Fréttablaðið - 21.10.2020, Blaðsíða 52
Þannig var að af öllu því sem lífið hefur fært mér er það ef til vill ellin sem hefur komið mér mest á óvart – allt í einu vorum við hjónin orðin tvö ein
eftir í kotinu. Aldurinn hafði færst
yfir okkur, kannski af meiri þunga
en gengur og gerist vegna tveggja
áratuga baráttu hennar Sólveigar
minnar við parkinsonssjúkdóminn.“
Svona lýsir Þráinn Bertelsson, rit-
höfundur, kvikmyndagerðarmaður
og fyrrverandi alþingismaður svo
fátt eitt sé nefnt, aðdragandanum
að kynnum hans og hvolpsins Theo-
balds í bókinni Hundalíf … með
Theobald. Hann heldur síðan áfram
og fikrar sig nær stjörnu bókarinn-
ar. „Þá datt okkur í hug að kannski
væri það heillaráð að finna kátan
hvolp og gá hvort hann gæti ekki
aukið fjör og gleðskap á heimilinu.“
Eins og listamaður
„Og við völdum þennan og hann
hefur alveg skilað sínu og umfram
væntingar, því að það er daufur
dagur ef maður hlær ekki að
minnsta kosti einu sinni á dag að
honum,“ segir Þráinn og bendir á
Theobald sem hefur tekið að sér að
þrífa gólfið undir kaffiborðinu með
talsverðum fyrirgangi.
„Hann er alveg yndislegur,“ held-
ur Þráinn áfram og víkur að náttúr-
legum hæfileikum franska bola-
bítsins. „Allar hundategundir eru
sérfræðingar í einhverju; að smala
eða leita að eiturlyfjum eða týndu
fólki, eða gelta þegar það koma
glæpamenn eða eitthvað svoleiðis.
En þessi tegund er ekki sérfræð-
ingur í neinu, nema bara að vera til
skemmtunar og það þýðir ekkert
að segja honum fyrir verkum; gá
að kindum eða eitthvað svoleiðis.
Sækja Moggann eða inniskóna. Það
bara er ekki hans fag.
Hann er náttúrlega eins og lista-
maður. Hann er gjörsamlega gagns-
laus. Hann hefur enga praktíska
þýðingu en hann gerir lífið betra og
skemmtilegra og það er nú kannski
það …“
Þráinn heldur áfram eftir augna-
bliks hlé. „… að lífið verður ekki létt-
ara eða einfaldara með tímanum í
mörgum tilvikum, svo að það er
afskaplega gott að fá einhverja
aðstoð við að halda haus,“ segir
Þráinn um unga hundinn sem hefur
verið besti vinur gamla mannsins í
næstum fjögur ár.
Bestu stundirnar
Þeir félagarnir hafa saman lagt að
baki ófáa kílómetra á daglegum
gönguferðum sínum, hugsað enn
fleiri hugsanir og látið ófá orð falla
sem Þráinn hefur séð um að skrá-
setja, meðal annars í krafti aldurs
og fyrri starfa. Því er þó haldið
vandlega til haga að allt er þetta gert
með fullu samþykki Theobalds sem
unnir sínum tvífætta félaga ýmissa
dynta.
Líklega er það síðan ágætis dæmi
um að einhver þráður liggur í
gegnum lífsins skrykkjótta gang,
að með bókinni bætist Hundalíf …
með Theobald við höfundarverk
leikstjóra kvikmyndanna Nýtt líf,
Dalalíf og Löggulíf.
„Það eru náttúrlega kannski
bestu stundirnar,“ segir Þráinn um
gönguferðirnar sem hafa reynst
þeim félögum svo drjúgur inn-
blástur. „Við förum út daglega. Bara
til að hlaða batteríin. Við erum nú
reyndar orðnir tveir einir í kotinu.
Sólveig mín er komin á hjúkrunar-
heimili. Við heimsækjum hana
reyndar daglega, en núna eru ein-
hver vandamál með það út af þessu
COVID-fári en við förum daglega út
að ganga.
Óhjákvæmileg hreyfing
Við spjöllum náttúrlega eins og
dagurinn er langur, en þessi útivist
er mjög gefandi. Það er náttúrlega
hvatning fyrir mann að fara út með
hundinn ef maður les út úr augna-
ráðinu: „Við skulum koma út þó
það sé ekki gott veður því að annars
kúka ég á gólfið hjá þér.“ Og ekki vil
ég láta það henda vin minn að gera
svoleiðis. Svo það er engin undan-
komuleið,“ segir Þráinn og hlær.
