Gerðir kirkjuþings - 2018, Side 9
9
Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar
Biskup Íslands, fulltrúar kirkjuþings.
Það er mér ánægja að fá þetta tækifæri til að ávarpa, hér í Vídalínskirkju í Garðabænum,
þetta kirkjuþing. Ég stend hér í forföllum hæstvirts dómsmálalaráðherra, Sigríðar Á.
Andersen.
Mig langar að gera að umtalsefni samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins.
Á þessu ári eru liðin tuttugu ár síðan lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti
þjóðkirkjunnar tóku gildi. Lögin voru afrakstur nefndarstarfs sem staðið hafði frá árinu
1993 og höfuðforsendur þess voru þrjár:
• Í fyrsta lagi að veruleg aukning á innra starfi kirkjunnar og örar breytingar á því
kölluðu á breytingar á kirkjulöggjöfinni og jafnframt á aukna og styrkta stjórnsýslu á
kirkjulegum vettvangi.
• Í öðru lagi að búsetu- og þjóðfélagsbreytingar, ásamt breyttum og bættum samgöngum,
kölluðu á aukinn sveigjanleika í starfi kirkjunnar.
• Í þriðja lagi að umræða á pólitískum vettvangi um að endurskoða þyrfti samband ríkis
og kirkju kallaði á svar stjórnvalda og kirkjunnar sjálfrar um heppilega og eðlilega
framtíðarskipan um stöðu hennar.
Eins og þið heyrið, þá hljómar flest í þessum tuttugu ára gömlu forsendum mjög kunnuglega
í dag. Enn stöndum við í þeim sporum að kirkjan þarf meiri sveigjanleika í sínu starfi og
meira sjálfstæði. Bæði til að svara breyttum þjóðfélagsaðstæðum og til að svara ákalli um
aukið sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu. Það er líka svo, að á vegum kirkjuþings hefur
allt frá árinu 2007 staðið yfir vinna við endurskoðun laganna frá 1997.
En það eru þó ekki bara lögin sjálf um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem
hafa kallað á endurskoðun. Það sama á ekki síður við um þá samninga sem eru í gildi
á milli ríkisins og kirkjunnar. Með svonefndu kirkjujarðasamkomulagi voru árið 1997
settar niður gamlar deilur um uppgjör vegna fjölda fasteigna sem ríkið hafði fengið frá
kirkjunni. Fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju voru svo útfærð enn frekar í samningi
árið 1998. Samkvæmt þessum samningum greiðir ríkið laun ákveðins hóps starfsmanna
þjóðkirkjunnar, en kjararáð hafði það hlutverk að úrskurða um fjárhæð launanna og þar
með um endanlega fjárhæð árlegs gagngjalds ríkisins fyrir umræddar jarðir. Nú hefur
kjararáð verið lagt niður og um þessar mundir stendur yfir kynning á nýju fyrirkomulagi
við launasetningu hjá miklum fjölda ríkisstarfsmanna. Það verður því einfaldlega ekki hjá
því komist að endurskoða það hvernig við reiknum gagngjaldið frá ári til árs.
Fulltrúar ríkisins og kirkjunnar hafa undanfarið ræðst við um hvernig eigi að bregðast
við þessu og hvaða skref eigi að taka fram á við. Þær viðræður eru nú mjög langt komnar
og mér virðist rétt að við reynum að ljúka þeim á allra næstu vikum.
Ég tel langskynsamlegast að við notum þetta tækifæri til að taka stór skref til að þróa
áfram fyrirkomulagið á samskiptum ríkis og kirkju. Ég vil setja fram nokkra punkta sem
ég og dómsmálaráðherrann myndum gjarnan vilja að við yrðum öll sammála um.