Morgunblaðið - 10.09.2020, Qupperneq 52
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. SEPTEMBER 2020
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Í raun mætti nefna komandi leikár
2020-2021+ því það er allt á hreyf-
ingu vegna kófsins og við hreyfumst
með. Það gefur augað leið að við
höldum ekki sömu framleiðni og
áætlað var. Við höfum hvorki fjár-
hagslegt bolmagn í það né tíma á
sviði eða sýningarkvöld,“ segir
Brynhildur Guðjónsdóttir borgar-
leikhússtjóri um nýhafið starfsár.
„Eftir stendur að hér ríkir kraftur
og gleði og við erum heldur betur
tilbúin til að taka á móti gestum.
Okkar aðalhlutverk er að halda utan
um hug og hjörtu landsmanna og
það ætlum við svo sannarlega að
gera,“ segir Brynhildur og bendir á
að gildandi samkomutakmarkanir
liti framboð leikhússins. Segir hún
ekkert launungarmál að nándar-
takmarkanir í sal feli í sér að aðeins
sé hægt að vera með um 35% sæta-
nýtingu og höggvi því skarð í fjárhag
leikhússins. „Það er ekki nema fyrir
ábyrgan rekstur síðustu ára sem við
höldum sjó í núverandi ástandi. Við
færum tvær sýningar frá þessu leik-
ári til þess næsta,“ segir Brynhildur
og vísar þar til Caligula eftir Camus
í leikstjórn Javors Gardev og Þétt-
ingar hryggðar eftir Dóra DNA og
Unu Þorleifsdóttur í leikstjórn Unu.
Það verður að vera gaman
„Að auki endurhugsum við sýn-
inguna Room 4.1 – Live eftir Krist-
ján Ingimarsson og lögum okkur að
aðstæðum. Úrvalið er þó aldeilis
fullnægjandi,“ segir Brynhildur og
tekur fram að hún bindi miklar vonir
við að sýningar á Bubba-söng-
leiknum Níu lífum eftir Ólaf Egil
Egilsson í leikstjórn höfundar geti
hafist á ný á Stóra sviðinu 1. októ-
ber. „Sem stendur erum við með 32
uppseldar sýningar,“ segir Bryn-
hildur og bendir á að stór hluti
þeirra sem náði að sjá þær þrjár
sýningar sem sýndar voru á Níu líf-
um í mars áður en samkomubannið
skall á hafi þegar keypt sér miða til
að sjá sýninguna aftur. „Gleðin, ork-
an og krafturinn í kringum þessa
sýningu er mögnuð og við bíðum
vægast sagt með óþreyju eftir að
hefja sýningar á ný,“ segir Bryn-
hildur og tekur fram að leikhúsið sé
kortagestum sínum þakklátt fyrir
sýndan skilning og tryggð á erfiðum
tímum.
Í raun má segja að yfirstandandi
leikár hafi hafist um liðna helgi þeg-
ar uppfærsla sviðslistahópsins
CGFC á Kartöflum var tekin aftur
til sýningar. „Þetta er dásamleg sýn-
ing,“ segir Brynhildur og rifjar upp
að Kartöflur hafi verið hluti af röð-
inni Umbúðalaust sem hóf göngu
sína á síðasta ári og er vettvangur
tilrauna ungs sviðslistafólks. „Líkt
og yfirskriftin gefur til kynna þá
setjum við þar áhersluna á innihald-
ið þar sem umbúðirnar eru auka-
atriði,“ segir Brynhildur og bendir á
Umbúðalaust-sýningin Ertu hér?
eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Höllu
Þórlaugu Óskarsdóttur sem vera
átti í vor verði sýnd í október. „Í vet-
ur bjóðum við síðan leikskáldum
hússins, Matthíasi Tryggva Har-
aldssyni og Evu Rún Snorradóttur,
að setja upp sitt verkið hvort í
vinnslu undir merkjum Umbúða-
lauss, sem spennandi verður að sjá,“
segir Brynhildur og undirstrikar
mikilvægi þess að Borgarleikhúsið
sé í virku samtali við grasrótina.