„Það er bara svo miklu meira
gaman að vera úti með honum held-
ur en einn, af því að hann les nátt-
úruna og umhverfið á allt annan
hátt heldur en ég og það er alltaf
mjög gaman að fá að taka þátt í því.“
Öðruvísi áhrifavaldur
Gönguferðir og heimspekilegar
vangaveltur þeirra félaga vöktu
fyrst athygli á Facebook, þar sem
Þráinn hefur um skeið birt bæði
myndir og stuttar skýrslur af dag-
legu brölti þeirra Theobalds.
Þar hefur aðdáendum Theo-
balds fjölgað jafnt og þétt og segja
má að þeir félagar hafi vegna fjölda
áskorana fært hugleiðingar sínar af
Facebook á prent.
„Já, já, það er massífur aðdáenda-
hópur sem Theobald á og heimtar
stöðugt fréttir og frásagnir af því
sem frá honum kemur um aðskilj-
anlegustu hluti. Allt frá bara að hafa
skoðun á einhverjum atburðum og
eða sjálfstæðar heimspekilegar
athuganir. Því hefur verið voða vel
tekið og gaman af því,“ segir Þráinn,
en vill þó ekki draga hundinn í dilk
með öðrum áhrifavöldum svoköll-
uðum.
Spennandi tilraun
„Facebook er náttúrlega nýr miðill,
með kostum og göllum eins og fjöl-
miðlar eru,“ segir Þráinn og víkur
að því að þegar eitthvað sniðugt er
skrifað á Facebook heyrist enn af
og til sú gamla upphrópun „þetta
verður að koma út á bók!“. Og að
það verði nú endilega að gefa þetta
út og svo framvegis.
„En bókaútgáfa og að skrifa
bækur er sérstök veröld þar sem
gilda sérstök lögmál sem eru ekki
nákvæmlega þau sömu og gilda
á Facebook og mér fannst svo-
lítið spennandi að athuga hvort
það væri hægt að færa eitthvað af
þessum skrifum okkar úr einum
miðli á annan. Eins og að gera bók
að leiksýningu eða kvikmynd
og það er nú sú tilraun sem þessi
bók er. Hvort eitthvað sem byrjar
í einhverjum miðli getur staðið og
staðið sig í öðrum miðli.“
Einhvers konar ævisaga
Þráinn segist líta á Hundalíf … með
Theobald sem þriðja bindi og þá
einhvers konar lokakaf la brota-
kenndrar ævisögu sem hófst með
bókinni Einhvers konar ég 2003
og hélt áfram með Ég, ef mig skyldi
kalla. Seinþroskasaga frá árinu
2008.
„Svona af minni hálfu þá finnst
mér ágætt að skrifa einhver brot
úr ævisögu. Eitt um bernskuna
og svo eitt um rótleysisárin þegar
maður er orðinn fullorðinn tækni-
lega séð, en áður en ég var búinn
að taka nokkra stefnu í lífinu. Og
þá finnst mér ágætt að ljúka þeim
ævipælingum á þessu, sem að vissu
leyti er þá nokkurs konar lokabindi
í ævisögu,“ segir Þráinn um nýju
bókina.
„Hún inniheldur ýmsar niður-
stöður sem mér hefur þótt eiga
erindi til Theobalds, því hann er
töluvert yngri en ég og að láta hann
þannig verða aðnjótandi þeirrar
reynslu sem ég hef og kynna fyrir
honum þær fáu niðurstöður sem
ég hef komist að í sambandi við
lífið. Svo þetta er svona eins konar
ævisaga eða kaf li í einhvers konar
ævisögu.“
Sannur vinur
Þegar Þráinn er spurður hvort
Theobald sé alveg á sömu blaðsíðu
í þessum pælingum, segist hann
hreinlega ekki vita það. „Hann er
nú ekki frekar en aðrir neitt sér-
staklega áhugasamur um að læra
af reynslu annarra, en eins og vinir
eiga að gera þá leyfir hann mér að
komast upp með að deila einhverju
minningaþrasi með sér.
