Morgunblaðið - 24.12.2020, Síða 34

Morgunblaðið - 24.12.2020, Síða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. DESEMBER 2020 Í vor gerðist það, af ástæðum sem óþarfi er að tíunda, að við Víkingur vorum báðir heima á Íslandi svo vikum og mánuðum skipti. Fyrirætlanir um tónleikaferðir annars vegar og ferðir á bókmenntahátíðir hins vegar hurfu út í tómið, og þess í stað komst það upp í vana hjá okkur að hittast síðdegis á hverjum föstudegi, frá páskum fram á sumar. Víkingur átti vikulegt stefnumót við hlustendur BBC á föstudögum, þar sem hann spil- aði tónlist í beinni útsendingu í menningarþættinum Front Row. Tónunum var streymt alla leið til Bretlands úr Hörpu, og þar sat ég yfirleitt einn úti í sal og hlustaði. Á þessum fundum okkar, að tónleikum loknum, kom einhvern tímann til tals að gaman væri að skrifa smásögu saman, þar sem væri ekki fjallað um glæp og refsingu heldur glæp og tónlist. Við létum slag standa og útkoman var þessi saga, sem birt verður í Bandaríkj- unum á nýju ári, en kemur þó fyrst fyrir augu lesenda Morgunblaðsins. RJ Víkingur Heiðar Ólafsson Ragnar Jónasson Karl reyndi að koma sér þægilega fyr-ir í miðjum tónleikasalnum. Hannvar aðeins farinn að svitna, var enní þykkum frakkanum sem hann hafði ekki viljað skilja eftir í fatahenginu, fremur en vanalega. Hver sem var gat vaðið þangað inn og Karli hafði lærst að það borgaði sig að fara að öllu með gát. Þrettánda röð, þriðja sæti. Alltaf sama sæt- ið. Eini staðurinn í salnum þar sem hljóm- blöndunin var svo gott sem fullkomin, hljóð- bylgjurnar streymdu fram eins og svalandi sjávargola. Þegar hann keypti sér áskrift- arkortið hafði systir hans sagt sinni áskrift upp. Hún hafði yppt öxlum, sagst vilja taka sér hlé, það tengdist honum vitanlega ekki á nokk- urn hátt. Þetta hlé hafði nú varað í áratug. Þau höfðu aldrei sótt tónleika saman. Karl hafði valið þessa tónleika sérstaklega, þeir hæfðu tilefninu. Efnisskráin var enda óvenjuleg: Á undan sinfónísku verkunum voru sjaldheyrð söngverk eftir endurreisnarmann- inn Carlo Gesualdo, þeirra á meðal Moro, lasso, al mio duolo. Karl hafði lengi haft mikið álit á Gesualdo, hann hafði verið sannkallaður brautryðjandi á sinni tíð. Og tónlistin – það var engu líkara en engill hefði sungið í annað eyra hans en djöfullinn hvíslað í hitt. Karl hafði aldrei heyrt Moro, lasso flutt á tónleikum og fann að hjartað sló örar en venjulega. Systir hans hafði verið ekkja í tólf ár. Emil, maðurinn hennar, hafði auðgast verulega á sölu símsvara á níunda áratugnum. Hann hafði snemma farið á eftirlaun og týnst einhvers staðar í hyldýpi alls þess tíma sem skyndilega var aflögu. Systkinin voru ekki náin, síður en svo. Raunar hafði Karl átt meira sameiginlegt með Emil. Þeir höfðu notið samvista hvor við ann- an, strengurinn á milli þeirra varð sífellt sterk- ari. Einhvern tíma kviknaði sú hugmynd hjá þeim að Karl flytti hreinlega inn til þeirra hjóna. Þau voru barnlaus og bjuggu í húsi sem taldi heil sjö svefnherbergi. Systir Karls lét að lokum undan. Emil hafði bæði tögl og hagldir þegar hann kaus og hann hafði sannfært hana um að vel væri hægt að haga málum þannig að hún þyrfti ekki að eyða of miklum tíma með Karli. Ljósin í salnum dofnuðu og þögnin lagðist yfir. Hún var óvenjuáþreifanleg í kvöld. Karli fannst eins og sessunautar hans hlytu að geta heyrt í honum hjartsláttinn sem minnti helst á úr sér genginn taktmæli. Fimm söngvarar stigu loks fram og fengu fjögur hundruð ára hljómabreiður Gesualdos til að hljóma nútíma- legar en nokkuð annað sem Karl hafði heyrt þennan vetur. Gesualdo gat á einu augnabliki látið hrikta í stoðum heimsins. Það var gleði í einum hljómi, þjáning í næsta, örvænting í þeim þriðja áður en friðsæl sátt fylgdi