-
brotamáli, þarf yfirleitt mikið að
breytast til að önnur markaðs-
skilgreining verði lögð til grund-
vallar í síðara máli sem varðar sömu
atvinnugrein. Markaðsskilgreining
Samkeppniseftirlitsins í Uglumál-
inu er í samræmi við þetta,“ segir
Eggert.
Þannig skilgreindi samkeppnis-
eftirlitið starfsemi Pennans sem
smásölu bóka í bókaverslunum, eins
og það hafði gert í eldri málum þar
sem bókaútgáfa var til umfjöllunar.
Á þessum markaði, smásölu bóka
í bókaverslunum, væri Penninn í
markaðsráðandi stöðu.
„Samkeppniseftirlitið virðist ekki
hafa túlkað tilraun Pennans til að
útiloka Uglu frá hinum hefðbundna
bókasölumarkaði sem vísbendingu
um að hljóðbókasala með streymi
og hefðbundin bóksala tilheyrðu
einum og sama markaðnum, smá-
sölu bóka. Samkeppniseftirlitið tók
þó fram að útgáfa hljóðbóka væri
þýðingarmikill, tengdur markaður.
Sú yfirlýsing opnar fyrir afskipti
Samkeppniseftirlitsins af yfirtöku
Storytel á Forlaginu,“ segir Eggert.
Ýmis skilyrði koma til greina
Samkeppniseftirlitið mun því ekki
skilgreina samruna Storytel og For-
lagsins sem láréttan samruna með
tilheyrandi samþjöppun á markaði
heldur mun það huga vandlega að
lóðréttum áhrifum samrunans, svo
sem markaðsaðgangi.
„Hljóðbók verður ekki framleidd
nema til sé efni fyrir upplestur. Þótt
ekkert sé því til fyrirstöðu að efni
sé frumútgefið á hljóðbók, þá er
það ekki gert í raun að neinu marki.
Nær allar hljóðbækur eru gerðar
eftir bókum sem gefnar hafa verið
út á prenti og allf lestar þeirra eru
háðar höfundarétti. Prentaðar og
höfundaréttarvarðar bækur eru
því nauðsynlegt hráefni fyrir hljóð-
bókagerð, ef svo má að orði komast,“
útskýrir Eggert.
Storytel gæti þannig þrengt
aðgang annarra hljóðbókafram-
leiðenda að titlum Forlagsins og þar
með stórum hluta „hráefnismarkað-
arins“. Að sama skapi gæti Forlagið
neitað höfundum um útgáfu nema
þeir samþykktu jafnframt hljóð-
bókaútgáfu á verki sínu. Auk þess
gæti Storytel látið bækur útgefnar
af Forlaginu ganga fyrir í hljóðbóka-
framleiðslu og þannig skaðað sam-
keppnisstöðu rithöfunda.
„Það eru því allar líkur á að Sam-
keppniseftirlitið muni setja yfirtöku
Storytel á Forlaginu ýmis skilyrði,
sem verði ætlað að tryggja að fyrir-
tækin mismuni ekki keppinautum
sínum og viðskiptavinum, þar með
talið rithöfundum, og skapi ekki
ójafnar samkeppnisaðstæður. Þá
mun Samkeppniseftirlitið að öllum
líkindum setja yfirtökunni skilyrði
um hverjir megi sitja í stjórnum
fyrirtækjanna og framkvæmda-
stjórnum, í þeim tilgangi að tryggja
óhæði stjórnenda fyrirtækjanna
á meðan þau eru rekin sitt í hvoru
lagi eins og gefið hefur verið út að
þau muni gera,“ segir Eggert.
Óánægja með ríkisumsvif
Þriðja hljóðbókamálið varðar starf-
semi Hljóðbókasafns Íslands. Ef
hljóðbókaútgáfa er sett í f lokk með
útgáfu prentaðra bóka þá var Hljóð-
bókasafnið stærsti útgefandi bóka
hér landi um margra ára skeið. Það
var ekki fyrr en á síðasta ári, þegar
Storytel kom inn á markaðinn með
300 útgefna titla, að útgáfutölur
Hljóðbókasafnsins voru jafnaðar.