Fyrsta frumsýning leikársins er
Oleanna eftir David Mamet í þýð-
ingu Kristínar Eiríksdóttur á Nýja
sviðinu 18. september í leikstjórn
Hilmis Snæs Guðnasonar og Gunn-
ars Gunnsteinssonar, sem frestað
var í vor vegna kófsins. „Hér er á
ferðinni kraftmikið og beitt verk
sem talar enn beint inn í samtímann.
Lykilspurningar verksins snúast um
vald og valdaleysi.“
Fyrsta frumsýningin á Stóra svið-
inu verður Veisla eftir Sögu Garð-
arsdóttur og leikhópinn í leikstjórn
Bergs Þór Ingólfssonar þar sem
veislumenning landans er til skoð-
unar. „Þessa sýningu átti að frum-
sýna í vor. Þegar ég sá hvaða efnivið
þau voru með í höndunum fannst
mér einboðið að stækka sýninguna
og færa frá Litla yfir á Stóra sviðið,“
segir Brynhildur og bendir á að
Veisla verði kærkomin öllum þeim
sem misst hafi af veislum í kófinu.
„Þetta er myljandi fyndin nútíma-
revía þar sem mottóið er: Það verður
að vera gaman.“
Morðgáta og ástarbréf
Útlendingurinn – morðgáta nefn-
ist nýtt verk úr smiðju Friðgeirs
Einarssonar og í leikstjórn Péturs
Ármannssonar sem frumsýnt verður
á Litla sviðinu 2. október. „Þetta er
annað verkið í ráðgátuþríleik Frið-
geirs hér í Borgarleikhúsinu sem
hófst með Club Romantica í fyrra. Í
þessu verki reynir Friðgeir að leysa
50 ára gamalt morðmál og komast að
því hvað kom fyrir Ísdalskonuna
svonefndu sem fannst látin skammt
frá Bergen 1970,“ segir Brynhildur
og tekur fram að dásamlegt sé að
fylgjast með Friðgeiri að störfum.
„Friðgeir er meistari í einlægu, fal-
legu og óþægilega fyndnu leikhúsi.“
Síðasta frumsýning almanaksárs-
ins er Orlandó eftir Virginiu Woolf í
þýðingu Kristínar Eiríksdóttur á
Nýja sviðinu 30. desember. „Skáld-
saga Woolf hefur verið nefnd lengsta
og fallegasta ástarbréf sögunnar. Í
verkinu er ferðast gegnum 400 ára
sögu Englands með unglingspilt-
inum Orlandó sem nótt eina í Konst-
antínópel sofnar og vaknar viku síð-
ar sem kona,“ segir Brynhildur og
bendir á að verkið fjalli ekki síst um
mikilvægi þess að raddir listakvenna
fái að heyrast. „Það er okkur sér-
stakt ánægjuefni að geta kynnt glæ-
nýtt listrænt teymi til leiks. Arn-
björg María Danielsen leikstýrir og
gerir leikgerðina í samvinnu við þýð-
andann, Ingibjörg Jara Sigurðar-
dóttir hannar leikmynd og búninga
og Herdís Stefánsdóttir semur tón-
listina,“ segir Brynhildur sem er full
tilhlökkunar að sjá útkomuna. „Arn-
björg er með brakandi ferskan leik-
hóp, þau Völu Kristínu Eiríksdóttur,
Láru Jóhönnu Jónsdóttur og Jörund
Ragnarsson auk þess sem við bjóð-
um til okkar tveimur nýútskrifuðum
leikurum, þeim Árna Þór Lárussyni
og Daníel Takefusa, sem báðir lærðu
leiklist í London.
