Morgunblaðið - 31.12.2020, Page 41

Morgunblaðið - 31.12.2020, Page 41
STJÓRNMÁL 41 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. DESEMBER 2020 Aldrei hefði mig órað fyrir því í upphafi ársins sem kveð-ur nú senn, að þetta ár skyldi einkennast af hatrammriheimsstyrjöld gegn ósýnilegum óvini af stofni kórónu-veiru. Að þessi áramótagrein mín í Morgunblaðinu myndi öðrum þræði fjalla um Covid-19 og þær afleiðingar og hörmungar sem heimsfaraldurinn hefur haft á okkur öll. Ein- angrun, sóttkví, ótti og dauði eru hugtök sem við þekkjum orðið allt of vel. Hugtök sem fylgja og einkenna þessa styrjöld þar sem öll heimsbyggðin er undir. Ég ætla þó ekki bara að skrifa um þetta heldur líka það stóra verkefni sem bíður okkar allra á nýju ári. Bjartsýni, samstaða og samkennd skulu verða einkunnar- orðin. Hvern hefði grunað? Öll þekkjum við söguna. Í janúar sl. tóku fréttir að leka út frá Wuhan í Kína um stórhættulega veiru sem virtist dreifa sér með ógnarhraða og valda miklum skaða. Hér var á ferðinni óþekkt af- brigði sem síðar kom í ljós að lagðist harkalegast á eldra fólk og þau sem voru með undirliggjandi sjúkdóma. Það var þó ekki al- gilt og veiran felldi einnig ungt, hraust fólk sem kenndi sér ekki nokkurs meins, en það heyrði fremur til undantekninga. Svona getur lífið sífellt komið okkur öllum á óvart. Með nýjum degi fæðast oft nýjar áskoranir. Hið sama má auðvitað segja um árin. Í árslok 2019 grunaði engan að við þyrftum öll að glíma við óþekktan og skæðan smitsjúkdóm á árinu 2020. Við upplifum öll þessa baráttu með mismunandi hætti vegna þess að við búum við ólíkar aðstæður. Sjálf get ég einungis sagt frá því hvernig veiran heggur að mér og mínum nánustu, í þeirri von að mín saga segi þeim sem lesa og eiga erfitt að þau eru ekki ein. Við erum öll að upplifa þessa baráttu í sameiningu. Öll mynd- um við eina heild sem nú skal stefna til sigurs á veirunni á nýju ári. Dóttir okkar sýktist Nú verð ég svolítið væmin, en veit að þið sem eigið börn skiljið hvað ég er að meina. Það er alveg sama þótt barnið okkar sé full- orðið, þá er það alltaf barnið okkar. Dóttir mín fékk Covid-19 í mars. Ung og hraust, starfandi hjúkrunarfræðingur. Hún lenti ekki inni á sjúkrahúsi, enda bjó hún ekki hjá mér, móður sinni, sem hefði örugglega drifið hana þangað um leið og ljóst var að hún átti erfitt með öndun. En svona er heilbrigðisstarfsfólkið okkar, dugmikil, hugrökk, úrræðagóð og þrautseigar mann- eskjur sem taka þarfir annarra alltaf fram yfir sínar eigin. Ástkær dóttir mín barðist við óværuna vikum saman áður en Covid-teymið útskrifaði hana sem hún væri búin að ná bata. Hún var svo sem ekki lengur smitandi fyrir aðra, en eftirköstin eftir þessa útskrift voru vægast sagt ömurleg. Þar á meðal voru sótt- hitaköst, orkuleysi og andnauð við minnstu hreyfingu. Þarna gátu allir sem til þekktu, og þar með ég, séð að hvergi fór á milli mála að hér var engin venjuleg veiruflensa á ferð, þótt til séu þeir sem vilja halda öðru fram. Sem betur fer eru það þó mun fleiri sem viðurkennt hafa þá dauðans alvöru sem veiran ber með sér. Sóttkví og einangrun Ég er svo lánsöm að eiga báða foreldra á lífi. Pabbi er ríflega níræður og mamma rúmlega áttræð. Það er fallegt samband á milli þeirra þrátt fyrir að þau hafi slitið hjúskap fyrir rúmum fjörutíu árum. Misjafnt er hvernig elli kerling sækir okkur heim. Mamma er eins og unglamb sem býr ein í lítilli íbúð, á meðan pabbi getur ekki lengur sinnt daglegum þörfum sínum sjálfur og býr nú hjá