þeim fjórða. Tónlistin hafði yfir sér einrænan blæ sem á köflum var allt að því óhugnanlegur. Einn hugur, fimm raddir, hver hafði sína sögu að segja. Í fegurðinni bjó brjálæði. Skömmu eftir að Karl flutti inn til þeirra hjóna lést Emil. Hann hafði verið hjartveikur og einn morguninn kom hann einfaldlega ekki niður í morgunmat. Karl bjó áfram hjá systur sinni. Hann gat eiginlega ekki flutt annað, hafði misst vinnuna í menntaskólanum skömmu áður en hann flutti inn. Hann hafði svo sem ekki mótmælt uppsögninni sem var að einhverju leyti út af miklum fjarvistum. Það hafði komið í hans hlut að sinna öldruðum föð- ur þeirra síðustu æviárin. Systir hans hafði nær aldrei gefið sér tíma til þess að létta undir með honum, en tók loks við sér síðustu dagana sem gamli maðurinn lifði. Þegar kom að kveðjustundinni krafðist hún þess að fá að vera ein með honum. Þau hefðu alla tíð verið óvenjunáin og gamli maðurinn þyldi varla nema einn í einu við rúmstokkinn eins og kom- ið var fyrir honum. Hún kunni að hefna sín. Karl lokaði augunum. Svíðandi sársaukinn streymdi um æðarnar þegar söngverkið færð- ist nær óumflýjanlegum endalokunum. „Ó hörmulegu örlög, sú sem lífið tendrað gæti, færir mér feigð.“ Foreldrar þeirra systkina skildu skömmu eftir að Karl fæddist. Systir hans var tíu árum eldri og stundum fékk hann á tilfinninguna að hún kenndi honum um hvernig fór fyrir hjóna- bandinu. Hann kynntist henni ekki almenni- lega fyrr en á fullorðinsárum og nú, eftir að þau höfðu búið undir sama þaki í tólf ár, þekktu þau hvort annað býsna vel. Auðvitað hlaut hún að vita að Karl ætti elskhuga og hefði raunar átt allan þann tíma sem hann hafði búið hjá henni en það ræddu þau aldrei. Þögnin ríkti í eitt augnablik áður en fagn- aðarlætin brutust út, og einmitt þá fann Karl fyrir yfirþyrmandi létti. Tónlistin er samviska mín, hugsaði hann með sér. Systir hans hafði árum saman átt við van- heilsu að stríða svo að hann vissi að fyrr eða síðar myndi hann erfa hana. Hún lét hann hins vegar bíða, ár eftir ár. Dæmigert fyrir hana að vera svona lífseig, þvert á allar líkur. Hún var líkamlega þrotin en bjó þó ævinlega yfir nægu þreki til að minna á að hann bjó endurgjalds- laust hjá henni, láta hann snattast fyrir sig daginn út og daginn inn, kaupa í matinn og elda, þvo þvott, þrífa ... jafnvel sjá um fjár- málin. Hann var fangi í eigin lífi. Karl veitti því nú athygli að sessunautar hans og kunningjar, læknahjónin, voru staðin á fætur og klöppuðu ákaft. Þau höfðu átt áskrift- armiða í sæti eitt og tvö í þrettándu röð um árabil. Hann stóð sömuleiðis á fætur, rétti vel úr sér og splæsti í eitt bravó. Tónlistin hafði losað um eitthvað innra með honum. Hann vissi að þegar hann kæmi heim gæti endurreisnin hafist. Fyrir nokkrum vikum hafði hann verið að vinna í skattframtalinu hennar og spurt kæru- leysislega hvort hún hefði gert erfðaskrá. „Af hverju ætti ég að gera það? Þú eignast þetta hvort sem er allt,“ hafði hún svarað. Þá um kvöldið hafði hann valið þessa tón- leika. „Láttu þetta líta út eins og misheppnað inn- brot,“ voru fyrirmælin sem hann gaf elskhuga sínum. Auðvitað yrði þetta krefjandi kvöld. Karl myndi finna líkið, hringja í lögregluna og gera grein fyrir því að hann hefði verið á tónleikum allt kvöldið. Hann hafði spjallað við læknahjón- in áður en tónleikarnir hófust og þau myndu staðfesta þessa fullkomnu fjarvistarsönnun. Ég trúi þessu ekki. Mér þótti svo óend- anlega vænt um hana. Hann hafði æft sig að kreista fram tár. Og svo þegar búið væri að fjarlægja líkið gæti hann komið sér vel fyrir í stofunni sinni og hlustað aftur á Gesualdo. Morgunblaðið/Ómar Tónleikarnir Jólasaga eftir Ragnar Jónasson og Víking Heiðar Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.