Fagna 40 ára leikafmæli sínu
Fyrsta frumsýning á nýju ári
verður Sölumaður deyr eftir Arthur
Miller í þýðingu Kristjáns Þórðar
Hrafnssonar og leikstjórn Kristínar
Jóhannesdóttur á Stóra sviðinu 15.
janúar. „Þarna er um að ræða stór-
virki Millers sem Kristín ætlar að
skoða út frá heimspeki Jean-Pauls
Sartres, sem er gríðarlega spenn-
andi. Gyða Valtýsdóttir semur tón-
listina, Brynja Björnsdóttir hannar
leikmyndina og Þórunn María Jóns-
dóttir búningana. Það er því mikið
kvennafans sem stendur að uppsetn-
ingu þessa mjög svo karllæga
verks,“ segir Brynhildur og bendir á
að meðal nýrra leikara séu Þor-
steinn Bachmann, Stefán Jónsson og
Rakel Ýr Stefánsdóttir, sem er nýút-
skrifuð úr LHÍ. „Í aðalverkum eru
Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda
Björnsdóttir, sem með þessari upp-
færslu fagna 40 ára leikafmæli sínu.“
Tónleikhús fyrir börn
Leikritið Taktu lagið Lóa eftir
Jim Cartwright í þýðingu Braga
Valdimars Skúlasonar verður frum-
sýnt á Nýja sviðinu í mars. „Þar
heldur Þóra Karítas Árnadóttir um
taumana en hún leikstýrir þessum
gullmola Cartwrights. Rakel Björk
Björnsdóttir fer með titilhlutverkið
sem er margslungið og fallegt,“ seg-
ir Brynhildur og bendir á að Katla
Margrét Þorgeirsdóttir fari með
veigamikið hlutverk móður Lóu.
„Þetta er í senn harmræn og fyndin
saga, en í aðstæðum verksins er ekki
pláss fyrir þá næmni, fegurð og kær-
leika sem Lóa býr yfir. Þriggja
manna hljómsveit verður á sviðinu
og því spilað á allan tilfinningaskal-
ann.“
Ég hleyp eftir Line Mørkeby í
þýðingu Auðar Övu Ólafsdóttur og
leikstjórn Baldvins Z birtist á Nýja
sviðinu í vor. „Þarna ætlar okkar
allra besti Gísli Örn Garðarsson að
hlaupa til góðs,“ segir Brynhildur,
en tekjur Gísla Arnar af sýningunni
renna til samtakanna Nýrrar dög-
unar, Bergsins, Ljónshjarta og
Dropans. „Þetta er frábært leikrit
sem fjallar um mann sem byrjar að
hlaupa eftir barnsmissi,“ segir
Brynhildur, en ráðgert er að Gísli
Örn þurfi að hlaupa 10-12 km á
hverri sýningu. „Síðasta frumsýning
leikársins er svo upplifunarleikhús
Kristjáns Ingimarssonar sem snýr
okkur öllum á hvolf í Room 4.1 –
Live. Þátttakendur eru leikarar
Borgarleikhússins og dansarar
Íslenska dansflokksins,“ segir Bryn-
hildur, en frumsýnt verður á Stóra
sviðinu í mars.
Að vanda býður Borgarleikhúsið
upp á tvær samstarfssýningar á leik-
árinu, en í ár er um tvær barnasýn-
ingar að ræða. Annars vegar Stúlk-
an sem stöðvaði heiminn í leikstjórn
Helgu Arnalds, sett upp í samstarfi
við sviðslistahópinn 10 fingur, sem
frumsýnd verður á Litla sviðinu 30.
október og hins vegar Fuglabjargið
eftir Birni Jón Sigurðsson í leik-
stjórn Hallveigar Kristínar Eiríks-
dóttur, sett upp í samstarfi við sviðs-
listahópinn Hin fræga önd, sem
frumsýnd er á Litla sviðinu í janúar.
„Í Stúlkunni sem stöðvaði heim-
inn er á myndrænan, fræðandi og
fallegan hátt verið að fjalla um sóun,
rusl og hvernig við ætlum að hugsa
um heiminn okkar. Þau notast við
vídeóvörpun til að segja söguna þar
sem hið smæsta verður hið stærsta,“
segir Brynhildur og bendir á að
áhorfendum verði boðið að taka þátt
í listasmiðju að sýningu lokinni.