mér í Reykjavík. Það dapra við það er að hann vildi aldrei fara í burtu frá heimabæ okkar Ólafsfirði þar sem hann hefur lifað nánast allt sitt líf. Enginn veit sína ævina eins og þar stendur. Ég þarf ekki einungis að vernda elsku pabba minn gegn veir- unni hér heima, heldur og manninn minn og um langan tíma ung- an dótturson sem flutti til okkar þegar móðir hans veiktist af óværunni. Þess vegna hef ég þurft að sinna sérstaklega vel öllum sóttvörnum bæði heima og að heiman. Það lætur nærri að um sex mánuði ársins hafi ég verið í sjálfskipaðri sóttkví og nánast ein- angrun á heimili okkar þar sem enginn hefur farið út nema brýn nauðsyn krefði. Aðföng til heimilisins hafa verið keypt gegnum netið. Fátækt í kjölfar veiru Sem alþingismaður hef ég aðlagast algjörlega nýju starfsum- hverfi og nýrri tækni sem er það eina jákvæða sem hefur komið með veirunni og ég kem auga á í augnablikinu. Fjarfundabúnaður og annað sem tilheyrir netinu býður upp á frábærar lausnir sem gerði okkur kleift að sinna störfum okkar heiman frá. Ekki veit ég hreinlega hvernig heimurinn hefði komist af í gegnum þessar þrengingar ef við hefðum ekki haft netið. Daglegir fjarfundir fastanefnda þingsins hafa á þessu ári ein- kennst af því að leitast við að slökkva þá elda sem tendruðust af völdum veirunnar. Aldrei í heila öld höfum við orðið fyrir öðru eins efnahagsáfalli og nú. Aldrei önnur eins skuldasöfnun, sem lætur nærri að verði um 600 milljarðar króna á þessu ári og hinu nýja sem gengur í garð á miðnætti. Aldrei annað eins atvinnuleysi og önnur eins vaxandi fátækt og ójöfnuður. Örbirgð sem einkennst hefur af vonleysi og vanlíðan yfir því að vera fastur í það rammgerðri fátæktargildru að engin leið er að brjótast úr henni. Lengdar raðir kvíðinna sorgmæddra foreldra og einstaklinga við hjálparstofnanir sem gefa fátæku fólki mat segja okkur allan sannleikann um það. Ríkisstjórnin ber skömm Ég viðurkenni að krefjandi og öflugt verk hafi verið unnið af hálfu stjórnvalda í þeim aðstæðum sem hafa skapast. Þetta hefur iðulega verið gert undir mikilli pressu og við í Flokki fólksins höf- um sýnt fullan vilja til að greiða fyrir framgöngu og styðja mörg verk ríkisstjórnarinnar. Við höfum þó gagnrýnt og reynt að vara við þegar okkur hefur þótt stefna í óefni, svo sem fyrst þegar veiran var að koma fram og stjórnvöld virtust fljóta sofandi að feigðarósi. Einnig vorum við ósátt við opnun landamæranna í sumar og alltof linar reglur varðandi umferð um þau allar götur síðan. Þetta voru dýrkeypt mistök sem skrifast alfarið á stjórn- arflokkana og við erum enn að súpa seyðið af. En nóg um það að sinni. Það sem ríkisstjórnin má þó skammast sín mest fyrir, er að hafa ekki á slíkum hættutímum tekið betur utan um þau sem eiga bágast í samfélaginu. Já, ég segi það aftur. Þau mega skammast sín, því með aðgerðaleysi sínu í þágu þeirra sem standa höllustum fæti, þá viðhalda þau og gera illt verra í aðstæðum þessa fólks. Það magnast upp fátækt sem kemur harðast niður á saklausum börnunum sem ekki geta með nokkru móti skilið ástæður þess að þau eru sett hjá garði, skilin útundan og fá ekki að taka þátt með öðrum börnum. Ég hef þungar áhyggjur af stöðu atvinnulausra, ekki síst barnafjölskyldna í þeim hópi, en líka einstæðra foreldra. Gamla fólkið okkar þjáist og öryrkjarnir líka. Það skal sagt hér og aldrei of oft tekið fram. Hratt versnandi félagslegar aðstæður tugþúsunda Íslendinga er mannanna verk og alfarið á ábyrgð valdhafanna. Flokkur fólksins hefur lagt fram