Hann umber mig ágætlega eins
og vinir eiga að gera, en það er nú
ekki í eðli þessarar tegundar hunda
nein sérstök þjónustulund. Þeir
hafa ekki þessa hundslegu undir-
gefni og eru í raun og veru býsna
líkir því sem kettir geta verið,“ segir
Þráinn um lundarfar síns trygga
félaga og gervalls kyns hans.
Hugsandi hundur
„Þeir eru afskaplega sjálfstæðir og
þrjóskir og velja úr með mikilli
gagnrýni hvað þeir vilja gera, hvað
þeir vilja þýðast, hverjum þeir vilja
hlýða og hvað þeir vilja undirgang-
ast. Þeir athuga það mjög vel hvort
þetta er skynsamlegt, hvort þetta
er hagstætt á einhvern hátt fyrir
þá, þjónar þeirra hagsmunum að
gegna þessu. Eða hvort það verður
eitthvað brjálað vesen ef þeir gegna
því ekki.
Svo þetta eru hugsandi hundar.
Það er engin spurning um það. En
aðallega er nú sá boðskapur sam-
eiginlegur með okkur báðum, að
Hundalíf Þráins
Bertelssonar
Franski bolabíturinn Theobald og Þráinn
Bertelsson hafa í tæp fjögur ár rætt lífið
og tilveruna í daglegum gönguferðum,
en Þráinn hefur nú tekið saman ýmsar
vangaveltur þeirra og stöku niðurstöður
í bókinni Hundalíf … með Theobald.
Þráinn uppgötv-
aði í vor, sér til
skelfingar, að
50 ár eru síðan
fyrsta bókin
hans kom út.
„Það er nú at-
hyglisvert, sko.
Maður gefst
ekki upp og það
er bara voða-
lega gaman að
því. Það finnst
Theobald að
minnsta kosti
því hann er
fjögurra ára og á
þá töluvert eftir
af sínum rit-
höfundarferli.“
FRÉTTABLAÐIÐ/
SIGTRYGGUR ARI
HANN HEFUR ENGA
PRAKTÍSKA ÞÝÐINGU
EN HANN GERIR LÍFIÐ BETRA OG
SKEMMTILEGRA.
okkur finnst það vera allt að því
skylda okkar, úr því að við erum
lifandi verur, að reyna að finna
einhverja gleði og ánægju í því að
vera til,“ segir Þráinn og er kominn
býsna nærri kjarna málsins þegar
hann víkur að því ómótstæðilega
ævintýri sem tilveran er í okkar
sameiginlega táradal.
„Vegna þess að þetta er náttúr-
lega mikið ævintýri sem maður
fær að taka þátt í. Það fá ekki allir
að vera lifandi verur. Maður sér
það bara daglega. Gangstéttar-
hella, ljósastaur, bíll. Allt í kringum
okkur fær bara aldrei að prófa að
vera lifandi verur og þá er það eig-
inlega skylduverk að hafa einhverja
ánægju af þessu og út á það ganga
nú margar athuganir okkar. Dýr
eru alveg ótrúlegir mannþekkj-
arar,“ heldur Þráinn áfram.
Dýrið í manninum …
„Þau dýr sem ég þekki; hestar og
hundar og kettir. Ég veit það ekki.
Það virðist að þessar pælingar um
dýr eigi að sínu leyti erindi við fólk
af því að það segjast allir vera dýra-
vinir.
En ég veit ekki hvað það er djúpt
á því, en það er ótrúlega heillandi
ef maður nær góðu sambandi við
einhverja manneskju. Það er mjög
heillandi og sumir bindast ákveðn-
um manneskjum ævilangt af því að
sambandið er svo gott, en á sama
hátt þá er alveg hægt að ná sam-
bandi við dýr. Mismiklu. En það
er líka alveg stórkostleg upplifun
þegar eiginlega dýrið í manninum
nær sambandi við það mennska í
dýrinu og öfugt. Þetta eru alveg
stórkostlegar stundir,“ segir Þráinn
um þau fjölmörgu augnablik sem
hann hefur átt og heldur áfram að
eiga með sínum unga vini, Theo-
bald. toti@frettabladid.is
2 1 . O K T Ó B E R 2 0 2 0 M I Ð V I K U D A G U R20 L Í F I Ð ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð
LÍFIÐ