Gerðir kirkjuþings - 2018, Page 6
6 7
Á ýmsu hefur gengið á þessum fjórum árum en í haust komst skriður á samtal milli
aðila og stutt er í að drög að samkomulagi verði tilbúinn. Gerð verður grein fyrir stöðunni
á þessum viðræðum á sérstökum fundi kl. 13.00 á þriðjudag.
Í upphafi viðræðnanna vildi ríkið hafa það að leiðarljósi í samtalinu að stefnt væri að
mjög auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar og að fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju væru
einfölduð. Þegar þessar viðræður fóru aftur af stað í haust kom enn betur í ljós að það
er vilji ríkisins að það hafi sem minnst afskipti af starfi kirkjunnar. Hugmynd ríkisins er
að þjóðkirkjan annist um öll sín mál sjálf, prestar verði starfsmenn kirkjunnar en ekki
embættismenn ríkisins. Fjármál öll, þ.m.t. bókhald og endurskoðun, verði ekki á ábyrgð
ríkisins heldur taki þjóðkirkjan við þeim verkefnum öllum. Ráðherra annist ekki um
verðskrá fyrir aukaverk presta og greiðslur samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu verði
ekki háðar fjölda presta eða annarra starfsmanna. Sem sagt sjálfstæð þjóðkirkja sem ber
ábyrgð á sjálfri sér. Þjóðkirkja sem þarf að leggja á djúpið við talsvert breyttar aðstæður.
Ef niðurstaða samtalsins verður þessi og ef í framhaldinu samþykki kirkjuþing og
Alþingi slíkan samning mun það þýða breytingar. Þetta mun kalla á lagabreytingar og að
kirkjuþing setji starfsreglur sem komi í stað þeirra laga sem verður breytt eða felld á brott.
Þá er spurning hvort skipulag kirkjunnar sé það skipulag sem best hentar henni til að
takast á við þær áskoranir sem blasa við.
Að mínu mati þarf kirkjuþingið að ræða í hreinskilni hvar þjóðkirkjan er stödd, hvert
fólk vilji að hún fari og svo auðvitað hvernig komast megi á áfangastað.
Auknu sjálfstæði fylgir aukin ábyrgð. Ríkisvaldið ætlast til þess að ef þessar breytingar
verði að veruleika þá sé umsýsla kirkjunnar með þá fjármuni sem ríkið mun greiða
þjóðkirkjunni vönduð, reglur skýrar, ákvarðanataka og uppgjör í samræmi það sem best
þekkist í þeim efnum. Það eru og hagsmunir þjóðkirkjunnar að svo sé. Vönduð stjórn og
fjársýsla hefur áhrif á viðhorf fólksins í landinu til kirkjunnar og það viðhorf mun skipta
miklu. Sjálfstæðari kirkja í breyttu lagaumhverfi mun þurfa að taka ábyrgð í ríkari mæli á
ýmsum viðfangsefnum.
Breytt lög um skráningu barna í trúfélög munu hafa áhrif á fjölda þeirra sem skráðir eru í
þjóðkirkjuna þegar þau börn sem fædd eru eftir að lögin tóku gildi verða 16 ára. Þjóðkirkjan
þarf að huga að félagatali sínu, ekki bara eftir 10 ár heldur strax. En það er ekki einfalt.
Ný persónuverndarlög gera þetta erfitt. Má í því sambandi vísa í frétt í Morgunblaðinu s.l.
fimmtudag á bls. 6 um breyttar reglur hjá Þjóðskrá Íslands. Fjöldi félaga í þjóðkirkjunni
hefur bein áhrif á greiðslur til þjóðkirkjunnar samkvæmt kirkjujarðarsamkomulaginu
og greiðslum til sjóða sem og auðvitað heildarupphæð sóknargjalda. Til að tryggja
fjárhagsstöðu kirkjunnar þarf að huga að fjölda skráðra sóknarbarna.
Þau koma upp í hugann orðin úr Matteusi 4. kafla, 19. versi:
„Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða“.
Þetta verður eitt af stóru verkefnum þjóðkirkjunnar til að tryggja félagafjölda, getu til
að veita fólki góða þjónustu og svo auðvitað til að sinna skyldu sinni samkvæmt 28. kafla
Matteusarguðspjalls um kristniboðsskipunina í versi 19. og 20.
Það er ekki ósennilegt að það þurfi að svara spurningunni: „Af hverju á ég að vera í
þjóðkirkjunni, hvað fæ ég út úr því?“ Á að vera munur á aðgengi að þjónustu eftir því