hverja tillöguna og frumvarpið á fætur öðru bæði á þessu löggjaf- arþingi og hinum fyrri á kjörtímabilinu. Öll okkar mál snúast um það að hjálpa öllum en ekki bara sumum. Við berjumst gegn hvers konar mismunun og fátækt. Orrustan sem má ekki tapast Nú hafa um 82 milljónir manna sýkst af Covid-19 og tæplega 1,8 milljónir dáið af völdum sjukdómsins. Glíman við að halda far- sóttinni í skefjum hefur án efa verið ein sú mesta raun sem þjóðin hefur þurft að glíma við á lýðveldistímanum. Árið 2020 verður fæstum harmdauði. Þess vegna, kæru lesendur, er ástæða til að gleðjast yfir því sem við flest a.m.k. höfum beðið eftir. Við höfum loks fengið vopn í hendur sem kveða óvættinn niður. Sigur er í augsýn og við skulum ganga bjartsýn til framtíðar. Bóluefni sem ver okkur gegn veirunni er farið að berast til landsins. Fyrsti bólusetningardagurinn 29. desember 2020 er dagur mikilla væntinga og vafalaust tímamótadagur fyrir okkur öll í þessari hatrömmu styrjöld við ósýnilegan óvæginn andstæð- ing sem við ætlum að gjörsigra á nýja árinu. Nú hvílir sú skylda á ríkisstjórninni að útvega nægt bóluefni bæði fljótt og hnökra- laust. Öryggi og framtíð okkar heilbrigðu og hraustu þjóðar velt- ur á því að við náum vopnum okkar á nýju ári. Vei þeim ef þau klúðra þessu. Þessi lokaorrusta er til úrslita og þar er tap enginn valkostur. Stöndum saman Ég hvet okkur öll til dáða. Slökum ekki á sóttvörnunum strax, það er alls ekki tímabært þótt daginn sé tekið að lengja og sólin að hækka á lofti á ný. Snúum bökum þétt saman og verndum hvert annað sem aldrei fyrr. Við verðum vitni að ömurlegum mis- tökum æðstu stjórnenda sem ítrekað hafa sniðgengið reglurnar, en látum þeirra mistök ekki verða okkar fordæmi. Til að sigra í stríðinu þarf herinn að standa saman sem einn maður. Einn fyrir alla og allir fyrir einn, það er kjörorðið okkar í dag. Þegar við drögum svo sigurfánann að húni á nýju ári þá taka við nýjar áskoranir. Við þurfum að reisa við efnahag heillar þjóð- ar. Það munum við gera öll sem eitt. Við búum í landi þar sem innviðir eru sterkir þrátt fyrir allt. Mannauðurinn er okkar dýrmætasta eign. Þjóðin er vel mennt- uð, hraust og úrræðagóð. Ég er ekki í nokkrum vafa um að okkur muni á árinu 2021 takast að vinna til baka það sem hefur tapast í efnahagslegu tilliti á árinu 2020. Fólkið fyrst „Fólkið fyrst og svo allt hitt,“ eru kjörorð Flokks fólksins. Verkefni stjórnmálanna á nýju ári liggja augljóslega í endur- reisninni. Okkur ber öllum skylda til þess að hjálpa þeim sem hafa orðið fyrir skakkaföllum í þeim hremmingum sem sam- félagið okkar allra varð fyrir á árinu sem er að líða. Stjórnmálamönnum ber að hafa þetta í huga við endurreisn- ina. Bitur reynsla eftir hrunið 2008, ætti að kenna okkur að sam- félag okkar mun einungis tapa og bíða tjón sem seint eða aldrei fæst bætt, ef við komumst frá þessari farsótt með þúsundir brot- inna borgara sem fallið hafa í hyldýpi fátæktar. Höfum bjartsýni, samkennd og samstöðu að leiðarljósi á nýju ári og þá mun okkur farnast vel. Skiljum engan út undan og mun- um að lítið bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ég óska landsmönnum öllum gæfu og friðar á nýju ári. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Höfum bjartsýni, samkennd og samstöðu að leiðarljósi á nýju ári og þá mun okkur farnast vel. Skiljum engan út undan og munum að lítið bros getur dimmu í dagsljós breytt. Stöndum saman og höfum fullan sigur á nýju ári

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.