Eggert segir að lengi hafi ríkt
óánægja meðal margra rithöfunda
og bókaútgefenda með starfsemi
Hljóðbókasafnsins, sem þeir telja
vera óeðlilega umsvifamikla og
benda á hin Norðurlöndin í því sam-
bandi til samanburðar.
Hljóðbók slf., eitt fárra fyrirtækja
í þeirri grein sem lifði af samkeppn-
ina við Hljóðbókasafnið, hefur
stefnt ríkinu til skaðabóta vegna
starfsemi safnsins.
Það sem Hljóðbók og aðrir hafa
gagnrýnt sérstaklega í starfsemi
Hljóðbókasafnsins er að því skuli
heimilt að gefa út nýútkomna bók á
hljóðbók án nokkurra tímamarka
og án tillits til þess hvort verkið sé
þegar í almennri sölu sem hljóðbók.
Þannig getur ný skáldsaga verið
komin út á hljóðbók hjá Hljóðbóka-
safninu tveimur vikum eftir útgáfu
viðkomandi bókar á prenti og eins
þótt fyrirtæki eins og Hljóðbók slf.
hafi gefið sama verk út til dreifingar
á markaði. Um 90 prósent útgefinna
bóka Hljóðbókar eru fáanlegar hjá
Hljóðbókasafninu.
Þá hefur einnig verið gagnrýnt
að efni sem safnið framleiðir rati
í stórum stíl til einstaklinga sem
ekki uppfylla aðgangsskilyrði að
safninu. Sú hætta kalli á að Hljóð-
bókasafninu séu settar skýrar reglur
til að starfa eftir.
En er ekki sjálfsagt að starfrækt sé
hljóðbókasafn í þágu blindra, sjón-
skertra og lestrarhamlaðra?
„Auðvitað er það sjálfsagt. Það er
ekki verið að finna að þjónustunni
sem slíkri, segir Eggert og ítrekar að
starfsemi Hljóðbókasafnsins byggi á
undanþáguheimild í höfundalögum
sem beri að túlka þröngt.
„Skilyrði fyrir starfsemi á grund-
velli undanþágunnar er að hún
skerði ekki með ósanngjörnum
hætti lögmæta hagnýtingu rétthafa
á höfundaréttarvörðu efni. Það
verður að gæta meðalhófs í starf-
semi á grundvelli undanþágunnar,“
segir Eggert. Þessa skilyrðis hefur
verið gætt í öðrum löndum eins og
til dæmis Noregi og Bretlandi. Þar
mátti til skamms tíma ekki gefa út
hljóðbók á grundvelli undanþág-
unnar, ef verk var þegar til á markaði
í hljóðbókarformi.
Hljóðbækur eru í hringiðu breytinga
Þrjú mál, sem geta mótað samkeppnisumhverfið á hljóðbókamarkaði, eru til meðferðar. Sérfræðingur í samkeppnisrétti segir allar
líkur á því að samruna Storytel og Forlagsins verði sett skilyrði. Einkafyrirtæki í samkeppni við umfangsmikla ríkisútgáfu.
Storytel ber höfuð og herðar yfir aðra framleiðendur hljóðbóka hér á landi en fyrirtækið framleiddi yfir 300 titla á árinu 2019. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Þorsteinn Friðrik
Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Að líkindum mun
Samkeppniseftir-
litið heimila samrunann, en
þó með skilyrðum sem
ætlað er að koma í veg fyrir
að samruninn raski sam-
keppni með
umtalsverð-
um hætti.
Eggert B. Ólafs-
son lögmaður
Þrjú mál sem móta
samkeppnisumhverfið
á hljóðbókamarkaði
1. Yfirtaka Storytel á For-
laginu, stærsta útgefanda
prentaðra bóka hér á landi.
2. Meint brot Pennans á sam-
keppnislögum með því að
neita að selja bækur frá
Uglu bókaforlagi.
3. Skaðabótamál Hljóðbókar
slf. gegn Hljóðbókasafni
Íslands vegna meints brots
á höfundalögum.
2 1 . O K T Ó B E R 2 0 2 0 M I Ð V I K U D A G U R10 MARKAÐURINN