„Fuglabjargið er áferðarfagurt
tónleikhús fyrir börn þar sem hljóð-
færaleikarar og söngvarar verksins
bregða sér í allra fugla líki,“ segir
Brynhildur, en tónlist verksins er í
höndum Ingibjargar Ýrar Skarp-
héðinsdóttur. „Áhorfendur fá að
fylgjast með einu ári á eyjunni
Skrúði fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar
og kynnast fuglalífinu þar.“ Auk
þess verða barnasýningarnar Gosi,
sem hlaut Grímuna 2020 sem barna-
sýning ársins og Jólaflækja einnig
sýndar á leikárinu.
Ragnar með Skyndileikhús
Þrjár gestasýningar verða sýndar
í Borgarleikhúsinu í vetur. Fyrst ber
þar að nefna Rocky eftir Tue Bier-
ing í leikstjórn Vignis Rafns Val-
þórssonar sem sýnd verður á Nýja
sviðinu í febrúar. „Það er ótrúlega
gaman að geta tekið á móti Rocky í
uppfærslu Óskabarna ógæfunnar,
enda féllum við algjörlega fyrir
þessari sýningu sem er bæði ætandi
og tætandi ,“ segir Brynhildur og
rifjar upp að Sveinn Ólafur Gunn-
arsson hafi fengið Grímuna 2020
sem leikari ársins fyrir hlutverk sitt.
„Hinar tvær gestasýningarnar
eru óperur sem sýndar verða undir
hatti Óperudaga í Reykjavík í októ-
ber. Þetta eru óperurnar Kok eftir
Þórunni Grétu Sigurðardóttir í leik-
stjórn Kolfinnu Nikulásdóttur og
Corpo Surreal sem unnin er í sam-
starfi við Alþýðuóperuna. „Það er
gríðarlega spennandi að geta boðið
upp á óperusýningar í Borgarleik-
húsinu,“ segir Brynhildur.
„Í fyrra hóf göngu sína verkefnið
Kvöldstund með listamanni, sem
tókst afar vel og verður framhaldið í
vetur. Fyrsta kvöldstundin nefnist
Fílalag og verður í október þar sem
Bergur Ebbi og Snorri Helgason fíla
lag í anda samnefnds hlaðvarps
þeirra,“ segir Brynhildur og bendir
á að seinni hluti sýningarinnar verði
nokkurs konar barsvar. „Milda
hjarta hefur síðan göngu sína í nóv-
ember, en þar mun tónlistarmað-
urinn Jónas Sig taka áhorfandann
með sér í óvenjulegt ferðalag tals og
tóna frá krumpaðri karlmennsku til
mennsku hins milda hjarta,“ segir
Brynhildur, en leikstjóri verksins er
Þorsteinn Bachmann. „ Vera Illuga-
dóttir og Hallur Ingólfsson stíga svo
á svið með Í ljósi sögunnar í janúar,
en um er að ræða fjórar kvöld-
stundir í samstarfi við RÚV.
Hér í Borgarleikhúsinu verður því
í vetur hægt að upplifa alla liti lífsins
– en eins og við vitum eru þeir bæði
bjartir og dimmir,“ segir Brynhildur
og bendir á að sem viðbragð við kóf-
inu ætli Borgarleikhúsið að auki að
bjóða upp á Skyndileikhús. „Það eru
viðburðir sem auglýstir verða með
stuttum fyrirvara og aðeins haldnir
einu sinni. Þeir eru hugsaðir sem
nokkurs konar stækkuð mynd af
streyminu okkar, sem mæltist afar
vel fyrir í vor. Fyrsti viðburðurinn
er 24. september en þá sameina
Saga Garðarsdóttir, Ugla Egils-
dóttir og Ragnar Kjartansson krafta
sína á Stóra sviðinu í óvæntum leik.
Loks má nefna að við höldum áfram
að bjóða upp á textun sýninga á
Stóra sviðinu þar sem áhorfendur
geta í gegnum smáforrit fengið text-
un á íslensku, ensku og pólsku.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Hægt að upplifa alla liti lífsins“
Veisla, Sölumaður deyr, Orlandó og Níu líf meðal sýninga í Borgarleikhúsinu á komandi leikári
„Okkar aðalhlutverk er að halda utan um hug og hjarta landsmanna,“ segir borgarleikhússtjóri
Kraftur Brynhildur
Guðjónsdóttir borg-
arleikhússtjóri.